Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Frumkvöðlar styrktir um 30,5 milljónir

Við úthlutun styrkja var horft til verkefna sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur ákveðið að starfa eftir.


Íslandsbanki afhenti í dag styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. Alls voru veittar 30,5 milljónir króna til níu verkefna. Sjóðnum bárust alls 140 umsóknir um styrki.

Við úthlutun styrkja var horft til verkefna sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur ákveðið að starfa eftir. Þau eru Menntun fyrir alla, Jafnrétti kynjanna, Nýsköpun og uppbygging og Aðgerðir í loftslagsmálum.

Styrkirnir voru veittir í Norðurturni Íslandsbanka þar sem samhliða fór fram fundur undir yfirskriftinni Frumkvöðlar og nýsköpun. Á fundinum var ný skýrlsa um nýsköpun kynnt, Fjórða stoð hagkerfisins, sem unnin var af Reykjavik Economics fyrir Íslandsbanka.

Stjórn Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka í ár var skipuð Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, Hrund Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu og Unu Steinsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.

Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka:

„Við erum einstaklega ánægð að sjá allar þær fjölmörgum og öflugu umsóknir sem okkur bárust í Frumkvöðlasjóð Íslandsbanka. Það sýnir hversu mikil gerjun er að eiga sér stað í frumkvöðla- og nýsköpunarstarfi hér á landi og endurspeglast enn frekar í nýútgefinni skýrslu sem kemur út í dag í samstarfi við Reykjavík Economics. Eins og fram hefur komið í umræðunni að undanförnu þá er nýsköpun ekki aðeins mikilvæg, heldur nauðsynleg fyrir öflugt atvinnulíf enda er nýsköpun undanfari framfara og þróunar. Íslandsbanki vill vera hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu og við viljum því leggja okkar af mörkum til að efla enn frekar öflugt nýsköpunarstarf á Íslandi.“

Eftirfarandi níu verkefni hlutu styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka:

Miðbik

Starfsemi Miðbiks ehf. hófst um mitt ár 2018. Tilgangur félagsins er að hanna framleiðsluvél sem er sérhæfð til að framleiða kalt viðgerðarmalbik sem er jafnframt sérhannað fyrir Íslenskar aðstæður. Framleiðsluvélin er knúin af endurnýjanlegum orkugjöfum og hefur framleiðsluvél sem þessi ekki verið smíðuð áður svo vitað sé og því mikið nýnæmi sem fylgir hönnuninni.

Girls for Girls

Girls for Girls (i. Stelpur styðja stelpur) er verkefni sem var stofnað við Harvard háskóla árið 2017 og er nú starfandi í tólf ríkjum. Verkefnið hefur það að markmiði að efla færni og tengsl ungra kvenna um allan heim í gegnum „mentora“ hópa. Samstarf er á milli Girls for Girls á Íslandi og í Úganda um að halda vinnustofu undir heitinu „Gender Equality at a Time of Quotas“ í báðum löndum.

Greenvolt

Greenvolt er að þróa rafhlöður framtíðarinnar með hjálp nanótækni. Með því að blanda sérvöldu nanóefni saman við trefjaplast er hægt að búa til batterí sem er falið inn í byggingarefni. Greenvolt batterí eru 100% umhverfisvæn, ofhitna ekki og hlaða sig hraðar en venjuleg batterí. Verkefnið snýst um að búa til sýnishorn af vöru þar sem nanó batteríi er hluti af byggingarefni.

TravAble

TravAble er samfélagslegt  frumkvöðlafyrirtæki sem safnar og skráir á kerfisbundinn hátt upplýsingar um aðgengi að hvers kyns þjónustu og afþreyingu fyrir fólk með hreyfihömlun, t.d. hjólastólanotendur, aldraða og aðra sem eiga erfitt með gang. Viðfangsefnið er nálgast út frá þörfum þess hreyfihamlaða og þeirra sem selja þjónustu, ekki síst ferðaþjónustu. Áhersla er lögð á jákvæða nálgun, þ.e. að sýna einungis það sem er aðgengilegt ekki það sem er óaðgengileg.

Kolfinna

Kolfinna mun gera notendum auðvelt og aðgengilegt að sjá sitt kolefnisfótspor og jafna það út með mánaðarlegri áskrift. Kolfinna mun einnig stuðla að fræðslu og úrlausnum inn á mínum síðum og stuðla að því að minnka kolefnisfótspor einstaklinga.

Verandi

Verandi framleiðir húð- og hárvörur þar sem meginuppistaðan í vörunum eru hráefni sem falla til við aðra framleiðslu, m.a. frá landbúnaði, eða er alla jafna hent. Með því er spornað  gegn offramleiðslu, sóun og eykur nýtingu á afurðum sem nú þegar eru til. Verandi byggir á hugmyndafræði um hringrásarhagkerfi, minni sóun og bættri umhverfisvitund.

GEMMAQ

Markmið verkefnis er að þróa platform fyrir jafnréttisvísitölur og svo kallaða GEMMAQ kynjakvarða, sem mælir kynjahlutföll og jafnrétti meðal fyrirtækja; kynjagleraugu fyrir fjárfesta á alþjóðamörkuðum sjálfbærra kauphalla (Sustainable Stock Exchanges). GEMMAQ kemur til móts við breyttar þarfir fjárfesta og fyrirtækja á mörkuðum sem eru að myndast og fela í sér mikil tækifæri. Það eru rúmlega 30,000 milljarðar Bandaríkjadalir í ábyrgri fjárfestingu um heiminn. Þar af hafa jafnréttismiðaðar fjárfestingar með kynjagleraugum (e. gender-lens investing) vaxið hvað mest og hraðast.

Greenbytes

Greenbytes sérhæfir sig í að áætla eftirspurn eftir hráefnum á veitingastöðum með það að markmiði að minnka sóun. Greenbytes skoðar söguleg gögn, s.s. árstíðarbundna eftirspurn, sölutölur og notast við gervigreind til að áætla eftirspurnina.

Tré lífsins

Tré Lífsins er nýr valmöguleiki við andlát þar sem áhersla er lögð á valfrelsi, umhverfisvernd og að halda minningu ástvina okkar á lofti. Boðið verður upp á persónulegan gagnagrunn sem heldur utan um hinstu óskir, erfðamál og söguna okkar, rafræna minningasíðu þar sem minning hins látna lifir áfram og bálstofu og minningagarða þar sem aska hins látna verður gróðursett ásamt tré. Hvert tré verður merkt með nafni hins látna og QR kóða sem leiðir inn á rafrænu minningasíðu viðkomandi.