Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fleiri ferðamenn í nóvember þrátt fyrir jarðskjálftafréttir

Áhrif af óróa á Reykjanesskaga eiga líklega stóran þátt í því að fjöldi ferðamanna í nóvember var heldur undir væntingum okkar. Brottfarir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll voru þó álíka margar og mest var í nóvembermánuði fyrir faraldur. Horfur eru á að 2,2 milljónir ferðamanna sæki landið heim í ár og ferðaþjónustan afli um það bil 600 milljarða gjaldeyristekna.


Áhrif af jarðhræringum á Reykjanesskaga og fréttaflutningi þeim tengdum eru líklega helsta ástæða þess að öllu  færri ferðamenn komu til landsins í nóvember en við höfðum vænst. Er það fyrsti mánuðurinn frá því við gáfum út spá um ferðamannafjölda í þjóðhagsspá okkar í september sem færri koma en við spáðum. Ekki eru þó þessi áhrif sterkari en svo að ríflega 150 þúsund erlendir farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í nóvember samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Jafnaði mánuðurinn þar með fyrra nóvembermet frá árinu 2018. Samanborið við nóvember í fyrra fjölgaði brottförum um 9% og er það hægasti vöxtur milli ára frá því áhrif faraldursins fóru að fjara út snemma á síðasta ári.

Bandaríkjamenn hafa í seinni tíð verið fjölmennastir af þjóðum heims meðal ferðafólks á Íslandi, nema þá rétt yfir háveturinn. Í nýliðnum nóvember voru hins vegar Bretar fjölmennastir (24% af heild). Bandaríkjamenn voru í öðru sæti hvað fjölda varðar (20,5%) og fækkaði þeim um ríflega fjórðung milli ára. Næstir þar á eftir komu Pólverjar (5,9%), Þjóðverjar (3,0%) og Spánverjar (3,0%). Norðurlandabúar, þ.e. fólk frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð voru alls 3,2% af heildarfjöldanum. Að því marki sem hægt er að draga ályktanir um áhrif jarðhræringanna á eftirspurn eftir Íslandsferðum virðast það helst vera Bandaríkjamenn og Þjóðverjar sem láta slíkar fréttir hafa áhrif á sig á meðan Bretar og Ítalir kæra sig frekar kollótta um fréttir af því taginu. Hér hafa þó vitaskuld fleiri þættir á borð við ferðaframboð og efnahagsþróun heima fyrir einnig áhrif á ferðahegðun hinna ýmsu þjóða.

Athygli vekur að Kínverjar voru 2,8% þeirra farþega af erlendu bergi brotnu sem fóru um Keflavíkurflugvöll í nóvember. Þarlent ferðafólk var sjaldséð hér á landi fyrst eftir faraldur en virðist vera að sækja nokkuð í sig veðrið á nýjan leik.

Landinn nokkuð á faraldsfæti í nóvember

Á sama tíma jókst ferðagleði landsmanna nokkuð á milli ára eftir krappan samdrátt í október. Alls fóru um 43 þúsund Íslendingar um Keflavíkurflugvöll í nóvembermánuði og samsvarar það ríflega fjórðungs fjölgun frá sama mánuði í fyrra. Það sem af er ári hefur brottförum Íslendinga um flugvöllinn fjölgað um 2% milli ára en þær eru þó enn u.þ.b. 10% undir því sem mest varð á fyrstu 11 mánuðum ársins 2018.

Seðlabankinn birtir síðar í vikunni gögn um kortaveltu í nóvembermánuði. Miðað við þróunina innbyrðis í ferðalögum milli landa virðist líklegt að gjaldeyrisflæði tengt kortaveltu, sem við skilgreinum stundum sem kortaveltujöfnuð, hafi í besta falli verið í jafnvægi.

Ferðaþjónustan aflar nærri þriðjungs gjaldeyristekna í ár

Mikill kraftur hefur hlaupið í gjaldeyrisöflun ferðaþjónustunnar undanfarin misseri eftir lægð þegar faraldurinn var sem skæðastur. Samkvæmt Hagstofunni skapaði ferðaþjónusta tæpa 489 ma.kr. í vergum útflutningstekjum á fyrstu þremur fjórðungum ársins og hafa tekjurnar aldrei verið svo miklar á þessu tímabili í krónum talið. Þótt snurða hafi hlaupið á þráðinn hjá greininni í kjölfar óróans á Reykjanesskaganum teljum við líklegt að það bakslag reynist skammvinnt, svo fremi sem ekki komi til verulegra hamfara á komandi vikum og mánuðum.

Í september spáðum við því að ferðamenn hingað til lands myndu verða í kring um 2,2 milljónir talsins á þessu ári. Tölur Ferðamálastofu fyrir fyrstu 11 mánuði ársins ríma ágætlega við þá spá en alls voru brottfarir erlends ferðafólks rétt tæplega 2,1 milljónir talsins á tímabilinu. Þá höfum við áætlað að brúttó gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar verði í námunda við 600 ma.kr. á árinu í heild og virðist sú spá ætla að verða nokkuð nærri lagi miðað við nýjustu tölur. Ferðaþjónustan mun samkvæmt því standa undir tæplega þriðjungi af gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins þetta árið miðað við spá okkar um þróun útflutningstekna sem birtist í september.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband