Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar lækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,74% í janúar. Verðbólga mælist nú 1,7% en var 2,0% í desember. Verðbólga hefur ekki mælst minni síðan í september árið 2017. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 1,6% undanfarna 12 mánuði.
Mæling janúarmánaðar er undir birtum spám. Við spáðum 0,5% lækkun VNV milli mánaða. Það sem helst kemur okkur á óvart er að húsnæðisliðurinn í heild lækkar talsvert á milli mánaða, útsölur í sumum tegundum sérverslana voru heldur dýpri en við væntum og kostnaður við heilsutengda vöru og þjónustu lækkaði nokkuð.