Hugmynd sem var fljót að vinda upp á sig
Stofnun fyrirtækisins má rekja til þess þegar Ragna Sara var að skapa sér sitt eigið heimili og var að reyna afla sér þekkingar um uppruna þeirra vörutegunda sem hún skoðaði í verslunum hérlendis.
„Ég átti mjög erfitt með að fá upplýsingar um það hvaðan húsgögn og innanhússmunir væru, hvernig þau væru búin til, hvaða hráefni væru notuð, hversu lengi þau myndu endast og hvort þau væru á einhvern hátt skaðleg.“
Ragna Sara hafði áður starfað á sviði sjálbærniráðgjafar og samfélagsábyrgðar og sá gat á markaði sem hún ákvað að fylla upp í.
„Mér fannst það verulega ábótavant hvernig við sem samfélag meðhöndlum vörur, eyðum upp auðlindum, notum hluti stutt og erum sífellt að kaupa nýja. Auk þess tók ég eftir því að það var skortur á samstarfsaðilum fyrir hönnuði, þeir voru margir að gera áhugaverða og frumlega hluti en vantaði samstarfsaðila sem hefði þekkingu á markaðssetningu og framleiðslu. Þessar staðreyndir urðu kveikjan að stofnun FÓLK Reykjavík“.