Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Er vaxtalækkun Seðlabankans að skila sér?

Langtíma markaðsvextir hafa hækkað talsvert frá nóvemberbyrjun þrátt fyrir óbreytta stýrivexti. Það dregur úr jákvæðum áhrifum stýrivaxtalækkunar á heimili og fyrirtæki í landinu. Stjórnvöld þurfa líklega fyrr en síðar að huga að frekari slökun fjármálalegs aðhalds.


Óhætt er að segja að markaðir hafi tekið vaxtaákvörðun Seðlabankans í gær og skilaboðum stjórnenda bankans í kjölfarið heldur fálega. Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hækkaði um 6 – 13 punkta (hundraðshluta úr prósentu) í kjölfar ákvörðunarinnar, hvort sem litið er til verðtryggðra eða óverðtryggðra vaxtaferla. Raunvextir á skuldabréfamarkaði hækkuðu því í raun um sem nemur u.þ.b. 0,1% eftir ákvörðunina. Frá vaxtaákvörðuninni í nóvemberbyrjun hafa raunvextir hækkað um 40 - 50 punkta hvort sem miðað er við ávöxtunarkröfu verðtryggðra ríkisbréfa eða reiknaða raunávöxtunarkröfu óverðtryggðra bréfa.

Þegar þetta er ritað er ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisbréfa með 10 ára meðaltíma rétt ríflega 1,0%. Svo há hefur ávöxtunarkrafan ekki verið frá júníbyrjun. Með öðrum orðum er grunnur langtíma raunvaxta á markaði á svipuðum slóðum og hann var við upphaf vaxtalækkunarferlis Seðlabankans síðla vors. Hér ber þó að halda til haga að eftir fall WOW-Air í marslok hafði verðtryggða krafan þegar lækkað allnokkuð fram í apríllok þar sem væntingar um komandi stýrivaxtalækkun jukust jafnt og þétt.

Langtímavextir hækka á nýjan leik

Í kynningum eftir vaxtaákvörðunina í nóvember notaðist Seðlabankinn við graf sem sýna átti miðlun stýrivaxta yfir í almennt vaxtastig í hagkerfinu. Þar kom fram að frá apríllokum til loka september hefðu skuldabréfavextir á markaði lækkað um 0,6 prósentur á sama tíma og stýrivextir hefðu lækkað um 1,0 prósentu. Taldi Seðlabankafólk þetta til marks um að vaxtalækkun bankans væri að miðlast í meginatriðum út í langtímavexti á markaði.

Þetta samhengi hefur breyst nokkuð ef tímabilið frá apríllokum til dagsins í dag er skoðað. Á þessum tíma hafa meginvextir SBÍ lækkað um 1,5 prósentur en vextir á lengstu flokkum ríkisskuldabréfa hafa lækkað um 0,1 – 0,3 prósentur samkvæmt útreikningum okkar. Vissulega er skammt um liðið frá síðustu vaxtaákvörðun og á komandi vikum kemur væntanlega í ljós hver endanleg áhrif skilaboða Seðlabankans við síðustu tvær vaxtaákvarðanir verða á mörkuðum. Ef ekki verða umtalsverðar breytingar á raunvöxtum á markaði á næstunni aukast hins vegar líkur á að sambærilegar breytingar verði á lengri útlánavöxtum almennt. Má til dæmis nefna að algengt er að lífeyrissjóðir byggi vaxtakjör sín á verðtryggðum markaðsvöxtum.

Vinnur þjóðhagsvarúð gegn vaxtalækkun?

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar í gær að það væri áhyggjuefni ef lækkun vaxta væri ekki að miðlast út í hagkerfið. Hann taldi þó að áhyggjuefnið um þessar mundir væru ekki fyrst og fremst verð á fjármagni heldur fremur framboð á fjármagni. Rétt er að taka undir áhyggjur seðlabankastjóra af framboði á fjármagni þótt við teljum ekki síður mikilvægt að horfa til þróunar markaðsvaxta og raunar helst þetta tvennt í hendur að verulegu leyti. Í því sambandi er vert að minna á að þann 1. febrúar næstkomandi tekur gildi 0,25 prósentu hækkun á sveiflujöfnunarauka sem hækkar eiginfjárkröfur stjórnvalda á viðskiptabanka að sama skapi. Vandséð er að slík hækkun sé viðeigandi eins og sakir standa. Önnur þjóðhagsvarúðartæki á borð við strangar lausafjárkröfur eru heldur ekki til þess fallin að auka útlánavilja eða -getu viðskiptabankanna um þessar mundir.

Vissulega er full ástæða til þess að fara með gát þegar kemur að bankakerfinu að fenginni reynslu enda er rammi þess og innra sem ytra eftirlit með allt öðrum og varfærnari hætti um þessar mundir en var á fyrsta áratug aldarinnar. Ört hjaðnandi útlánavöxtur er hins vegar til marks um að minnkandi þörf sé fyrir strangt aðhald frá framangreindum þjóðhagsvarúðartækjum og stjórnvöld ættu að horfa til þess að byrgja ekki eingöngu áratugar gamlan brunn heldur komast einnig hjá því að nýir brunnar grafi um sig hvað þetta varðar.

Líklega þarf að endurmeta aðhald fyrr en síðar

Í ljósi þróunarinnar undanfarið er því líklegt að bæði þurfi Seðlabankinn að endurmeta miðlun stýrivaxtanna yfir í almenna vexti á markaði, en ekki síður þurfa stjórnvöld í vaxandi mæli að skoða hvaða leiðir eru færar til að liðka fyrir miðlun fjármagns á ásættanlegum kjörum til þeirra fyrirtækja og heimila sem nýtt geta það til góðra verka og dregið með því úr hættu á samdrætti í hagkerfinu á komandi misserum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband