Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Er krónan í jafnvægi?

Jafnvægi hefur ríkt á gjaldeyrismarkaði undanfarinn mánuð, gengi krónu verið stöðugt gagnvart evru og velta á millibankamarkaði verið með allra minnsta móti. Þótt ekki sé á vísan að róa um hve lengi slíkt jafnvægi endist til skemmri tíma má færa allsterk rök fyrir því að gengi krónu sé um þessar mundir á slóðum sem ættu að stuðla að jafnvægi í gjaldeyrisflæði á komandi fjórðungum.


Gengi krónu gagnvart evru hefur verið nánast óbreytt í tæpan mánuð. Evran kostaði 141,5 kr. í lok dags þann 12. júní síðastliðinn miðað við miðgengi á millibankamarkaði en þegar þetta er ritað (kl.11 þann 11. júlí) kostar evran 141,8 kr. Nær engar gengissveiflur hafa orðið milli daga á þessu tímabili. Á sama tíma hefur velta á millibankamarkaði verið nær engin. Svo virðist því sem gjaldeyrisflæði hjá hverjum þátttakanda fyrir sig á millibankamarkaði sé í býsna góðu jafnvægi þessa dagana, þar sem millibankamarkaður þjónar því hlutverki að jafna muninn á framboði og eftirspurn eftir gjaldeyri á markaði innan hvers dags.

Á millibankamarkaði með gjaldeyri eiga markaðsaðilar viðskipti með evrur og krónur, og ræðst gengi krónu gagnvart evru hvern dag á þeim markaði. Gengi annarra gjaldmiðla gagnvart krónu ákvarðast svo af framangreindum breytingum krónu gagnvart evru og sveiflum í viðkomandi gjaldmiðli gagnvart evrunni.

Sem fyrr segir hafa viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri verið afar lítil frá 12. júní síðastliðnum. Eru það alls 20 viðskiptadagar án teljandi breytinga á gengi krónu gagnvart evru. Samkvæmt tölum Seðlabankans urðu tvenn viðskipti að fjárhæð 4 m.EUR þann 13. Júní, ein viðskipti að fjárhæð 2 m.EUR þann 26. júní sl. og ein viðskipti að sömu fjárhæð þann 8. júlí sl. Heildarviðskipti á millibankamarkaði á þessu tímabili námu því einungis 8 m. EUR.

Þótt fyrsti þriðjungur júnímánaðar hafi verið öllu líflegri á gjaldeyrismarkaði en undanfarnar vikur var velta í mánuðinum í heild með minnsta móti. Alls nam veltan 70 m.EUR (jafnvirði 9,8 ma.kr.) í júní og hefur mánaðarvelta ekki verið minni í EUR talið frá maímánuði á síðasta ári. Nærtækt er að túlka þessar tölur þannig að jafnvægi ríki milli innflæðis og útflæðis gjaldeyris á markaði þessar vikurnar.

Hversu sterk er krónan í raun?

Frá áramótum hefur gengi krónu lækkað um 3% gagnvart körfu helstu viðskiptamynta og sé litið til undanfarinna 12 mánaða nemur gengislækkun krónu ríflega 12%. Þessi gengislækkun hefur verið útflutningsgreinunum kærkomin, enda gerir hún framleiðslugreinar samkeppnishæfari og verðlag á Íslandi bærilegra fyrir erlenda ferðamenn. Gengi krónu er nú á svipuðum slóðum og það var að jafnaði árið 2016.

Samkvæmt nýlega birtum gögnum Seðlabankans var raungengi krónu að jafnaði 91 stig á 2. ársfjórðungi ef miðað er við hlutfallslegt verðlag hér og erlendis. Raungengi er mælikvarði á hversu dýrt eða samkeppnishæft viðkomandi land eða myntsvæði er í samanburði við önnur svæði og fæst með því að umreikna nafngengi með hlutfallslegri þróun launakostnaðar eða verðlags milli landa. Raungengi er reiknað sem einingalaus vísitala og tölugildið sem slíkt segir fátt nema það sé sett í sögulegt eða alþjóðlegt samhengi.

Líkt og nafngengið hefur raungengi krónu lækkað talsvert síðustu misserin enda hefur verðlagsþróun hér á landi ekki verið umtalsvert önnur en gengur og gerist í viðskiptalöndunum þótt verðbólga hafi vissulega að jafnaði verið öllu meiri. Undanfarin 2 ár hefur raungengið lækkað um tæp 12% og má segja að Ísland sé sem því nemur ódýrari áfangastaður hvað almennt verðlag varðar.

En er raungengið orðið „nógu lágt“ til að styðja við útflutningsgreinar og vega að gagni á móti þeim framboðsskelli sem gjaldþrot WOW-Air og ógöngur Icelandair vegna MAX-véla sinna hefur kallað fram í íslensku hagkerfi?

Eins og sjá má af myndinni er raungengi krónu nokkuð yfir langtímameðaltali sínu. Í ljósi þess hversu umfangsmiklum breytingum íslenskt hagkerfi hefur tekið á undanförnum áratug er slíkur sögulegur mælikvarði hins vegar villandi að okkar mati. Má þar til að mynda nefna að erlend staða þjóðarbúsins er orðin allt önnur og betri en hún hefur verið í sögu lýðveldisins. Nema erlendar eignir umfram skuldir um það bil fimmtungi af VLF. Þessi staða leiðir að öðru jöfnu til hærra jafnvægisgengis enda ættu hreinar fjármagnstekjur erlendis frá í fyllingu tímans að reynast umtalsverð búbót ef staðan helst á svipuðum nótum eða batnar enn frekar.

Lauslegt tölfræðimat okkar bendir til þess að 10 prósentustiga bati á hreinni erlendri stöðu í hlutfalli við VLF geti farið saman við u.þ.b. 0,5 prósentu hagfelldari viðskiptajöfnuð í hlutfalli við VLF ár hvert að öðru jöfnu. Svo vill til að það samband rímar ágætlega við þá einfölduðu langtímaforsendu að arðsemi hreinnar erlendrar eignar ætti að vera í kring um 5%. Hér er vitaskuld um mikla einföldun að ræða og fjölmargir aðrir þættir hafa áhrif á jafnvægisraungengið. Ekki er þó fram hjá því að líta að breyting á hreinni erlendri stöðu þjóðarbúsins frá því að vera að jafnaði neikvæð um ríflega helming af VLF á árabilinu 1995-2005 (svo dæmi sé tekið af tímabilinu fyrir útrás bankanna) í að vera jákvæð um 20% af VLF um þessar mundir hefur umtalsverð áhrif á getu okkar til að viðhalda hærri lífskjörum hér á landi en ella væri.

Í sem stystu máli teljum við að núverandi gengi krónu endurspegli raungengi sem samræmist ágætlega jafnvægi í erlendum viðskiptum. Jafnvægisástand á gjaldeyrismarkaði ætti því ekki að koma á óvart um þessar mundir, þótt vissulega sé aldrei á vísan að róa hvenær meira fjör færist í leikinn og Fróðárfriður í gengi krónunnar tekur enda. Þar teljum við í stórum dráttum svipaðar líkur á því til hvorrar áttar sveiflan gæti orðið.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband