Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Er gjaldeyrissöfnun innlendra aðila að veikja krónuna?

​Gjaldeyrissöfnun innlendra aðila á bankareikninga virðist ekki hafa verið umtalsverður áhrifaþáttur í veiking krónu í septembermánuði.


Gjaldeyrissöfnun innlendra aðila á bankareikninga virðist ekki hafa verið umtalsverður áhrifaþáttur í veiking krónu í septembermánuði. Gjaldeyriseign heimila, fyrirtækja og annarra innlendra aðila í innlendum bönkum hefur þó aukist umtalsvert á árinu og lætur nærri að sú aukning sé álíka mikil og áætlaður viðskiptaafgangur ársins.

Hóflegur vöxtur gjaldeyrisinnstæðna í september

Samkvæmt nýlegum tölum Seðlabankans námu innstæður á gjaldeyrisreikningum innlendra aðila jafnvirði ríflega 234 ma.kr. í lok septembermánaðar síðastliðins. Höfðu slíkar innstæður vaxið um ríflega 9 ma.kr. frá mánuðinum á undan. Gengi helstu erlendra gjaldmiðla hækkaði raunar talsvert gagnvart krónu í septembermánuði og sé leiðrétt fyrir þeim gengisbreytingum má áætla að innstæðurnar hafi aukist um sem nemur tæpum 2 mö.kr., reiknað á gengi septemberloka. Það er mun minni aukning en var í ágústmánuði, þegar slíkar innstæður jukust um tæplega 17 ma.kr. á sama mælikvarða.

Margir að safna í gjaldeyrissarpinn

Frá áramótum hafa innstæður á gjaldeyrisreikningum Íslendinga aukist um sem nemur 63 mö.kr., reiknað á gengi septemberloka. Langstærstur hluti slíkra innstæðna er í Bandaríkjadollurum (103 ma.kr.) og evrum (97 ma.kr.). Af heildarfjárhæðinni áttu heimili sem nemur 38 mö.kr. og atvinnufyrirtæki jafnvirði 96 ma.kr. á slíkum reikningum.Heimilin höfðu aukið við gjaldeyrisinnstæður sínar sem nam tæpum 2 mö.kr. í septembermánuði, reiknað á föstu gengi, og á sama kvarða nam aukning gjaldeyrisinnstæðna atvinnufyrirtækja u.þ.b. 6 mö.kr. Þessir aðilar virðast því hafa aukið nokkuð við gjaldeyriseign sína í síðasta mánuði, en aðrir innlendir aðilar (svo sem stofnanir, lífeyrissjóðir...) hafa þá væntanlega dregið úr innstæðum sínum á móti.

Frá áramótum hafa innstæður heimila á gjaldeyrisreikningum vaxið sem nemur 8,1 ma.kr. og innstæður fyrirtækja hafa aukist um 17,6 ma.kr. m.v. gengi gjaldmiðla í septemberlok. Töluverðar sveiflur eru raunar milli einstakra mánaða í gjaldeyriseign fyrirtækja eins og eðlilegt má teljast, þar sem greiðsluflæði þeirra sem hafa tekjur og gjöld í fleiri myntum en íslenskri krónu kann að vera með ýmsu móti. Breytingin í nýlegri þróun gjaldeyriseigna heimila er eindregnari, því langstærsti hluti aukinnar eignar þeirra kom til á 3. fjórðungi ársins.

Í nýlegri þjóðhagsspá okkar áætlum við að viðskiptaafgangur muni nema 2,3% af VLF á yfirstandandi ári, eða sem nemur u.þ.b. 63 mö.kr. Svo vill til að hér er um nánast sömu fjárhæð að ræða og aukning gjaldeyrisinnstæðna sem nefnd er hér að ofan nemur. Vissulega eru fjölmargir aðrir áhrifaþættir að verki á gjaldeyrismarkaði og óvarlegt er að lesa of sterkt í samhengi framangreindra stærða. Það virðist þó líklegt að innlendir aðilar vilji í auknum mæli hafa vaðið fyrir neðan sig hvað gjaldeyriseignir varðar og eiga lausafé í gjaldeyri.

Vert er að hafa í huga að ef slík gjaldeyrissöfnun á þátt í veikingu krónu undanfarnar vikur mun slík söfnun gjaldeyriseigna á einhverjum tímapunkti hjaðna og á endanum koma fjáreignir innlendra aðila væntanlega að stærstum hluta til ráðstöfunar innanlands þótt síðar verði. Þá eykur gengislækkun krónu líkur á því að afgangur verði áfram af utanríkisviðskiptum og ætti því þegar frá líður að draga úr áhuganum á forðasöfnun vegna áhyggja af greiðslujöfnuði landsins á komandi árum.