Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Frekari lækkun stýrivaxta í kortunum

Við spáum að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka vexti um 0,25 prósentustig við næstu vaxtaákvörðun þann 28. ágúst.


Við spáum að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka vexti um 0,25 prósentustig við næstu vaxtaákvörðun þann 28. ágúst. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða samkvæmt því 3,50%.

Einn kaus gegn vaxtalækkun í júní

Við síðustu ákvörðun, í júní síðastliðnum, lækkaði peningastefnunefnd stýrivexti um 25 punkta og hafa þeir lækkað um 75 punkta það sem af er þessu ári. Í júní voru fjórir meðlimir nefndarinnar fylgjandi því að lækka vexti en einn nefndarmaður greiddi atkvæði gegn lækkun og vildi halda vöxtum óbreyttum. Við ákvörðunina var horft til þess að samdráttur í þjóðarbúskapnum gæti varið lengur en áður var talið, verðbólguvæntingar hefðu lækkað frá síðustu ákvörðun og að útlit væri fyrir að verðbólga myndi hjaðna í átt að markmiði (2,5%) á þessu ári.

Ekki miklar breytingar frá því síðast

Frá síðustu ákvörðun hafa ekki verið miklar sviptingar í efnahagslífinu, fyrir utan nokkra styrkingu krónunnar í júlí. Enn er útlit fyrir samdrátt á árinu ásamt því að slaknað hefur bæði á verðbólguvæntingum og verðbólguhorfum. Að mati nefndarmanna mun peningastefnan á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.

Við teljum að það gefi sterklega til kynna að nefndarmenn séu tilbúnir til að lækka vexti enn frekar og taki skrefið til 25 punkta lækkunar í næstu viku.

Nýr Seðlabankastjóri

Vaxtaákvörðunin að þessu sinni verður merkileg fyrir þær sakir að Ásgeir Jónsson er tekinn við sem Seðlabankastjóri og mun þetta vera hans fyrsti fundur í peningastefnunefndinni. Ásgeir hefur gefið það út í viðtölum að frekari lækkun vaxta á næstunni er möguleg.

Enn er útlit fyrir samdrátt á árinu

Seðlabankinn gaf síðast út þjóðhagsspá í maí síðastliðnum og var sú spá var töluvert dekkri en spá bankans frá því í janúar. Þó var gert ráð fyrir mildu og skammvinnu samdráttarskeiði í ár og myndarlegum hagvexti strax á næsta ári. Uppfærð spá verður gefin út samhliða vaxtaákvörðun 28. ágúst næstkomandi.

Í þjóðhagsspá okkar frá því í júní teljum við að samdráttur í ár verði meiri en maíspá Seðlabankans gerir ráð fyrir. Það sem styrkir þá skoðun okkar er m.a. að við spáum enn meiri fækkun ferðamanna en Seðlabankinn gerir ráð fyrir. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia fækkaði erlendum ferðmönnum um 17% í júlí og það sem af er ári er fækkunin um 13,4%. Í spá Seðlabankans er einungis gert ráð fyrir 10,5% fækkun milli ára. Í kjölfar þessa samdráttar hefur heildarvelta erlendra greiðslukorta dregist saman milli ára, en velta á hvern ferðamann hefur hins vegar aukist nokkuð. Hver ferðamaður eyðir því meira hér á landi að meðaltali en áður sem gæti mildað höggið sem fækkun ferðamanna hefur í för með sér.

Seðlabankinn birti einnig fráviksspá þar sem gert var ráð fyrir enn meiri fækkun ferðamanna í ár og miðað við þróunina teljum við vera meiri líkur á að framhaldið verði í takti við fráviksspá Seðlabankans. Peningastefnunefndin virðist deila þessari skoðun okkar og ræddi á síðasta fundi að samdráttur í þjóðarbúskapnum gæti orðið meiri og varað lengur en talið var í maí. Vegna yfirvofandi samdráttarskeiðs teljum við líklegra að nefndin hallist frekar að því að lækka vexti en að halda þeim óbreyttum.

Verðbólguvæntingar halda áfram að lækka

Við síðustu vaxtaákvörðun var nýjasta verðbólgumælingin frá maímánuði og hljóðaði þá upp á 3,6%. Síðan þá hefur verðbólga hjaðnað talsvert, mældist 3,1% í júlí og eigum við von á  að hún verði enn lægri á komandi mánuðum. Auk þess hafði krónan veikst örlítið fyrir síðustu ákvörðun en annað er uppi á tengingum að þessu sinni þar sem hún tók að styrkjast í júlímánuði. Frá síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans hefur gengi krónunnar gagnvart evru styrkst um 2,4%.

Í júní síðastliðnum nefndi peningastefnunefndin að lækkandi verðbólguvæntingar á markaði gæfu nefndinni svigrúm til lækkunar vaxta.

Verðbólguvæntingar bæði fyrirtækja og markaðsaðila hafa lækkað töluvert á aðeins örfáum mánuðum. Samkvæmt nýjustu mælingum hafa þær væntingar lækkað meira og minna á alla mælikvarða frá síðustu könnun, sem framkvæmd var í maí. Verðbólguvæntingar markaðsaðila til eins árs lækkuðu örlítið frá síðustu mælingu og hafa væntingarnar lækkað úr 3,5% í 2,95% á árinu. Einnig töldu þrír af hverjum fjórum svarenda í könnuninni taumhald peningastefnunefndar of þétt eða alltof þétt um þessar mundir.

Okkur finnst þessir mælikvarðar benda sterklega til að vextir verða lækkaðir í næstu ákvörðun nefndarinnar.

Annað vaxtalækkunarskref líklegt á árinu

Í ljósi batnandi verðbólguhorfa og samdráttar á árinu spáum við að peningastefnunefnd muni lækka stýrivexti enn frekar á árinu. Þyngst mun vega hve mikil kólnun efnahagslífsins á næstunni verður ásamt því hve mikill innlendur kostnaðarþrýstingur verður vegna kjarasamninga opinbera starfsmanna í ár.

Tökum við mið af verðbólguspá okkar og vaxandi þörf fyrir peningalegan slaka meðan hagkerfið réttir úr kútnum og eru að mati okkar líkur á því að peningastefnunefndin muni lækka stýrivexti um aðra 25 punkta á þessu ári. Við gerum ráð fyrir að vextirnir muni svo haldast á þessum slóðum út næsta ár.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Sérfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eiginúrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanki ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar. Frekari upplýsingar varðandi efni Greiningar Íslandsbanka má finna á vefsíðunni: http://islandsbanki.is