Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Er vit í að deila lífeyri með makanum?

Mun meira mætti ræða um möguleika á skiptingu lífeyris hér á landi.


Við höfum flest nóg annað við tímann að gera en að hafa áhyggjur. Því miður þurfa þó allt of margir, sem unnið hafa hörðum höndum á vinnumarkaði eða heima fyrir, að telja hverja krónu á efri árum. Draumurinn um áhyggjulaust ævikvöld er ekki sjálfsagður og hjá mörgum má ekkert út af bregða svo hann rætist.

Áföllin gera ekki boð á undan sér en það er þess virði að skoða möguleikana á að takmarka áhrif þeirra. Mun meira mætti því ræða um möguleika á skiptingu lífeyris hér á landi.

Þar sem lífeyrisréttindi eru einstaklingsbundin er ekki óalgengt að staða hjóna og sambúðarfólks sé mjög misjöfn í því samhengi og hallar æði oft á konur sem verið hafa heimavinnandi, á lægri launum eða skemur á vinnumarkaði. Þær eiga oft minni réttindi og eru verr tryggðar fjárhagslega ef þær missa eða skilja við makann sinn.

Þrír kostir eru í boði við skiptingu lífeyris sem bætt getur stöðu þeirra sem verri hafa réttindin. Fyrst má nefna að við megum greiða inn í lífeyrissjóð makans okkar, ef hann gerir slíkt hið sama. Allt að helmingur iðgjalda (sama hlutfall hjá báðum aðilum) rennur þá inn í lífeyrissjóð maka og tryggir jafna uppbyggingu réttinda. Þetta getur sem dæmi nýst til áframhaldandi söfnunar réttinda þeirra sem hyggjast vera heimavinnandi eða taka langt fæðingarorlof.

Útgreiðslum úr lífeyrissjóðum má skipta með sama hætti og er þá hægt að óska eftir að allt að helmingur greiðslna (hjá báðum aðilum) sé millifærður á reikning maka í hverjum mánuði. Dvelji maki á hjúkrunarheimili getur munað miklu um þessa ráðstöfun vegna tekjutenginga.

Þriðji möguleikinn er varanlegt framsal uppsafnaðra réttinda. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og fyrir 65 ára aldur getum við „gefið“ hvort öðru allt að helming þeirra réttinda sem safnast hafa meðan staðfest sambúð eða hjónaband hefur varað. Ólíkt þeim ráðstöfunum sem ég nefndi að framan er hér um varanlega skiptingu að ræða. Best er að leita sér ráðgjafar fagfólks áður en ráðist er í slíkt og borgar sig að líta sérstaklega til greiðslna TR og makalífeyrisréttinda í því sambandi. 

Greinin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst