Vöruskiptahalli í október var 50,5 ma.kr. samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Er það mesti halli á vöruskiptum í einum mánuði frá október í fyrra og ríflega tvöfalt meiri halli en í septembermánuði. Skýrist stóraukinn halli milli mánaða bæði af auknum innflutningi og samdrætti í útflutningi.
Er vöruskiptahallinn að veikja krónuna?
Mikill vöruskiptahalli í október skýrist meðal annars af miklum innflutningi á fjárfestingarvörum og bifreiðum sem og fremur rýrum útflutningi. Þróun vöruskipta bendir til þess að hægt hafi bæði á eftirspurnarvexti og umsvifum útflutningsframleiðslugreina. Umtalsverður afgangur af þjónustuviðskiptum vó gegn vöruskiptahalla á þriðja ársfjórðungi og útlit er fyrir þokkalegt jafnvægi á viðskiptajöfnuði í ár.
Eins og sjá má af myndinni skýrist aukinn innflutningur milli mánaða að töluverðu leyti af vexti í innflutningi fjárfestingarvara en slíkur innflutningur hefur ekki verið meiri frá sama mánuði í fyrra. Þá tók fólksbílainnflutningur talsverðan fjörkipp og jókst slíkur innflutningur um rúmlega þriðjung milli ára, reiknað á sama gengi krónu. Er það nokkuð meiri aukning nýbirtar tölur Bílgreinasambandsins um nýskráningar bifreiða gáfu til kynna en samkvæmt þeim fjölgaði nýskráningum fólksbíla um 19% milli ára í október. Munurinn kann að liggja í því að dýrari bifreiðar hafi að jafnaði verið fluttar inn í haust en á sama tíma fyrir ári. Í því sambandi má nefna að hlutfall rafmagnsbíla af heildarsölu hefur farið hækkandi og tengist það vafalítið breytingum á skattlagningu slíkra bifreiða um komandi áramót. Alls nam vöruinnflutningur tæpum 122 ma.kr. í október.
Athygli vekur að í samanburði við október í fyrra jókst innflutningur neysluvara annarra en matvæla, fólksbíla og eldsneytis um tæp 5% milli ára. Til samanburðar hækkaði verð á innfluttum neysluvörum í vísitölu neysluverðs um 3,9% á tímabilinu. Að því gefnu að sú hækkun endurspegli breytingar á innflutningsverði virðist sem innflutningur almennra neysluvara, annarra en matvæla og bifreiða, hafi vaxið lítið milli ára í magni mælt.
Vöruútflutningur skrapp nokkuð saman á milli mánaða en hann nam alls 71 ma.kr. í október. Þar munar mest um fimmtungs samdrátt í útflutningi sjávarafurða en útflutningur iðnaðarvara skrapp saman um ríflega 12% milli mánaða.
Samdráttur milli ára í út- og innflutningi vöru
Þróun vöruskipta helst allvel í hendur við hagsveifluna í okkar litla, opna hagkerfi. Því er fróðlegt að skoða þróun inn- og útflutnings þegar leiðrétt er fyrir gengisbreytingum krónu og hreyfanlegt meðaltal notað til að sjá betur undirliggjandi þróun. Verulegur vöxtur var milli ára í bæði inn- og útflutningi allt frá vordögum 2021 fram á síðasta haust. Þá tók að draga verulega úr vaxtartaktinum milli ára en vöxturinn í innflutningi var þó allnokkuð lífseigari en á útflutningshliðinni.
Nú er hins vegar svo komið að talsverður samdráttur mælist milli ára bæði í vöruinnflutningi og -útflutningi. Undanfarna þrjá mánuði hefur vöruinnflutningur þannig skroppið saman um tæp 12% á þennan mælikvarða en vöruútflutningur hefur minnkað um nærri 16%. Hér skiptir væntanlega talsverðu máli að verð hefur lækkað í erlendri mynt bæði á ýmsum útflutningsafurðum, sér í lagi áli, og einnig á ýmsum innfluttum aðföngum. Þrátt fyrir það er þróunin líka til marks um viðsnúning í hagkerfinu. Innflutningsþróunin gefur þannig vísbendingu um hægari vöxt neyslu og fjárfestingar á meðan útflutningsþróunin gefur til kynna stöðnun í magni vöruútflutnings eftir nokkurn vöxt undanfarin tvö ár.
Vöruskiptahalli á fyrstu 10 mánuðum þessa árs nam 336 ma.kr. og jafngildir 85 ma.kr. auknum halla frá sama tímabili í fyrra. Vöruskiptin segja þó aðeins hálfa söguna þegar kemur að utanríkisviðskiptum. Undanfarin ár hefur halli á vöruskiptum verið reglan en afgangur af þjónustuviðskiptum oft á tíðum vegið þyngra í viðskiptajöfnuði. Aukinn vöruskiptahalli undanfarna fjórðunga endurspeglar raunar að hluta aðfangakaup og fjárfestingar tengt vaxandi gjaldeyrissköpun ferðaþjónustu og annarra þjónustuútflutningsgreina.
Minnkandi þjónustuafgangur eftir háönn
Ekki liggja fyrir tölur um þjónustuviðskipti síðustu mánaða en á fyrstu 7 mánuðum ársins nam afgangur af slíkum viðskiptum 168 ma.kr. Væntanlega hefur afgangurinn einnig verið umtalsverður í ágúst og september ef marka má ferðamannatölur og gögn um kortaveltu. Trúlega hefur svo dregið allnokkuð úr þjónustuafgangi í októbermánuði samhliða fækkun ferðamanna eftir háönnina.
Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og sögulegri þróun höfum við slegið grófu mati á þróun þjónustuviðskipta síðustu mánuði. Miðað við það mat var afgangur af þjónustuviðskiptum líklega í grennd við 150 ma.kr. á 3. ársfjórðungi og afgangur af samanlögðum vöru- og þjónustuviðskiptum þar með trúlega á bilinu 30 – 35 ma.kr. á fjórðungnum.
Mat okkar virðist ríma allvel við gengisþróun krónu undanfarna mánuði. Krónan styrktist allt fram til loka ágústmánaðar en frá septemberbyrjun hefur hún gefið allnokkuð eftir á nýjan leik. Vitaskuld er þróun vöru- og þjónustuviðskipta aðeins einn þáttur af mörgum sem ráða gjaldeyrisflæði til og frá landinu á hverjum tíma. Þættir á borð við jöfnuð á þáttatekjum og framlögum, fjárfestingar milli landa og stöðutöku í framvirkum samningum hafa þar einnig mikil áhrif og vega á stundum mun þyngra en bein viðskipti með vörur og þjónustu í gengisþróun krónu.
Við teljum, þrátt fyrir að heldur hafi sigið á ógæfuhliðina í vöruskiptum í októbermánuði, að þokkalegt jafnvægi verði í heild á utanríkisviðskiptum í ár. Viðskiptahalli á fyrri árshelmingi reyndist einungis 4 ma.kr. samkvæmt tölum Seðlabankans og vel gæti farið svo að smávægilegur afgangur reynist á viðskiptajöfnuði ársins í heild líkt og við spáðum í septemberlok.