Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ferðamenn flykktust til landsins í febrúar

Ferðamannaárið 2023 fer býsna vel af stað ef marka má ferðamannatölur fyrstu mánaða ársins. Sér í lagi láta Bretar engan bilbug á sér finna í Íslandsferðum þrátt fyrir efnahagslegan mótbyr heima fyrir. Tekjur ferðaþjónustunnar það sem af er ári vega upp vöruskiptahallann og gott betur en horfur eru á að á árinu í heild gætu þær orðið allt að 600 ma.kr.


Erlendir ferðamenn hér á landi voru 137 þúsund í febrúar samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálastofu um brottfarir um Keflavíkurflugvöll. Eru það álíka margir og sóttu landið heim fyrir þremur árum, rétt í þann mund sem faraldurinn skall á af fullum þunga. Flestir urðu ferðamenn í febrúar 160 þúsund árið 2018, en það ár náði ferðamannastraumur hingað til lands hámarki á árinu í heild.

Efnahagslegir mótvindar virðast lítið bíta á ferðagleði breskra ferðamanna hingað til lands. Þarlent ferðafólk var tæplega 29% af heildarfjöldanum og fjölmennast þjóða meðal ferðamanna í febrúar. Næstir þar á eftir komu Bandaríkjamenn (15% af heild), Þjóðverjar og Frakkar (7% hvor þjóð) og íbúar hinna Norðurlandanna (5% af heild).

Kínverjar voru 3% heildarfjöldans í febrúar en þeir hafa verið fremur sjaldséðir hér á landi síðan faraldurinn brast á. Þar gæti þó orðið breyting á næsta kastið þar sem þarlend yfirvöld hafa heimilað sölu pakkaferða til kínversks ferðafólks til 40 annarra landa, þar á meðal til Íslands. Samkvæmt frétt RÚV voru Kínverjar fjórði fjölmennasti hópur ferðamanna hingað til lands síðasta árið fyrir faraldur svo væntanlega mun á ný muna talsvert um þá í hópi ferðafólks á komandi fjórðungum.

Myndarlegur vöxtur í gjaldeyristekjum ferðaþjónustu í ár

Ferðaþjónustan er nú á ný einn helsti útflutningsgeiri þjóðarbúsins eftir faraldurslægðina. Á síðasta ári voru útflutningstekjur tengdar erlendum ferðamönnum tæplega 448 ma.kr. Á sama tíma aflaði  áliðnaður 403 ma.kr. útflutningstekna og sjávarútvegur 249 ma.kr. brúttó. Þar þarf þó að halda til haga að talsvert hæra hlutfall útflutningstekna í ferðaþjónustu og sjávarútvegi verður eftir innanlands en raunin er í áliðnaði.

Myndarlegur vöxtur í gjaldeyristekjum ferðaþjónustu í ár

Ferðaþjónustan er nú á ný einn helsti útflutningsgeiri þjóðarbúsins eftir faraldurslægðina. Á síðasta ári voru útflutningstekjur tengdar erlendum ferðamönnum tæplega 448 ma.kr. Á sama tíma aflaði  áliðnaður 403 ma.kr. útflutningstekna og sjávarútvegur 249 ma.kr. brúttó. Þar þarf þó að halda til haga að talsvert hærra hlutfall útflutningstekna í ferðaþjónustu og sjávarútvegi verður eftir innanlands en raunin er í áliðnaði.

Okkur reiknast til að tekjur ferðaþjónustunnar af erlendu ferðafólki á fyrstu tveimur mánuðum ársins séu líklega á bilinu 60-70 ma.kr. Til samanburðar var vöruskiptahalli ríflega 40 ma.kr. á tímabilinu. Vitaskuld kemur líka til talsverður þjónustuinnflutningur á þessu tímabili og auk heldur skapar önnur þjónusta, ekki síst tengd hugverkum og sérfræðiþekkingu, einnig verulegar útflutningstekjur. Um þessa liði liggja þó ekki fyrir nýrri gögn en til síðustu áramóta enn sem komið er. Hvað sem því líður er ljóst að miklu munar fyrir ytra jafnvægi þjóðarbúsins hversu ferðaþjónustan er komin á góðan skrið að nýju.

Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í febrúarbyrjun áætluðum við að ferðamenn til Íslands yrðu nokkuð yfir 2,1 milljón í ár. Við teljum samkvæmt því að tekjur greinarinnar gætu orðið í grennd við 600 ma.kr. á árinu 2023. Þróunin það sem af er ári sem og vísbendingar um það sem koma skal næstu fjórðungana styður við þá spá okkar og líklega eru meiri líkur á að hún reynist í hóflegri kantinum en hitt.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband