Fjármál og fjármögnun 2020

Arðsemi eigin fjár eftir skatta á ársgrundvelli var 3,7% fyrir árið 2020. Það er undir langtímamarkmiðum bankans en arðsemi síðari hluta ársins sýnir gott viðnám eftir það óvissutímabil sem hófst í upphafi árs.


Þrátt fyrir miklar sveiflur á fjármálamörkuðum gekk fjármögnun Íslandsbanka vel á árinu. Góður vöxtur var í innlánum og hélst gott aðgengi að skuldabréfamörkuðum, innlendum sem erlendum. Má það að miklu leiti þakka sterkri stöðu íslensks efnahagslífs sem og hinu góða trausti sem Íslandsbanki hefur byggt upp hjá fjárfestum undanfarin ár. Íslandsbanki varð á árinu fyrstur íslenskra banka til að gefa út sjálfbæran fjármálaramma og í kjölfarið var hann fyrsti íslenski bankinn til að gefa út sjálfbær og græn skuldabréf.

Fjármál og fjármögnun 

Rekstur Íslandsbanka á árinu 2020 gekk vel þó hann hafi ekki verið með hefðbundnu sniði í ljósi aðstæðna. Góður árangur náðist á kostnaðarhliðinni og inn- og útlánasafn bankans stækkaði. Aukning var í hreinum vaxtatekjum á milli ára en hækkun á útlánasafninu vó á móti áhrifum af lægra vaxtaumhverfi. Óvissa tengd COVID-19 endurspeglast í neikvæðri virðisbreytingu  og aukinni umlíðun lána á árinu en þrátt fyrir það hafa útlán með laskað lánshæfi ekki aukist. 

Rekstrarreikningur


Heildartekjur hækka á milli ársfjórðunga 

 • Hreinar vaxtatekjur héldust stöðugar á fjórða ársfjórðungi en jukust um 1,7% á milli ára, en hækkun á útlánasafninu vó á móti áhrifum af lægra vaxtaumhverfi. Vaxtaálag lækkaði um 0,1% á milli ára. Hærra innlánaálag bætti upp fyrir lægra útlánaálag bæði á fjórðungnum og á árinu í heild. 
 • Hreinar þóknanatekjur héldust stöðugar á milli ársfjórðunga en lækkuðu lítillega á árinu vegna minni kortaumsvifa og gjaldeyrisviðskipta vegna COVID-19. Þóknanir tengdar lánum og ábyrgðum hækkuðu þó nokkuð. 
 • Á fjórða ársfjórðungi námu hreinar fjármagnstekjur 783 m.kr. Hrein fjármagnsgjöld voru 1.391 m.kr. á árinu 2020, samanborið við 820 m.kr. á árinu 2019. Þetta er vegna taps í veltubók og fjárfestingabók, verðtryggðum áhættuvörnum og gangvirðisbreytingu hlutabréfa. 

Kostnaðarhlutfall undir 55% markmiði bankans 

 • Stjórnunarkostnaður lækkaði á milli tímabila um 5,8% fyrir ársfjórðunginn og 7,1% fyrir árið vegna lækkunar á launalið og tengdum gjöldum en einnig vegna lækkunar á flestum kostnaðarliðum, sem má að hluta til rekja til minni umsvifa í starfsemi í kjölfar COVID-19. 
 • Fjöldi starfsmanna í móðurfélagi fyrir utan árstíðabundna starfsmenn var 745 í lok ársins (2019: 749) og 779 hjá samstæðu (2019: 783, að undanskildum stöðugildum dótturfélags sem var selt á árinu og hafði áður verið flokkað sem fastafjármunir til sölu og aflögð starfsemi). 
 • Kostnaðarhlutfall var 51,7% á fjórða ársfjórðungi samanborið við 62,9% 4F19 og er því undir markmiðum bankans. Kostnaðarhlutfall 2020 var 54,3% samanborið við 58,8% árið 2019. Bankaskattur og einskiptistekjur eru undanskilin við útreikning kostnaðarhlutfalls. 

Lækkun bankaskatts liður í lægri heildarkostnaði 

 • Tekjuskattur ársins var 2,5 ma. kr. samanborið við 3,9 ma. kr. árið 2019. Virkur tekjuskattur var 26,5% fyrir tímabilið samanborið við 30,7% árið 2019. Bankaskattur var 1,6 ma. kr. árið 2020 samanborið við 3,5 ma. kr. árið 2019. Bankinn greiðir sérstakan fjársýsluskatt 6%, á hagnað umfram 1 ma. kr. Einnig greiðir hann fjársýsluskatt og tryggingargjald vegna starfsfólks, iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta auk kostnaðar vegna Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Umboðsmanns skuldara. Iðgjöld í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta á árinu 2020 var 679 m.kr. sem er lækkun um 257 m.kr. frá fyrra ári. Heildarskattar og gjöld voru 6,6 ma. kr. á árinu 2020 samanborið við 10,3 ma. kr. 2019. 

Neikvæð virðisbreyting útlána endurspeglar breyttar efnahagshorfur 

 • Neikvæð virðisbreyting útlána á fjórða ársfjórðungi að fjárhæð 1.829 m.kr. er mestmegnis vegna COVID-19 og vegna uppfærðra efnahagssviðsmynda og annarra forsendna. 
 • Hrein virðisbreyting útlána var neikvæð um 8.816 m.kr. árið 2020 samanborið við neikvæða virðisbreytingu að fjárhæð 3.480 m.kr. árið 2019. Þar af eru 6,1 ma. kr. tengt COVID-19 heimsfaraldrinum, 1,2 ma. kr. eru vegna nokkurra viðskiptavina og 0,6 ma. kr. eru vegna uppfærðra efnahagssviðmynda. 
 • Hrein virðisbreyting útlána til viðskiptavina var 0,18% á fjórða ársfjórðungi 2020 (0,73% á ársgrundvelli) og 0,91% fyrir árið 2020. 
 • Efnahagssviðsmyndirnar sem eru notaðar til að reikna virðisrýrnun voru uppfærðar á fjórða ársfjórðungi 2020, þó verður að taka það fram að það er mjög krefjandi að ákvarða viðeigandi sviðsmyndir í núverandi efnahagsumhverfi. Helstu forsendur í grunnsviðsmyndinni eru að verg landsframleiðsla verði -8,6% árið 2020 og 3,1% árið 2021. Að auki hefur vægi sviðsmyndanna verið lagfært til að endurspegla spána, vægið er núna 15%-55%-30% (gott, grunnur, slæmt) samanborið við vægið 25%-50%-25% fyrir heimsfaraldurinn. 

Grunnrekstur skilar stöðugum rekstrartekjum 

 • Hagnaður eftir skatta á fjórða ársfjórðungi var 3,5 ma. kr. (2019: 1,7 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 7,6% á ársgrundvelli (2019: 3,7%). 
 • Hagnaður eftir skatta var 6,8 ma. kr. á árinu 2020 (2019: 8,5 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár var 3,7% á ársgrundvelli samanborið við 4,8% 2019. Hagnaður dróst saman um 1,7 ma. kr. sem skýrist af aukinni virðisrýrnun lána og fjármagnskostnaðar. Þá höfðu einskiptistekjur undir öðrum rekstrartekjum jákvæð áhrif á hagnað ársins 2019.

Efnahagsreikningur 

Aukning í útlánum til viðskiptavina 

 • Heildareignir jukust um 12,1% á árinu 2020. Vöxtinn má að mestu rekja til aukinna útlána til viðskiptavina, skuldabréfa og gengislækkunar krónu. Mikil eftirspurn var eftir húsnæðislánum á árinu og jukust þau um 60,3 ma. kr. á 4F20 og 95,7 ma. kr. á árinu 2020. Aukningu í eftirspurn má að mestu leyti rekja til lægra vaxtaumhverfis. Hlutfall útlána til ferðaþjónustu hafa lækkað lítillega og eru nú 9% af vel dreifðu heildarlánasafni. 
 • Tryggingar útlána eru almennt traustar þar sem íbúða- og atvinnuhúsnæði og skip eru mikilvægustu tegundir veðandlaga. Vegið meðaltal veðsetningarhlutfalls (LTV) húsnæðislánasafns bankans var 64% í lok árs 2020 samanborið við 62% í lok árs 2019. Eftir töluvert mikla hækkun undanfarin ár hefur verðvísitala Seðlabankans fyrir atvinnuhúsnæði lækkað á árinu 2020. Íslandsbanki styðst við eigið verðmat á veðsettu atvinnuhúsnæði og það verðmat hefur hækkað mun minna en umrædd vísitala síðustu ár. Lánasafn bankans til atvinnuhúsnæðis er því mun ónæmara fyrir verðbreytingum á markaði en vísitalan gefur til kynna. 
 • Þrír liðir, handbært fé og innistæður hjá SÍ, skuldabréf og skuldagerningar og útlán til lánastofnana nema samtals 297 ma. kr. og af því eru 285 ma. kr. laust fé. Eftir að Seðlabanki Íslands hætti að bjóða innlán til eins mánaðar færði bankinn hluta af lausafjársafni sínu yfir í ríkisvíxla, stutt ríkisbréf og sértryggð bréf til að auka ávöxtun safnsins.

Greiðsluhlé vegna COVID-19 og stuðningslán með ríkisábyrgð 

 • Íslandsbanki tók þátt í almennu samkomulagi lánveitenda á Íslandi um að veita þeim viðskiptavinum greiðsluhlé sem búast við tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldursins. Þegar mest lét nutu um 1.500 heimili og 650 fyrirtæki góðs af þessum greiðsluhléum með útlán sem námu samtals um 200 milljörðum króna. 
 • Samkomulaginu lauk 30. september og almennt greiðsluhlé gat ekki staðið lengur en út árið 2020. Þeim viðskiptavinum sem þurfa lengra greiðsluhlé stendur það þó til boða að undangengnu mati á framtíðarhorfum og tryggingastöðu. Framlenging á greiðsluhléi leiðir til þess að útlánin teljast hafa notið umlíðunar. 
 • Í árslok taldist 11,1% lánasafnsins hafa notið umlíðunar ef aðeins er litið til þess hluta sem er ekki með laskað lánshæfi. Samsvarandi hlutfall var 2,9% í lok september þegar almenn greiðsluhlé voru enn í gildi. 
 • Á seinni helmingi ársins voru veitt stuðningslán og viðbótarlán með ríkisábyrgð að fjárhæð 3,7 ma. kr. og þar af var um 60% fjárhæðarinnar með fulla ríkisábyrgð. Þessi útlán eru hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda sem Íslandsbanki tekur þátt í.  

Útlánagæði ekki minnkað en framtíðaróvissa vegna COVID-19 enn til staðar 

 • Í lok árs taldist 2,9% útlánasafnsins vera með laskað lánshæfi (2019: 3,0%). Fyrir þennan hluta lánasafnsins var tryggingaþekjan um 70% en virðisrýrnunarþekjan 25,3%. Í janúar 2021 fékkst eitt mikilvægt lán í þessum flokki greitt til baka að fullu, en við það lækkar hlutfall lána með laskað lánshæfi niður í 2,7%. 

Vöxtur í innlánum viðskiptavina á árinu  

 • Innlán frá viðskiptavinum lækkuðu um 2,7% á fjórðungnum en jukust um 9,9% á árinu. Hlutfall útlána viðskiptavina á móti innlánum til viðskiptavina hækkaði í 148,2% í lok ársins. Innlán frá einstaklingum og fyrirtækjum eru helsti fjármögnunarliður bankans og samsvara 42% af heildarfjármögnun bankans og 78% af innlánum bankans í árslok. Stöðug innlán jukust á árinu, um 12% frá einstaklingum og fyrirtækjum og um 7% frá fjármálastofnunum og lífeyrissjóðum. Vel er fylgst með samþjöppunaráhættu í innlánum sem lækkaði örlítið á árinu. 
 • Aðrar skuldir minnkuðu milli ára vegna færri óuppgerðra viðskipta í lok árs. 
 • Lántaka jókst á árinu þar sem bankinn hélt áfram uppbyggingu á langtíma fjármögnunarleiðum með því að gefa út sértryggð og almenn skuldabréf. 
 • Bankinn hélt sjö útboð á sértryggðum skuldabréfum á árinu og nam heildarútgáfa ársins 26 ma. kr., þar af var 18 ma. kr. nettóútgáfa á fjórða ársfjórðungi. Þrjár útistandandi útgáfur voru stækkaðar og nýr óverðtryggður flokkur, ISLA CB 27, var gefinn út. Útgáfa sértryggðra skuldabréfa er til þess ætluð að fjármagna húsnæðislánasafn bankans og einnig að draga úr áhættu með því að auka fjölbreytni fjármögnunar. 
 • Í nóvember gaf bankinn út sína fyrstu sjálfbæru skuldabréfaútgáfu, og jafnframt fyrstu sjálfbæru skuldabréfaútgáfu íslensks banka, að fjárhæð 300 milljónir evra til 3 ára. Útgáfan, sem kom í kjölfar útgáfu sjálfbærs fjármálaramma bankans, ber 0,5% fasta vexti sem jafngildir 100 punkta álagi yfir millibankavöxtum í evrum.  Viðtökurnar voru mjög góðar þar sem umframeftirspurn var rúmlega fjórföld og seldist útgáfan til breiðs hóps evrópskra fjárfesta.  Umsjónaraðilar voru ABN Amro, Barclays, Goldman Sachs og UBS Investment Bank.   Viku seinna gaf bankinn út fyrsta græna skuldabréf bankans að fjárhæð 2.7 ma. kr. til 5 ára.  Andvirði útgáfnanna verður notað til lánveitinga sem uppfylla skilyrði sjálfbæra fjármálarammans. 
 • Vel heppnaðar skuldabréfaútgáfur bankans sem og aukning innlána leiddi til þess að lausafjárhlutföll bankans styrktust á árinu.  Í lok desember var lausafjárhlutfall (LCR) 196% fyrir samstæðuna í öllum gjaldmiðlum (194% fyrir móðurfélagið) og jókst úr 155% frá árslokum 2019. Vegna sölu bankans á dótturfélaginu Borgun í júlí 2020 er takmarkaður munur á lausafjárhlutföllum fyrir samstæðu og móðurfélag. Lausafjárhlutfall í erlendum gjaldmiðlum eingöngu var 463% og 95% í íslenskum krónum samanborið við 325% og 110% í árslok 2019.  
 • Lækkun Seðlabankans á bindiskyldu á fyrsta ársfjórðungi ársins skilaði sér í auknu lausafé. Engir óvæntir ádrættir urðu á yfirdráttum né lánalínum á tímabilinu.  
 • Heildarhlutfall stöðugrar fjármögnunar (NSFR) var 123% í árslok samanborið við 119% í lok árs 2019 og hlutfall stöðugrar fjármögnunar í erlendum gjaldmiðlum var 179% samanborið við 156% í lok árs 2019.  
 • Í ljósi sterkrar lausafjárstöðu bankans í innlendri og erlendri mynt er mögulegt að bankinn íhugi endurkaup og/eða endurfjármögnun útistandandi skulda á árinu 2021.  

Eiginfjárhlutföll styrktust á árinu og eru langt yfir ytri markmiðum 

 • Heildar eigið fé nam 186 ma. kr. í lok árs 2020 samanborið við 180 ma. kr. í lok árs 2019. Þar af er 1,5 ma. kr. vegna hluthafa minnihluta. 
 • Fjármálaeftirlitsnefnd tilkynnti í september 2020 að niðurstöður könnunar- og matsferils 2019 varðandi viðbótar eiginfjárkröfu (Pillar 2-R) skyldi vera óbreytt fyrir árið 2020, í 17% af  áhættuvegnum eignum. 
 • Í mars 2020 lækkaði Seðlabanki Íslands sveiflujöfnunaraukann úr 2,0% niður í 0,0% vegna efnahagslegrar óvissu tengdri COVID-19 heimsfaraldrinum. Þetta lækkaði heildar eiginfjárkröfu bankans úr 19,0% í 17,0%. Eiginfjármarkmið bankans, sem gerir ráð fyrir 0,5-2,0% stjórnendaauka ofan á heildarkröfuna, lækkaði því samhliða afléttingu sveiflujöfnunaraukans í 17,5-19,0%. 
 • Vegna óvissu í tengslum við áhrif COVID-19 á eiginfjárgrunninn vill bankinn halda eiginfjárhlutfallinu fyrir ofan eiginfjármarkmiðið þar til óvissan með ferðaþjónustuna og aðra þætti hefur minnkað.   
 • Í lok árs var eiginfjárhlutfall bankans 23,0% samanborið við 22,4% í lok árs 2019. Þetta er talsvert hærra en eiginfjármarkmið bankans. Eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 20,1% í lok árs samanborið við 19,9% í loks árs 2019. Innleiðing á umbreytingarreglum IFRS 9 á Íslandi, þar sem virðisrýrnun IFRS 9 er að hluta til innifalin sem CET1, eykur CET1 um 5 ma. kr. Þar sem skuldabréf bankans sem teljast til eiginfjárþáttar 2 eru í erlendri mynt leiddi veiking íslensku krónunnar til hækkunar á eiginfjárgrunni bankans.  
 • Íslandsbanki notar staðalaðferð til að meta áhættugrunninn, sem var 934 ma. kr. í árslok 2020 samanborið við 885 ma. kr. í lok árs 2019. Áhættugrunnurinn nemur 69% af heildareignum í árslok 2020 samanborið við 74% í lok árs 2019. Mikil aukning í húsnæðislánum lækkaði hlutfall áhættuveginna eigna af heildareignum ásamt afslætti vegna lítilla og meðalstórra fyrirtækja (SME factor) sem var innleiddur á Íslandi 1. janúar 2020 og hafði þá þýðingu að áhættuvegnar eignir drógust saman um 14 ma. kr. í árslok 2020. Áhættuvegnar eignir hækkuðu þó í heildina vegna stækkunar á lánasafni. 
 • Vogunarhlutfallið var 13,6% í árslok 2020 samanborið við 14,2% í lok árs 2019 og telst það hóflegt í alþjóðlegum samanburði. 
 • Stjórn bankans leggur til að 3,4 milljarðar króna verði greiddir í arð til hluthafa, sem nemur 50% af hagnaði ársins og er í samræmi við stefnu bankans um að greiða 40-50% af hagnaði ársins í arð. Stjórn bankans getur boðað til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kann að vera lögð fram. 

Ójöfnuðum stýrt innan þröngra marka 

 • Bankinn ber áhættu vegna verðbólgu þar sem virði verðtryggðra eigna er meira en virði verðtryggðra skulda. Í árslok 2020 var munurinn á samstæðugrunni 26,2 ma. kr. samanborið við 20,7 ma. kr. í lok árs 2019. Jöfnuðinum er meðal annars stýrt með skiptasamningum, útgáfu verðtryggðra skuldabréfa og verðtryggðum innlánsreikningum. 
 • Gjaldeyrisjöfnuður var 5,1 ma. kr. (2,4% af eiginfjárgrunni) í árslok 2020, samanborið við -93 m.kr. (0,05% af eiginfjárgrunni) í lok árs 2019. Ójöfnuðir bankans eru undir reglulegu eftirliti og eru þeir vel innan viðmiða laga og reglna. 

Lánshæfismat 

 • Íslandsbanki er með lánshæfismat frá alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu S&P Global Ratings (S&P). Í apríl 2020 lækkaði S&P lánshæfismat Íslandsbanka úr BBB+/A-2 með neikvæðum horfum í BBB/A-2 með stöðugum horfum.  
 • Ástæður breytingar S&P má rekja til þess álits þeirra að efnahagsumsvif á Íslandi og í Evrópu fari minnkandi á árinu 2020 sem gæti leitt til virðisrýrnunar á eignum Íslandsbanka, aukinna útlánatapa, minnkandi rekstrartekna og mögulegrar lækkunar eigin fjár. S&P telur jafnframt að rekstrarumhverfi fyrir íslenskar fjármálastofnanir sé krefjandi sem einkennist af kólnandi hagkerfi, lækkandi vaxtaumhverfi og ójafnrar samkeppnisstöðu við íslenska lífeyrissjóði en allt þetta hafi leitt til lækkandi arðsemi hjá íslenskum bönkum. 
 • Í rökstuðningi sínum býst S&P við því að Íslandsbanki sé í mun sterkari stöðu til að mæta efnahagsáfalli nú en árið 2008. Lánshæfismatið 'BBB' með stöðugum horfum taki mið af stöðugri markaðshlutdeild Íslandsbanka á innlendum markaði og góðum árangri á sviði stafrænnar þróunar og upplýsingatækni. Álit S&P sé að bankinn standi framar en margir erlendir bankar þegar kemur að undirbúningi fyrir samkeppni við fjártæknifyrirtæki. Bankinn sé enn fremur með sterka lausa- og eiginfjárstöðu, endurfjármögnunarþörf bankans sé takmörkuð á árinu 2020 og þar að auki hafi Seðlabankinn sett á stofn sérstaka tímabundna lánafyrirgreiðslu sem tryggir aðgengi að lausafé.