Í kjölfar COVID-faraldursins átti sér stað útflæði fjármagns í meiri mæli en áður hefur sést frá alþjóðlegum vaxtarmörkuðum en það endurspeglar þá gríðarlegu óvissu sem ríkt hefur yfir heimshagkerfinu undanfarinna mánuði. MSCI, eitt stærsta fjárfestingafyrirtæki heims, heldur utan um vísitölur fyrir bæði nýmarkaðsríki og vaxtarmarkaði. Markaðir í þeim löndum sem flokkast undir vísitölur stærri og þekktari sjóða geta orðið fyrir umfangsmiklum áhrifum af ákvörðunum fjárfesta.
Fjármagnsflótti á óvissutímum
COVID-faraldurinn hefur leitt til sögulega mikils fjármagnsútflæðis frá mörgum þeirra landa þar sem ávöxtun hefur undanfarin ár verið hærri og áhætta að sama skapi meiri en á helstu mörkuðum. Ýmislegt bendir hins vegar til þess að slíkt flæði hafi verið hóflegt hvað Ísland varðar. Má vafalítið meðal annars þakka það sterkri erlendri stöðu þjóðarbúsins og hóflegri skuldsetningu í aðdraganda COVID.
Vaxandi fjármagnsflæði til vaxtarríkja
Flæði fjármagns á milli landa hefur stigmagnast á síðustu tveimur áratugum samhliða aukinni alþjóðavæðingu. Ólíkt mörgum vaxtamörkuðum hafa þroskaðir markaðir tiltölulega stöðugt verðlag og lága (jafnvel neikvæða) vexti og því leita sér í lagi áhættusæknir fjárfestar annarra kosta í fjárfestingum. Fjármagnsflæði á milli landa er að stórum hluta í formi fjárfestinga í erlendum löndum einkum vegna þess að vaxtamarkaðir geta boðið tækifæri til hærri ávöxtunar á fjármagni en stöðugir og þroskaðir markaðir.
Áhætta af erlendri fjármögnun
Aukið framboð af erlendu fjármagni veitir fátækari löndum tækifæri til að vaxa hraðar með því að draga úr kostnaði fjármögnunar fyrir innlenda aðila. Fyrirtækin nýta fjármagnið til uppbyggingar og útvíkkunar markaðar og gefa með því hagvexti landsins undir fótinn. Innflæði fjármagns til fjárfestinga styrkir gengi landsins og þ.a.l. gerir lántöku erlendis hagstæðari fyrir rekstraraðila þó að því fylgi áhætta. Aukin skuldsetning í erlendri mynt gerir hagkerfið berskjaldað fyrir óvæntum skellum, líkt og margir Íslendingar þekkja frá fyrri kreppu fylgir mikil áhætta að vera með skuldir og tekjur í ólíkum gjaldmiðlum. Ef gengi heimagjaldmiðils landsins tekur að veikjast geta skuldir í erlendum gjaldeyri vaxið hratt í hlutfalli við tekjur og eignir í heimamyntinni á skömmum tíma.
Í mars síðastliðnum fór óvissa um framhald COVID-19 vaxandi sem varð til þess að fjárfestar flýðu með um 83,3 billjónir dollara frá nýmarkaðsríkjum í aðrar eignir. Útflæði fjármagns af þessu tagi hefur aldrei sést í jafn miklum mæli en sem dæmi má nefna nam útflæði fjármagns nýmarkaðsríkja í kjölfar kreppunnar 2008 tæplega 1/3 af því sem nú hefur átt sér stað. Þegar svo mikið fjármagn er dregið úr landi verða af því víðtæk áhrif og ber helst að nefna mikla veikingu innlenda gjaldmiðilsins. Vísitala MSCI flokkar löndin hér að ofan sem nýmarkaðsríki eða vaxtamarkaði en á fyrstu þremur mánuðum ársins veiktist gengi þeirra um að meðaltali 14% og erlendir skuldir þeirra sömuleiðis.
Sterkir innviðir draga úr útflæði frá Íslandi
Í því ljósi er áhugavert að skoða þróun fjármagnsflæðis vegna erlendra aðila undanfarna mánuði. Í nýlegum Fjármálastöðugleika Seðlabankans kemur fram (bls.45) að fjármagnsútflæði slíkra aðila hefur verið lítið hér á landi undanfarna mánuði. Til að mynda var hrein skráð nýfjárfesting einungis neikvæð um 5 ma.kr. á fyrstu 5 mánuðum ársins og frá því COVID-19 náði útbreiðslu hér á landi hefur hrein skráð nýfjárfesting verið jákvæð um 2 ma.kr. Telur bankinn skýringu þessa vera að hluta þá að innviðir eru sterkir og þjóðarbúið í sterkri stöðu eftir margra ára myndarlegan hagvöxt og ríflegan viðskiptaafgang. Þá er gjaldeyrisforði Seðlabankans traustur. Má sem dæmi nefna að eignarhald erlendra aðila í auðseljanlegum eignum var að mati bankans tæpir 240 ma.kr. í lok maí sl. en til samanburðar var gjaldeyrisforði bankans á sama tíma rúmlega 900 ma.kr.
Kostir og gallar fjármagnsflæði milli landa
Það er auðséð að fjármagnsflæði á milli landa fela í sér bæði kosti og galla. Lönd eiga kost á því að vaxa hraðar en taka á sig aukna áhættu sem væri þó hægt að stilla í hóf t.d. með bindisskyldu, hóflegri erlendri skuldasöfnun og styrkingu grunnstoða. Fjárfestar hafa hins vegar kost á því að dreifa áhættu sinni í ríkari mæli og mögulega hækka raunávöxtun á eignum sínum. Nýlegir atburðir innan heimshagkerfisins hafa vissulega áhrif á vaxtamarkaðinn en ákvarðanir erlendra fjárfesta hafa bætt olíu á bálið og gert ýmsum ríkjum erfiðara fyrir. Góðu heilli hafa þó áhrifin líklega verið talsvert mildari en ella hér á landi vegna þess hversu vel við bjuggum í haginn fyrir það þunga högg sem COVID-19 hefur reitt hinu smáa og útflutningsdrifna íslenska hagkerfi.