Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Enn mælist viðskiptaafgangur... þrátt fyrir allt

Myndarlegur afgangur af fjármagnstekjum vó þyngra en halli á vöru- og þjónustuviðskiptum í viðskiptajöfnuði á fyrri helmingi ársins. Horfur eru á lakari viðskiptajöfnuði á seinni árshelmingi en þegar fram í sækir eru horfurnar góðar. Erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið sterkari og mun hún áfram reynast hagkerfinu mikill styrkur líkt og verið hefur síðustu fjórðunga.


Viðskiptaafgangur á 2. fjórðungi ársins reyndist 7 ma.kr. samkvæmt nýlegum tölum frá Seðlabankanum. Er það innan við helmingur af afgangi sama ársfjórðungs á síðasta ári og minnsti afgangur frá lokafjórðungi ársins 2018. Þegar lá fyrir að vöruskiptahalli á tímabilinu var 9,2 ma.kr. en afgangur af þjónustujöfnuði nam 3,7 mö.kr. Halli af vöru- og þjónustuviðskiptum reyndist því 5,5 ma.kr. og hafa slík viðskipti ekki verið jafn óhagstæð á einum fjórðungi frá árslokum 2008. Í tölum Seðlabankans kom til viðbótar fram að halli á rekstrarframlögum nam 6,8 mö.kr. á tímabilinu. Þyngra vó hins vegar að frumþáttatekjur skiluðu 19,2 ma.kr. afgangi.

Fjármagnið dregur drjúgt í bú

Frumþáttatekjur eiga alfarið heiðurinn af því að 24 ma.kr. viðskiptaafgangur mælist á fyrri helmingi þessa árs. Á fyrsta fjórðungi ársins var þannig 3 ma.kr. viðskiptahalli ef sá hluti jafnaðarins er undanskilinn. Frumþáttatekjurnar hafa skilað talsverðum afgangi frá miðjum síðasta áratug. Nafnið hljómar e.t.v. ekki mjög lýsandi en í sem stystu máli er hér um að ræða endurgjald fyrir notkun framleiðsluþátta, þ.e. vinnulaun og fjármagnstekjur á milli landa. Eins og sjá má af myndinni hefur fyrrnefndi þátturinn færst nær jafnvægi undanfarin ár eftir að hafa skilað töluverðu innflæði á árunum 2010-2015. Hitt vegur þó mun þyngra að fjármagnstekjur hafa í vaxandi mæli verið langt umfram fjármagnsgjöld eftir því sem nær dró áratugamótum.

Myndarlegur afgangur af þáttatekjum upp á síðkastið skýrist af þremur þáttum:

  • Í fyrsta lagi ört batnandi erlendri stöðu þjóðarbúsins, sem fjallað er um hér að neðan. Erlendar eignir eru orðnar umtalsvert meiri en skuldir.
  • Í öðru lagi er ávöxtun hlutafjár, sem er talsvert stærri hluti erlendra eigna en skulda, alla jafna meiri en vaxtabyrði af lánum og skuldaskjölum.
  • Í þriðja lagi hafa ýmsar beinar erlendar fjárfestingar erlendra aðila hér á landi, t.d. álver, verið óarðbærar og tap vegna þeirra kemur til frádráttar á gjaldahlið þáttatekjujafnaðarins í bókhaldi Seðlabankans.

Varnarspil í seinni hálfleik?

Við teljum líkur á að seinni helmingur ársins verði óhagstæðari hvað viðskiptajöfnuð varðar en sá fyrri. Háannatími ferðaþjónustu varð snubbóttari en útlit var fyrir eftir hertar sóttvarnir á landamærunum um miðjan síðasta mánuð og vandséð er að erlendir ferðamenn skili gjaldeyristekjum sem eitthvað munar um það sem eftir er árs. Þá eru vísbendingar um að samdráttur í innflutningi verði ekki jafn skarpur á seinni helmingi ársins og hann reyndist á fyrri árshelmingi. Hins vegar eru ágætar líkur á að frumþáttatekjurnar muni áfram skila talsverðum afgangi á komandi fjórðungum.

Við spáðum því í júní sl. að viðskiptahalli myndi reynast í grennd við 60 ma.kr. Miðað við fram komnar tölur var sú spá trúlega of svartsýn þótt enn sé óvíst að mati okkar hvort jafnvægi verði á utanríkisviðskiptum á árinu í heild. Á komandi árum eru svo góðar líkur á að aftur verði talsverður viðskiptaafgangur ríkjandi, svo fremi raungengið hækki ekki þeim mun meira þegar betur fer að ára í helstu greinum vöru- og þjónustuútflutnings.

Hreinar erlendar eignir landsmanna aldrei meiri

Ekkert lát er á hröðum bata erlendrar stöðu þjóðarbúsins miðað við tölur Seðlabankans. Eftir margra áratuga neikvæða stöðu er nú svo komið að erlendar eignir landsmanna umfram erlendar skuldir nema 838 mö.kr. eða sem samsvarar ríflega 28% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) ársins. Staðan batnaði um nærri 5% af VLF á öðrum ársfjórðungi og skýrist drýgsti hluti þess bata af myndarlegum hækkunum á hlutabréfaverði á alþjóðlegum mörkuðum.

Við höfum áður bent á hversu mikilvæg þessi bætta erlenda staða er okkur nú um stundir þegar hressilega gefur á þjóðarskútuna vegna hins alþjóðlega COVID-19 faraldurs. Hinn myndarlegi þáttatekjuafgangur skilar reyndar litlu gjaldeyrisinnflæði þessa dagana, m.a. þar sem stærstu innlendir eigendur erlendra verðbréfa, lífeyrissjóðirnir, endurfjárfesta beint eða óbeint erlendum fjármagnstekjum en vaxtagreiðslur af erlendum lánum þarf hins vegar að inna af hendi að mestu leyti.

Þessi sterka staða er hins vegar lykilatriði í því að veita hinum örsmáa gjaldmiðli okkar trúverðugleika, ekki síst þar sem talsverður hluti hreinu eignarinnar er varðveittur í gjaldeyrisforða Seðlabankans. Þessi trúverðugleiki á svo stóran þátt í að koma í veg fyrir að tímabundin gjaldeyrisþurrð myndist líkt og var fyrir áratug síðan með tilheyrandi gríðarmiklu gengisfalli og verðbólguskoti.

Svo fremi jafnvægi eða afgangur verði ríkjandi á utanríkisviðskiptum Íslands á komandi árum eru góðar líkur á að erlenda staðan muni batna enn frekar með tíð og tíma. Mun það áfram reynast mikil búbót fyrir landsmenn og auðvelda hagstjórn líkt og raunin hefur verið undanfarna fjórðunga.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband