Góður gangur var í útflutningi á afurðum fiskeldis hér á landi á síðasta ári. Samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar voru alls flutt út ríflega 43 þúsund tonn af eldisfiski í fyrra. Það samsvarar 20% aukningu í magni mælt milli ára en þar ber að hafa í huga að talsverður samdráttur varð árið 2023 frá árinu á undan. Útflutt magn var því svipað á síðasta ári og á árinu 2022.
Fiskeldi: Ein loðnuvertíð á ári?
Verðmæti útfluttra afurða fiskeldis hefur vaxið hröðum skrefum undanfarinn áratug. Eldislax hefur nú væntanlega tekið við af loðnu sem næstverðmætasta fisktegundin í útflutningi frá landinu. Útlit er fyrir myndarlegan vöxt í útflutningi eldisfisks á næstu misserum.
Hins vegar skilaði útflutningurinn í fyrra umtalsvert meiri útflutningstekjum en var á árinu 2023. Heildar útflutningstekjur eldisfisks voru 53,8 ma.kr. á árinu 2024 samanborið við 48,8 ma.kr. fyrir þremur árum síðan og verðmætaaukningin var því 10%. Hafa útflutningstekjur greinarinnar aldrei verið meiri á einu ári.
Verð á eldislaxi hefur þróast með fremur hagfelldum hætti undanfarin misseri. Samkvæmt LSEG-Datastream gagnaveitunni og útreikningum okkar hefur verð á ferskum norskum eldislaxi til að mynda hækkað um u.þ.b. þriðjung á undanförnum 5 árum í íslenskum krónum talið. Þar ber þó að hafa í huga að aðfangakostnaður greinarinnar hefur einnig hækkað talsvert, sér í lagi fóðurkostnaður. Þá eru verðsveiflur talsverðar frá einum tíma til annars líkt og sjá má af myndinni.
Horfur virðast ágætar fyrir spurn eftir (og þar með verð á) eldisfiski, ekki síst laxi. Stækkandi millistétt á heimsvísu virðist líkleg til að sækjast í vaxandi mæli eftir laxi líkt og ýmsu öðru fiskmeti. Á sama tíma eru horfur á að framboð aukist hægar á komandi árum en verið hefur, samkvæmt sjávarútvegsvefnum SeafoodSource.
Misstórir fiskar í misstórum tjörnum
Lax og silungur ber höfuð og herðar yfir aðrar eldistegundir í fiskeldi hér á landi. Það er hins vegar mikill munur á því hversu þungt Ísland vegur í eldi þessara tegunda í Evrópu. Þótt laxinn myndi bróðurpartinn af heildarumfangi fiskeldis á Íslandi erum við þar lítill fiskur í stórri tjörn, ef svo má segja. Norðmenn eru þar langstærstir og stóðu að baki 84% laxeldis í álfunni árið 2023. Þar á eftir komu Bretar og í þriðja sæti voru frændur okkar Færeyingar með um það bil tvöfalt meira magn eldislax í tonnum talið en Íslendingar.
Ísland ber hins vegar höfuð og herðar yfir aðra framleiðendur eldisbleikju í Evrópu. Þar er hlutur okkar álíka stór og Norðmanna í laxinum. Bleikjueldi er þó aðeins lítið brot af laxeldi þegar kemur að heildarumfangi og má þar segja að við séum stærsti fiskurinn í býsna lítilli tjörn.
Eldislaxinn tekur við keflinu af loðnu
Mikið hefur verið rætt um loðnubrestinn sem orðið hefur tvö ár í röð í sjávarútvegi okkar Íslendinga. Víst er að þar munar verulega um í heildartekjum greinarinnar, sér í lagi á þeim svæðum þaðan sem helst hefur verið gert út til loðnuveiða. Á góðum vertíðarárum hefur loðnan verið næstverðmætasta sjávarafurð okkar Íslendinga og einungis þorskurinn staðið henni á sporði í heildar útflutningsverðmæti.
Það er því áhugavert að bera saman umfang eldisafurða um þessar mundir og loðnunnar undanfarin ár. Eins og myndin sýnir hefur útflutningsverðmæti eldislax aukist hröðum skrefum undanfarinn áratug. Árið 2019 fór laxinn í fyrsta sinn fram úr loðnunni á þennan mælikvarða enda var loðnuvertíðin það ár í rýrara lagi. Loðnan náði sér svo aftur á strik snemma á þessum áratug en síðustu tvö árin hefur laxinn vitaskuld haft vinninginn sem sú fisktegund sem skilar næstmestum útflutningsverðmætum. Kemur það auðvitað ekki á óvart í ljósi fyrrnefnds loðnubrests.
Hins vegar virðist sem lítið lát muni verða á vexti í fiskeldi næstu misserin. Þar á landeldi drýgstan þátt enda eru stór laxeldisverkefni í uppbyggingu á nokkrum stöðum umhverfis landið. Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í janúarlok gerðum við ráð fyrir því að eldisfiskur ætti umtalsverðan þátt í heildarvexti á útflutningi sjávarfangs á spátímanum. Gerum við ráð fyrir 10% vexti í útfluttu magni eldisafurða á hverju áranna 2025-2027 og miðað við áætlanir fiskeldisfyrirtækjanna er sú spá tiltölulega hófleg.
Það lítur því flest út fyrir að eldislaxinn muni festa sig í sessi sem næst verðmætasta tegundin í útflutningi á fiski og hugsanlega gæti laxinn jafnvel farið að velgja þorskinum undir uggum að þessu leytinu þegar kemur fram á næsta áratug ef langtímaáætlanir um umfang fiskeldis hér á landi ná fram að ganga að stórum hluta.