Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

FÓLK Reykjavík

Árið 2017 stofnaði Ragna Sara Jónsdóttir hönnunarmerkið FÓLK Reykjavík sem leggur áherslu á sjálfbærni og hringrás hráefna. FÓLK Reykjavík opnaði nýlega skrifstofu og sýningarrými í Kaupmannahöfn og er nú þegar farið að selja vörur sínar í mörgum af helstu hönnunarverslunum Danmerkur. 


Hugmynd sem var fljót að vinda upp á sig 

Stofnun fyrirtækisins má rekja til þess þegar Ragna Sara var að skapa sér sitt eigið heimili og var að reyna afla sér þekkingar um uppruna þeirra vörutegunda sem hún skoðaði í verslunum hérlendis. 

„Ég átti mjög erfitt með að fá upplýsingar um það hvaðan húsgögn og innanhússmunir væru, hvernig þau væru búin til, hvaða hráefni væru notuð, hversu lengi þau myndu endast og hvort þau væru á einhvern hátt skaðleg.“ 

Ragna Sara hafði áður starfað á sviði sjálbærniráðgjafar og samfélagsábyrgðar og sá gat á markaði sem hún ákvað að fylla upp í.  

„Mér fannst það verulega ábótavant hvernig við sem samfélag meðhöndlum vörur, eyðum upp auðlindum, notum hluti stutt og erum sífellt að kaupa nýja. Auk þess tók ég eftir því að það var skortur á samstarfsaðilum fyrir hönnuði, þeir voru margir að gera áhugaverða og frumlega hluti en vantaði samstarfsaðila sem hefði þekkingu á markaðssetningu og framleiðslu. Þessar staðreyndir urðu kveikjan að stofnun FÓLK Reykjavík“. 

Upprunalega hugmynd Rögnu Söru var að stofna vefverslun með sjálfbærum vörum úr náttúrulegu og endurnýjanlegu hráefni, en verkefnið vatt fljótt upp á sig. 

„Það var mjög erfitt að sannreyna uppruna og öryggi þeirra vörutegunda sem ég var að skoða sem varð til þess að ég fór í samstarf við hönnuði og að framleiða vörur sjálf. Í rauninni færðist þetta frá því að hafa borið kennsl á ákveðna þörf á markaði, yfir í að taka alla virðiskeðjuna og gera allt frá grunni. Þetta er vissulega miklu stærra verkefni en ég sá fyrir mér í upphafi en það er mikil þörf á því í nútímanum að endurhugsa frá grunni hvernig við hönnum og framleiðum vörur af því þær eru yfirleitt gerðar úr mörgum hráefnum, settar saman á þann hátt að það sé ekki hægt að taka þær í sundur sem gerir það að verkum að þær enda oftar en ekki í landfyllingu eða eru brenndar með tilheyrandi umhverfisáhrifum og mengun.

Ragna Sara segir áhersluna alltaf vera á umhverfisvernd og endurnýtingu í hönnunarferli FÓLK Reykjavík. 

„Við byrjum yfirleitt á að sjá eitthvað afgangshráefni og höfum samband við þá hönnuði sem okkur finnst passa við verkefnið.  Við bjóðum hönnuðunum að vinna með okkur innan þess sjálfbærniramma sem við höfum sjálf sett og þegar varan hefur verið fullhönnuð, tökum við alveg yfir og keyrum allt sem heitir framleiðsluferli, markaðssetning og sala.“ 

Ragna segir fjölmargar áskoranir fylgja því að stofna fyrirtæki af þessu tagi og að erfitt hafi verið að afla nauðsynlegrar þekkingar fyrir starfsemina hérlendis. 

„Hönnunariðnaðurinn er ekki stór á Íslandi, sérstaklega þegar kemur að framleiðslu. Fyrir vikið þurfti að leita út fyrir landsteinana til þess að fá samstarfsaðila sem höfðu þekkingu á þessari virðiskeðju. Til dæmis að gera samninga á milli fyrirtækisins og hönnuða, hvernig maður semur um höfundarrétt og nýtingarrétt. Einnig skorti upplýsingar í tengslum við gæðaeftirliti á framleiðslu, að meta burðarþol og styrk ákveðinna vara. Íslenskir verkfræðingar eru meira í að meta burðarþol bygginga og virkjana og þekking hérlendis á þessari vöruframleiðslu af skornum skammti. Þetta hafði þau áhrif að nú erum við búin að færa skrifstofu fyrirtækisins til Kaupmannahafnar.“ 

„Þekking á sölufarvegum og tengslanet varðandi sölu í þessum geira vantar auk þess á íslandi. Við erum að leggja höfuðáherslu á það hér í Danmörku, að byggja upp tengslanetið til þess að tengja okkur inn í þessa stærstu sölufarvegi til þess að auðvelda okkur að skapa virði úr því sem við höfum nú þegar gert.“ 

Ragna Sara segir fjármögnun auk þess alltaf krefjandi hluta af nýsköpun en að viðskiptasamband þeirra við Íslandsbanka hafa komið sér vel að mörgu leyti. 

„Við höfum verið mjög ánægð með að vera í viðskiptum við Íslandsbanka og notið góðs af hönnunarþekkingu bankans. Við fengum styrk úr Frumvöðlasjóði Íslandsbanka sem nýttist okkur vel og varð einmitt til þess að styðja okkur í fyrstu skrefunum með hringrás hráefna. Eitt árið voru auk þess gefnar jólagjafir frá FÓLK Reykjavík til starfsfólks Íslandsbanka, svoleiðis viðskipti hjálpa frumkvöðlafyrirtækjum auðvitað mjög mikið. Það er auðvitað frábært að Íslandsbanki hafi þor og þekkingu til þess að styðja við slíkt.“ 

FÓLK Reykjavík hefur nú flutt skrifstofur sína og sýningarrými til Kaupmannahafnar og markmiðið er að koma hönnuninni í verslanir um allan heim. 

Við stefnum á það að vera leiðandi á sviði endurnýtingar hráefnis í hönnunarvöru og erum nú í þróunarferli til þess að framkvæma okkar hugmyndir í þeim efnum. Svo viljum við að vörunar okkar verði seldar í öllum helstu hönnunarverslunum í Evrópu á næstu mánuðum. Það byrjar mjög vel, við vorum að byrja selja í Illums bolighus, Illum og H Skjalm P auk þess sem við vorum að fá fyrsta viðskiptavininn í Bandaríkjunum, boltinn er því svo sannarlega byrjaður að rúlla.   

Ragna Sara Jónsdóttir
stofnandi og listrænn stjórnandi FÓLK Reykjavík