Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Eru uppáhaldsliðin okkar nokkuð í hættu?

Formaður Burnley segir félagið stefna í greiðsluþrot síðsumars ef ekkert verður að gert.


Tekjulausir mánuðir og fullkomin óvissa um framvindu móta er tæplega nokkuð sem félögin í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu höfðu búið sig undir. Að ýmsu er að keppa í deildinni og það kostar skildinginn. Það er dýrt að keppa um titilinn, sæti í Evrópukeppni  eða að forðast fall niður um deild og því eru félögin yfirleitt rekin rétt við núllið. Hjá mörgum þeirra má lítið út af bregða í rekstrinum og það ástand sem nú ríkir vekur eðlilega upp spurningar um afdrif einstakra liða.

Ólík staða liðanna

Eins og svo oft áður eru þó ekki allir jafnir. City og United frá Manchester, Arsenal og Tottenham hafa sem dæmi borð fyrir báru sem West Ham skorti og því hafa eigendur Hamranna neyðst til að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til að halda liðinu á floti næstu vikurnar. Þar sem um tímabundið ástand er að ræða er stóra verkefnið, rétt eins og hvað atvinnulífið hér heima varðar, að fleyta liðunum í gegnum klandrið meðan á því stendur og lágmarka skaðann. En þar sem alls er óvíst hve lengi ástandið varir og til hvaða mótvægisaðgerða verður gripið af hálfu knattspyrnusambanda freista úrvalsdeildarliðin þess nú að lágmarka útgjöld og hámarka tekjurnar.

Í hvað stefnir?

Hvað útgjöldin varðar snýst allt um launagreiðslur, sem nema um 2/3 hluta veltu að meðaltali en allt að 85% hjá sumum. Ekkert varð úr tilraun til að samræma frestun eða lækkun launa en fæst félögin munu, án umtalsverðrar aðstoðar, bera núverandi launakostnað nema um skamma hríð. Formaður Burnley hefur sem dæmi sagt félagið stefna í greiðsluþrot síðsumars ef ekkert verður að gert. Sjónvarpsútsendingar skila félögunum að meðaltali helmingi tekna og allt að 80% hjá minni félögunum. Til að samningar standi má reikna með að ljúka þurfi þeim umferðum sem eftir eru án þess að stytta þurfi næsta tímabil.

Á þessum tímapunkti er óþægilega mikið um spurningar og allt of fá svör. Meðal þess sem við getum þó spurt okkur er hvort félögum þessarar vinsælustu knattspyrnudeildar heims verður hreinlega leyft að fara meidd af velli eftir þessa tveggja fóta tæklingu. Ætli það sé nú ekki líklegra að þeim verði tjaslað saman og haldið inn á þó sum þeirra verði með rifna buddu.

Pistillinn birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst