Seðlabankanum er nokkur vandi á höndum. Hagkerfið hefur undanfarið gengið í gegn um mikinn samdrátt og þrátt fyrir að landið sé tekið að rísa er staðan enn nokkuð tvísýn. Á sama tíma hefur verðbólga reynst talsvert þrálátari en vænst var. Í apríl var verðbólgutakturinn sá hraðasti í átta ár og verðbólga hefur verið yfir 4% efri viðmiðunarmörkum verðbólgumarkmiðs bankans frá áramótum. Verðbólguvæntingar hafa þokast upp og langtíma verðbólguálag á markaði hefur ekki verið lengra frá verðbólgumarkmiðinu í tvö ár. Seðlabankafólk hefur eðlilega lýst áhyggjum af ástandinu og minnt á að tæki og tól bankans til aukins aðhalds séu skammt undan ef ekki horfir til betri vegar fyrr en seinna.
Þótt íbúðaverð hafi reynst drýgsti hækkunarvaldur vísitölu neysluverðs í apríl eru ástæður mikillar verðbólgu þó fleiri þessa dagana, enda mældist 12 mánaða verðbólga með og án húsnæðisliðar sú sama í mánuðinum. Af 4,6% núverandi verðbólgu má rekja 2,0 prósent til innfluttra vara, 0,9 prósent til húsnæðisliðar og innlendar vörur og þjónusta skýra hvor sínar 0,8 prósenturnar. Húsnæðisliðurinn skýrir því fimmtung verðbólgunnar undanfarna 12 mánuði.
Hröð hækkun íbúðaverðs í síðustu mælingu Hagstofunnar lyfti hins vegar brúnum margra, enda virðist hann renna frekari stoðum undir þá útbreiddu skoðun að spenna fari vaxandi á íbúðamarkaði. Öfugt við ýmsa aðra þætti verðbólgunnar er íbúðamarkaðurinn auk heldur undir áhrifasviði Seðlabankans þar sem vextir og önnur umgjörð lánamarkaðar hafa mikil áhrif á þróun hans.
Sviðið sem Seðlabankinn horfir yfir má því kortleggja eitthvað á þessa leið: Eftir ár af kórónukreppu er atvinnuleysi mikið. Fyrirtæki og einyrkjar í stærstu útflutningsgreininni og tilteknum öðrum innlendum geirum á borð við sviðslistir hafa orðið fyrir miklum búsifjum og tekjutapi. Óvissa er enn mikil og fyrirtæki í þeim geirum sem betur standa virðast mörg hver munu fara fetið í fjárfestingum og auknum umsvifum þar til línur skýrast í efnahagsmálum. Til að mynda benda niðurstöður úr könnun SA meðal stærstu fyrirtækja landsins til þess að fjárfesting atvinnuveganna kunni að dragast saman í ár eftir allharðan samdrátt í fyrra.