Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Erlend staða þjóðarbúsins styrktist í fyrra þrátt fyrir viðskiptahalla

Viðskiptahalli á síðasta ári var sá mesti frá því fyrir hrun. Hallinn er þó ekki mikið áhyggjuefni enda horfur á skjótum bata viðskiptajafnaðarins á komandi fjórðungum. Þrátt fyrir hallann hélt erlend staða þjóðarbúsins áfram að batna og útlit er fyrir að erlenda staðan styrkist enn frekar.


Viðskiptahalli við útlönd var 44,2 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Það er mesti viðskiptahalli á einum fjórðungi í rúmlega 13 ár. Skýrist hallinn af 38,7 ma.kr. vöruskiptahalla, 15,5 ma.kr. halla á frumþáttatekjum og 10,1 ma.kr. halla á rekstrarframlögum en 20,1 ma.kr. afgangur af þjónustujöfnuði vó á móti.

Hagnaður álvera skýrir líklega halla á frumþáttatekjum

Mikill halli á frumþáttatekjum á fjórðungnum vekur sérstaka athygli enda hefur sá liður skilað afgangi samfleytt frá öðrum ársfjórðungi 2015. Frumþáttatekjur er samheiti yfir tekjur og gjöld af launavinnu og fjármagni milli landa. Launagreiðslur milli landa hafa undanfarið skilað nokkrum afgangi og svo er einnig nú. Hins vegar voru fjármagnsgjöld til útlanda umtalsvert meiri en fjármagnstekjur erlendis frá, aldrei slíku vant, og skýrir það hallann nú. Nánar tiltekið er verulegur halli á þáttatekjujöfnuði tengdum beinni fjárfestingu á milli landa og kemur fram í frétt Seðlabankans að skýringin sé að mestu leyti bætt afkoma fyrirtækja í erlendri eigu sem flokkast undir beina fjárfestingu. Hér er væntanlega að stærstum hluta um að ræða álverin þrjú. Álverð hefur hækkað skarpt undanfarna fjórðunga og afkoma álveranna trúlega batnað að sama skapi.

Tímabundinn viðskiptahalli ekki mikið áhyggjuefni

Á árinu 2021 var viðskiptahalli 90,2 ma.kr. sem samsvarar 2,8% af vergri landsframleiðslu (VLF). Er árið það fyrsta frá árinu 2011 þar sem halli mælist á utanríkisviðskiptum en hallinn hefur ekki verið meiri frá því herrans ári 2008. 164 ma.kr. vöruskiptahalli vegur þyngst í viðskiptahallanum en einnig var 33 ma.kr. halli á rekstrarframlögum milli landa. Frumþáttatekjur skiluðu hins vegar 12 ma.kr. afgangi og afgangur á þjónustujöfnuði var 95 ma.kr. á síðasta ári.

Þótt viðskiptahalli á síðasta ári hafi reynst heldur meiri en við höfðum vænst er hallinn ekki sérstakt áhyggjuefni í okkar huga. Í sem stystu máli er hann að mestu tilkominn vegna þess að innlend eftirspurn rétti kröftugar úr kútnum eftir Kórónukreppuna en útflutningur. Mikill innflutningur á fjárfestingar- og neysluvörum er því drjúgur hluti skýringarinnar á hallanum í fyrra. Horfur eru á hröðum útflutningsvexti í ár og á móti væntum við þess að nokkuð dragi úr vexti innflutnings. Það er því útlit fyrir að aftur verði afgangur af viðskiptajöfnuði á yfirstandandi ári og næstu tvö árin eigum við von á að afgangurinn fari yfir 100 ma.kr. hvort ár.

Hreinar erlendar eignir þjóðarbúsins 40% af VLF

Þrátt fyrir viðskiptahalla hélt erlend staða þjóðarbúsins áfram að styrkjast á liðnu ári. Um síðustu áramót voru erlendar eignir umfram skuldbindingar 1.299 ma.kr. samkvæmt tölum Seðlabankans. Það samsvarar ríflega 40% af VLF og batnaði erlend staða þjóðarbúsins á þann kvarða um 7,5% af VLF á síðasta ári. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 5.099 ma.kr. í árslok 2021 og jukust þær um 640 ma.kr. á árinu. Erlendar skuldir voru hins vegar 3.801 ma.kr. um síðustu áramót og höfðu þá hækkað um 325 ma.kr. frá ársbyrjun.

Jákvæð þróun á erlendum verðbréfamörkuðum á síðasta ári á sinn þátt í því að erlenda staðan batnaði þrátt fyrir halla á utanríkisviðskiptum. Mikill munur er á samsetningu erlendra eigna og skulda þjóðarbúsins og reyndist sá munur okkur hagfelldur á liðnu ári.

Þessi munur fellst til dæmis í því að erlendar lánaskuldbindingar, þ.e. skuldabréf í eigu erlendra aðila og beinar lántökur, eru töluvert meiri en erlendar eignir innlendra aðila af því tagi. Skýring þessa liggur í því að ríkissjóður, bankakerfið og stærstu fyrirtæki landsins fjármagna sig að hluta á alþjóðamörkuðum en erlend lánaumsvif bankakerfisins eru á sama tíma takmörkuð og fjárfestingar lífeyrissjóða í erlendum eignum eru að mjög litlum hluta í skuldabréfum, innstæðum í erlendum bönkum eða tengdum eignum. Þótt hreinar erlendar skuldir af framangreindu tagi séu jafnvirði ríflega 1.312 ma.kr. ber að halda til haga að þær eru að stærstum hluta í erlendum gjaldmiðlum. Vextir af þessum skuldum eru því býsna lágir um þessar mundir og hafa verið lágir síðustu árin.

Aftur á móti er eign innlendra aðila í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum 2.179 ma.kr. umfram erlendar skuldir af þessu tagi. Þarna munar mestu um lífeyrissjóðina sem áttu í árslok jafnvirði 2.410 ma.kr. í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum samkvæmt tölum Seðlabankans.

Þá heldur Seðlabankinn sjálfur á drjúgum hluta af erlendum eignum þjóðarbúsins. Gjaldeyrisforði bankans var í árslok jafnvirði 923 ma.kr. Gjaldeyrisforðinn aflar hins vegar sáralítilla fjármagnstekna þar sem Seðlabankanum ber að ávaxta hann á áhættulitlum skammtímavöxtum sem um þessar mundir eru nærri sögulegu lágmarki.

Traust erlend staða þjóðarbúsins lykilatriði

Traust erlend eignastaða þjóðarbúsins er að mati okkar lykilþáttur í því að efla viðnámsþrótt lítils, opins hagkerfis með smæstu fljótandi mynt heims gagnvart efnahagslegum sviptivindum. Birtist það til að mynda í því að þrátt fyrir þungt högg á stærstu útflutningsgrein landsins við upphaf Covid-19 faraldursins fyrir tveimur árum síðan hafa áhyggjur innlendra sem erlendra aðila af fjármagnsflótta og gjaldeyriskreppu í kjölfar faraldursins ekki látið á sér kræla enda væru slíkar áhyggjur á litlum rökum reistar. Það er engin tilviljun að samfara batnandi erlendri stöðu og viðvarandi viðskiptaafgangi hefur stöðugleiki krónunnar aukist og verðbólga verið skaplegri en á fyrri tíð þrátt fyrir að verðbólgan hafi vissulega aukist undanfarið líkt og í öðrum löndum.

Afturhvarf til viðskiptaafgangs á komandi misserum er svo til þess fallið að styrkja erlendu stöðuna enn frekar þegar til lengdar lætur. Því eru góðar líkur á að styrkleiki þjóðarbúsins út á við og viðnámsþol þess fyrir ytri áföllum verði áfram umtalsvert meiri en raunin lengst af á síðustu öld og raunar allt fram á síðasta áratug.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband