Undanfarið eitt og hálft ár hafa grunnvextir á Íslandi lækkað verulega og gildir það jafnt um skammtímavexti sem langtíma ávöxtunarkröfu. Til að mynda hafa meginvextir Seðlabankans lækkað úr 4,5% á vordögum í fyrra niður í 1,0% frá og með miðjum maí síðastliðnum. Frá ársbyrjun 2019 fram til loka síðustu viku hefur krafa á lengsta flokki óverðtryggðra ríkisbréfa, RIKB31, farið úr 5,5% niður í 2,5%. Sömu sögu má segja af raunvöxtum þó í minna mæli sé. Krafa lengsta verðtryggða markflokks ríkisbréfa, RIKS30, var til að mynda ríflega 1,4% í ársbyrjun 2019 en aðeins lítillega yfir 0% í lok síðustu viku. Vaxtalækkun Seðlabankans hefur því skilað sér býsna vel yfir í bæði verðtryggða og óverðtryggða langtímavexti á þennan kvarða.
Enn vaxtamunur þrátt fyrir mikla vaxtalækkun
Þrátt fyrir umtalsverða lækkun vaxta á Íslandi er vaxtamunur við útlönd enn allnokkur, sér í lagi munur á langtímavöxtum. Tiltölulega traust staða hins opinbera við upphaf COVID ásamt sögulega lágum grunnvöxtum mun hins vegar gera tímabundna aukningu opinberra skulda vegna mótvægisaðgerða hins opinbera léttbærari en ella.
En þótt vaxtastig hér á landi sé í sögulegu lágmarki er vaxtamunur við útlönd enn allnokkur. Munurinn hefur vissulega minnkað við hina miklu lækkun vaxtastigs sem orðin er undanfarið eitt og hálft ár hérlendis en á móti hafa vextir flestra grannmynta einnig lækkað umtalsvert, jafnvel þótt þeir væru í sumum tilfellum býsna lágir í upphafi þessa tímabils.
Sem dæmi má taka ávöxtunarkröfu 10 ára ríkisbréfa, sem er algengur metill fyrir langtíma grunnvexti í hverri mynt. Á þann kvarða var langtíma vaxtamunur í ársbyrjun 2019 2,8% gagnvart Bandaríkjadollar, 4,2% gagnvart bresku pundi og 5,2% gagnvart evru. Í lok síðustu viku var þessi munur hins vegar 1,9% gagnvart dollar, 2,4% gagnvart pundi og 3,0% gagnvart evru.
Langtíma vaxtamunur svipaður og fyrir tæpum áratug
Það kemur kannski einhverjum á óvart en vaxtamunur við þessar meginmyntir hefur áður verið á svipuðum slóðum, og það ekki fyrir svo ýkja löngu síðan. Eins og sjá má af myndinni sáust áþekk gildi veturinn 2010-2011, en þá var munurinn á 10 ára grunnvöxtunum 2,5% gagnvart dollaranum, 2,2% gagnvart pundinu og 2,7% gagnvart evrunni. Vissulega voru langtímavextir í öllum löndunum fjórum þá talsvert hærri en undanfarið hefur verið, en staðreyndin er þrátt fyrir það sú að þótt hérlendir vextir séu í sögulegu lágmarki er ekki alfarið sömu sögu að segja af vaxtamuninum.
Krónuprentvélarnar enn ekki komnar á fullt
Fróðlegt er einnig að glugga í vaxtamuninn eftir mismunandi tímalengdum grunnvaxta. Á sama tíma og munur stýrivaxta hefur farið úr rúmum 4% niður í 1% gagnvart evru og úr 3,8% niður í 0,9% gagnvart Bandaríkjadollar frá ársbyrjun 2019 hefur munurinn hvað 10 ára grunnvexti varðar farið úr 4,5% niður í 3,0% gagnvart evru og úr 2,5% í 1,9% gagnvart dollara.
Líkleg helsta skýring þessa er að ólíkt Íslandi hafa peningaprentvélarnar verið settar á fullt í þessum meginmyntum, ef svo má að orði komast. Seðlabankar Bandaríkjanna og evrusvæðis hafa þannig aukið við og útvíkkað kaup sín á markaðsskuldabréfum umtalsvert. Til að mynda hefur efnahagsreikningur seðlabanka Bandaríkjanna stækkað úr 3,8 billjónum USD fyrir ári síðan í tæpar 7 billjónir um þessar mundir og kaupir bankinn þessa dagana m.a. skuldabréf fyrirtækja og eignavarin bréf með veð í námslánum og kreditkortaskuldum auk langtíma ríkisbréfa.
Slík umfangsmikil skuldabréfakaup hafa valdið mikilli lækkun á langtímavöxtum erlendis þrátt fyrir aukna fjármögnunarþörf opinberra aðila vegna COVID. Þótt Seðlabanki Íslands hafi fyrr á árinu skuldbundið sig til þess að kaupa ríkisskuldabréf fyrir allt að 150 ma.kr. í því skyni að ýta niður langtíma grunnvöxtum hefur bankinn enn aðeins keypt lítið brot af þeirri fjárhæð. Námu kaup hans til að mynda innan við 1 ma.kr. á 2. ársfjórðungi.
Allt er best í hófi...líka lágir vextir
Það er svo rétt að halda því til haga að allt er best í hófi og ekki er endilega besta staðan fyrir heildarhagsmuni hagkerfisins alls að vaxtastigið sé sem allra lægst. OECD benti til að mynda á það nýverið að skuldsetning fyrirtækja í ýmsum þróuðum ríkjum væri í sögulegu hámarki sem hlutfall af landsframleiðslu og skuldir heimila hefðu einnig aukist undanfarin ár. Þar hefur greiður aðgangur að ódýru fjármagni átt stóran þátt.
Þá var einnig á það bent að opinberar skuldir ýmissa þróaðra hagkerfa hefðu hefðu verið miklar fyrir COVID og að hagstjórnarviðbrögð við faraldrinum ásamt efnahagssamdrætti myndu líklega að jafnaði hækka hlutfall opinberra skulda af VLF um allt að 15% í OECD-ríkjunum á þessu ári. Myndi sú þróun auka enn á þá áskorun sem miklar opinberar skuldir eru í framangreindum ríkjum. Spáir stofnunin því að opinberar skuldir verði að jafnaði allt að 129% af VLF í árslok 2021 á svæðinu í heild. Þar stendur opinberi geirinn á Íslandi hins vegar nokkuð vel að mati OECD og áætlar stofnunin að opinberar skuldir hér á landi muni alls nema u.þ.b. 77% af VLF í lok næsta árs samanborið við t.d. 133% af VLF í Bandaríkjunum og 120% af VLF á evrusvæðinu. Hér á landi er því svigrúm til að ráðast í býsna myndarlegar mótvægisaðgerðir að hálfu hins opinbera án þess að steypa landinu í ósjálfbærar opinberar skuldir.
Það eru því að okkar mati ágætar líkur á því að vaxtastig hér á landi verði hæfilega lágt næstu misserin til þess að gera opinberum aðilum ódýrara en jafnan áður að fjármagna tímabundið sveiflujafnandi hallarekstur hins opinbera ásamt því að ýta undir fjárfestingu einkageirans og létta greiðslubyrði heimila jafnt sem fyrirtækja, án þess þó að hvetja til óhóflegrar og ósjálfbærrar skuldsetningar jafnt opinberra aðila sem einkaaðila. Vaxtamunur við útlönd verður því væntanlega áfram til staðar en þrátt fyrir það eru horfur á því að vaxtastig hér á landi sé líkast til varanlegra komið á aðrar og lægri slóðir en verið hefur síðustu áratugi.