Fróði valinn viðkunnalegasta spjallmennið

Fróði, spjallmenni Íslandsbanka, hefur annað árið í röð hlotið verðlaun fyrir að vera viðkunnalegasta spjallmennið (e. most likeable virtual agent) á Boost Camp 2024


Fróði, spjallmenni Íslandsbanka, hefur annað árið í röð hlotið verðlaun fyrir að vera viðkunnalegasta spjallmennið (e. most likeable virtual agent) á Boost Camp 2024, sem er árleg ráðstefna Boost.ai, þjónustuaðila Fróða.

Boost.ai, sem stofnað var í Noregi 2016 í tengslum við sjálfvirknivæðingu banka þar í landi, þjónustar nú fleiri hundruð spjallmenni víða um heim. Verðlaunin eru því mikil viðurkenning fyrir Íslandsbanka.

Í ár var Fróði jafnframt tilnefndur til hvatningarverðlauna fyrir aðgengi (e. inspiring accessibility award) þar sem verðlaun eru veitt fyrir að gera notkun spjallmenna aðgengileg og opin öllum. Enn fleiri geta nú nýtt sér Fróða eftir að hann fékk rödd og skilur að sama skapi fyrirspurnir sem bornar eru fram í töluðu máli.

Við erum mjög þakklát fyrir þessa viðurkenningu, sem byggð er á endurgjöf frá viðskiptavinum bankans. Hún eykur eldmóð okkar og er okkur mikill innblástur í að gera enn betur. Það munum við líka svo sannarlega gera og hlökkum til að þróa Fróða áfram.

Salóme Rúnarsdóttir
Vörueigandi Fróða hjá Íslandsbanka

Spjallmenninu Fróða hefur verið afar vel tekið hjá viðskiptavinum Íslandsbanka, en hann hefur nú staðið vaktina með bankanum í að verða fjögur ár. Um 85 prósent notenda sem gefið hafa honum einkunn með lyndistákni (þumli) eru ánægð með samskiptin við hann.

Fróði býr yfir mikilli þekkingu á bankanum og þjónustu hans og svarar yfir helmingi allra fyrirspurna sem berast í spjallinu hjá Íslandsbanka. Þá hefur góð reynsla af notkun hans líka spurst út og Íslandsbanki fær því allnokkuð af heimsóknum frá fyrirtækjum sem íhuga innleiðingu á spjallmenni og langar að vita meira um notkun þeirra. „Þá hefur Fróði líka nokkrum sinnum tekið þátt í viðburðum eða ráðstefnum, bæði hér heima og erlendis,“ segir Salóme.