Ég sá malt og appelsín dós í sjálfsala í gær. Fyrr en varði var ég farinn að velta fyrir mér ásættanlegum tíma til að kveikja jólaljósin og fara að huga að jólagjöfunum. Ef til vill hefðu þessar hugleiðingar mínar mátt bíða í tvær, þrjár vikur en hvernig svo sem við lítum á það styttist í jólin með hverjum deginum sem líður og jólunum fylgja að sjálfsögðu jólagjafir.
Stór hluti jólaverslunar fer nú fram á vefnum og eykst hlutdeild netverslunar í jólagjafainnkaupum Íslendinga hratt. Af innlendri verslun hefur hlutfall netverslunar vaxið úr 2-4% árið 2019 í 5-7% nú árið 2021 og hefur slíkum póstsendingum að utan auk þess fjölgað til muna. Því má búast við því að fjölmörg okkar komi til með að versla jólagjafirnar á vefnum og þá borgar sig að setja öryggið á oddinn.