Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ferðaþjónusta 2050

Þýskur ferðamaður segir frá ferð sinni til Íslands árið 2050


Í síðustu viku lá leið mín til Íslands, eyjunnar fögru í norðri, sem hefur getið sér gott orð sem framúrskarandi og sjálfbær áfangastaður ferðamanna síðustu áratugi. Íslendingar hafa fyrir löngu náð markmiði sínu um kolefnishlutleysi og eru nú þar að auki orðnir óháðir jarðefnaeldsneyti.  

Ég fór í mitt fyrsta nokkuð langa flug í þotu, sem knúin var áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum. Hún var í eigu íslensks flugfélags. Næstu vikuna ók ég hringinn í kringum landið. Á Íslandi er löngu búið að útrýma öllum bensín- og díselbílum. Íslendingum hefur tekist að byggja upp þéttriðið net hraðhleðslustöðva úti um allt, í bæjum og þéttbýliskjörnum, við flesta ferðamannastaði og að sjálfsögðu við alla gististaði. Á Íslandi er stórkostleg náttúrufegurð, sem er helsta auðlind ferðaþjónustunnar og það sem hún byggir sitt samkeppnisforskot á.   

Fyrir um þremur áratugum var mörkuð sú stefna á Íslandi að ferðaþjónusta yrði „leiðandi í sjálfbærni“ og þeirri stefnu fylgt eftir með nákvæmri aðgerðaáætlun. Ég gat ekki betur séð, en að þetta hafi tekist með ágætum. Ég gisti á fallegum, vel hönnuðum hótelum, bæði nýjum og rótgrónum, sem ýmist eru hluti af keðju eða rekin af fjölskyldum. Á þessum gististöðum naut ég framúrskarandi þjónustu, matar og drykkjar - oftast úr hráefni úr nærumhverfinu. Íslendingum hefur tekist vel að nýta sér nútímalegar, rafrænar tæknilausnir til hagræðingar í bland við faglega þjónustu,vel þjálfaðra og vingjarnlegra starfsmanna.  Ég heimsótti ótal ferðamannastaði, sem hafa verið haganlega útbúnir með smekklegum göngustígum, tröppum og útsýnispöllum, sem stýra umferð ferðamanna um viðkvæma náttúru.  

Í viðleitni sinni til að fá ferðamenn til ferðast um allt landið hafa Íslendingar markvisst skilgreint áhugaverða staði, hannað þá frá grunni, markaðssett og tryggt aðgengi allt árið um kring. Þannig hefur þeim tekist að efla ferðaþjónustu sem heils árs atvinnugrein um allt landið og án þess að einstakir staðir verði fyrir of miklu álagi. Hin svokallaða árstíðasveifla, sem flækir rekstur ferðaþjónustufyrirtækja um allan heim, er á Íslandi í algjöru lágmarki. Það hefur gert Íslendingum kleift að reka ferðaþjónustu um allt land á heilsársgrundvelli, að skapa heilsársstörf og þannig hafa bæði gæði og fagmennska í greininni aukist. Auk þess hafa þessi umsvif eflt byggð, alls kyns þjónustu og mannlíf um landið allt.   

Ekki er hægt að tala um Ísland án þess að minnast á náttúruböðin, sem hafa risið eitt af öðru í öllum landshlutum. Þar nýta Íslendingar jarðhitann til þess að skapa einstaka upplifun, sem höfðar til nánast allra markhópa. Ég þræddi þau að sjálfsögðu auk þess sem ég brunaði um jökulbreiður á vetnisknúnum sleða og fór í hvalaskoðunarferð á rafdrifnu skipi.   

Eftir að ég kom aftur til Reykjavíkur hitti ég ferðamálastjóra. Hann sagði mér að Íslendingar væru almennt ánægðir með ferðaþjónustuna. Áhersla á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð og sú stefna sem var mörkuð fyrir aldarfjórðungi um að hætta alfarið að hugsa um fjölda ferðamanna, en einblína á verðmæti hvers ferðamanns, skilaði árangri. Verðmætasköpunin er mikil og framlag ferðaþjónustunnar til góðra lífskjara hlutfallslega mjög stórt.  Ánægja ferðamanna mælist mjög mikil og ferðaþjónusta á Íslandi skorar enn sem fyrr einna hæst allra þjóða í NPS ánægjumælingunni. Íslendingar hafa einnig notið góðs af hnattrænni legu landsins, þegar áfangastaðir á suðrænum slóðum fóru að gefa verulega eftir vegna mikilla sumarhita fyrir um 25 árum síðan og fólk tók að velja að eyða sumarleyfinu sínu norðarlega á hnettinum.  Það “megatrend”, sem sprottið er af aukinni umhverfisvitund og þeirrar tilhneigingar fólks að  fækka ferðum og lengja þær, hefur einnig samræmst markmiðum Íslendinga í ferðaþjónustu fullkomlega. Ísland er ekki ódýr áfangastaður, enda hefur fjárfesting, bæði innlend og erlend,  undanfarna áratugi verið gríðarleg. Ísland er þar að auki hálaunaland í öllum alþjóðlegum samanburði. En það kemur ekki að sök - Ísland er hverrar evru virði og samhengið á milli verðs og gæða mjög gott. Ég gef því Íslandi mín bestu meðmæli.  

Berlín 24.07.2050
Heike Böhmer, ferðablaðamaður

Höfundur


Bjarnheiður Hallsdóttir

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar