Í fyrradag var félagsskiptaglugga ensku úrvalsdeildarinnar lokað með hvelli og sitja missáttir knattspyrnustjórar og áhangendur uppi með núverandi leikmannahóp. Margir voru skiljanlega forvitnir að sjá hvaða áhrif COVID-19 hremmingarnar kæmu til með að hafa og verður að segjast að þau voru afar áhugaverð.
Knattspyrnuhreyfingin hefur aldrei orðið fyrir viðlíka áfalli hvað rekstrarumhverfi varðar, ef frá eru taldar heimsstyrjaldir síðustu aldar. Alls staðar hafa tekjur hrapað eða eru í það minnsta í uppnámi næsta kastið. Miðasala hefur fuðrað upp, minna er að sækja til auglýsenda og sjónvarpsstöðvar krefjast endurgreiðslu eða bóta. Allir sigla þennan brotsjó saman en á meðan sumir, svo sem lið í neðri deildum Englands, í Skotlandi og hér á landi, keppast við að ausa úr árabátunum virðist sem ensku úrvalsdeildarliðin stími framhjá á lystisnekkju. Þar virðist engin hætta á að drukkna í öðru en kampavíni og endurspeglaðist það í eyðslu félaganna nú í haust.
Vissulega var fjárhagsstaða þessara tilteknu liða ólíkt betri en flestra, fyrir faraldurinn. Ef frá eru taldir Íslendingavinirnir í West Ham þurfti ekki að grípa til örþrifaráða til að bjarga liðunum fá gjaldfalli þegar óvissan var sem mest í vor en tekjufallið var þó gríðarlegt og verður það einnig nú í vetur. Yfirgnæfandi líkur eru á að öll verði liðin rekin með umtalsverðu tapi og ætla mætti að versnandi horfur yrðu til þess að liðin héldu að sér höndum hvað kaup á leikmönnum varðar en önnur hefur raunin nú aldeilis verið.