Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Erlendir aðilar fáir og smáir á innlendum verðbréfamarkaði

Verðbréfaeign erlendra aðila í krónum hefur minnkað verulega frá upphafi faraldurs og er með minnsta móti um þessar mundir. Seldu þeir fyrst og fremst ríkisbréf árið 2020 en hlutabréf á seinasta ári. Líkur á miklu viðbótarútflæði af þessum sökum eru því litlar og er fremur útlit fyrir að verðbréfaeign þeirra sæki í sig veðrið á nýjan leik.


Eign erlendra aðila í skráðum innlendum verðbréfum hefur dregist mikið saman frá því faraldurinn reið yfir fyrir tæpum tveimur árum síðan. Sér í lagi hafa þeir minnkað umtalsvert við sig ríkisbréfaeign og eignarhluti í skráðum félögum í Kauphöllinni. Útflæði vegna þessa var hluti af ástæðu þess að Seðlabankinn seldi nærri 1,1 ma. evra umfram kaup á gjaldeyrismarkaði frá ársbyrjun 2020 til aprílloka 2021.

Seðlabankinn birtir tölur yfir flæði vegna þeirra nýfjárfestinga sem erlendir aðilar hafa ráðist í frá ársbyrjun 2015, en slíkar fjárfestingar þarf að skrá hjá bankanum. Eins og sjá má af myndinni var hreint innflæði allnokkuð allt fram á mitt ár 2019. Á þeim tímapunkti nam uppsafnað innflæði vegna nýfjárfestinga alls 318 mö.kr. Frá júlí 2019 hefur hreint útflæði hins vegar numið 125 mö.kr. og eins og sjá má var útflæðið til muna mest á tímabilinu frá miðju ári 2020 til loka 1. ársfjórðungs í fyrra.

Á seinni helmingi ársins 2020 munaði mest um sölu erlendra aðila á ríkisbréfum. Í Fjármálastöðugleika Seðlabankans sem gefinn var út á vordögum kom fram að hrein nýfjárfesting hefði verið um 57 ma.kr. árið 2020. Þar af hefði sala erlendra aðila á ríkisbréfum numið 51 ma.kr. á tímabilinu. Var þar aðallega um að ræða einn stóran skuldabréfasjóð sem í upphafi árs hafði haldið á helmingi heildareignar erlendra aðila í ríkisbréfum en seldi öll bréf sín á þessu tímabili. Fram hefur komið í fjölmiðlum að þar var um að ræða sjóðinn BlueBay Asset Management.

Eftir hina umfangsmiklu sölu BlueBay hefur breyting á erlendri eign í ríkisbréfum verið minni en þó hefur hún heldur sigið niður á við. Samkvæmt nýjustu gögnum frá Lánamálum ríkisins nam eign erlendra aðila í ríkisbréfum alls ríflega 40 mö.kr. í nóvemberlok. Þeir áttu því innan við 4% af útgefnum ríkisskuldabréfum í krónum (1.020 ma.kr.) á þeim tímapunkti. Hefur sú staða aldrei verið minni svo langt aftur sem opinber gögn ná.

Erlendir aðilar seldu hlutabréf í fyrra

Eftir söluhrinu BlueBay á ríkisbréfum má hins vegar skrifa stærstan hluta hreyfinga vegna skráðra nýfjárfestinga, og þar með verðbréfaviðskipta erlendra aðila, á kaup og sölu á hlutabréfum. Fram kom í Fjármálastöðugleika að á fyrsta fjórðungi ársins 2021 hefði helsta skýring á 58 ma.kr. neikvæðri nýfjárfestingu verið sala erlendra sjóðafyrirtækja á bréfum í Arion banka. Þau viðskipti hlutu raunar þann vafasama heiður nýlega að vera valin verstu viðskipti síðasta árs af dómnefnd á vegum Markaðar Fréttablaðsins.

Eins og sjá má af myndinni hefur flæði vegna skráðra nýfjárfestinga verið fremur lítið frá miðju síðasta ári. Raunar var 2. ársfjórðungur einnig fremur tíðindalítill ef frá er talinn júnímánuður, þegar erlend sjóðafyrirtæki keyptu talsvert magn hluta í frumútboði Íslandsbanka. Sundurliðuð gögn fyrir útflæði nýfjárfestingar liggja ekki fyrir eftir ágústmánuð 2021 en með hliðsjón af gögnum Lánamála, sem sýna óverulega breytingu á ríkisbréfaeign erlendra aðila, má leiða að því líkur að stór hluti þeirra rúmu 12 ma.kr. sem flokkast sem útflæði í tölum Seðlabankans sé vegna sölu erlendra aðila á hlutabréfum.

Ríflega fimmtungur erlendra krónuskulda í verðbréfum 2020

Framangreind þróun endurspeglast einnig í tölum um erlendar skuldbindingar í krónum. Samkvæmt nýjustu tölum frá Seðlabankanum, sem ná til ársloka 2020, voru slíkar skuldbindingar þá 829 ma.kr. og höfðu lækkað um 115 ma.kr. frá árinu áður. Fram kemur í sérriti Seðlabankans sem gefið var út í maí sl. að sú lækkun var fyrst og fremst vegna sölu erlendra aðila á innlendum verðbréfum og lækkun beinnar erlendrar fjárfestingar þar sem rekstrartap var fært sem neikvæður endurfjárfestur hagnaður. Í sama riti kemur einnig fram að í lok árs var erlent eignarhald á verðbréfum í íslenskum krónum samtals 172 ma.kr. eða sem samsvarar rétt ríflega fimmtungi af heildarskuldbindingum í krónum gagnvart erlendum aðilum á þeim tíma. Ef marka má þróunina sem að framan er lýst var þessi staða líklega enn minni um nýliðin áramót.

Erlent innflæði bæði fremur líklegt og jákvætt

Allt ber þetta að sama brunni að okkar mati: Verðbréfaeign erlendra aðila í íslenskum krónum er með minnsta móti um þessar mundir eftir að hafa minnkað talsvert frá upphafi faraldurs. Á sama tíma hefur íslenskum hlutabréfamarkaði haldið áfram að vaxa fiskur um hrygg og ávöxtun á skuldabréfum í krónum er að jafnaði talsvert meiri en gerist og gengur meðal OECD-ríkja. Hættan á frekara útflæði vegna sölu á slíkum eignum er að sama skapi fremur takmörkuð og líkurnar liggja að okkar mati frekar á þann veg að erlendir aðilar muni á komandi misserum auka við verðbréfaeignir sínar hér á landi. Fer vel á því enda eru innlendir aðilar, sér í lagi lífeyrissjóðirnir, að fjárfesta í erlendum verðbréfum fyrir verulegar fjárhæðir á ári hverju og mun það verða raunin áfram á komandi árum enda er innlendur sparnaður enn mikill.

Slíkt gagnkvæmt flæði verðbréfafjárfestingar landa á milli ætti öðru jöfnu að verða öllum aðilum heilladrjúgt, sér í lagi þegar það fer saman við þokkalegt jafnvægi á viðskiptajöfnuði eins og raunin verður væntanlega á næstunni. Aukin aðkoma erlendra aðila hér á landi gerir fjárfestaflóruna hér á landi fjölbreyttari og stuðlar að virkum skoðanaskiptum á markaði á meðan fjárfesting innlendra aðila út fyrir landsteinana stuðlar að áhættudreifingu. Fyrir lítið, opið hagkerfi með fremur smáa fjármálamarkaði en mikinn uppsafnaðan langtímasparnað er það mikilvægt.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband