Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Minnsta verðbólga frá haustdögum 2017

Verðbólga í janúar er sú minnsta frá haustdögum 2017. Verðbólgan mælist nú 1,7% og horfur eru á að hún verði undir markmiði Seðlabankans út þetta ár.


Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar lækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,74% í janúar. Verðbólga mælist nú 1,7% en var 2,0% í desember. Verðbólga hefur ekki mælst minni síðan í september árið 2017. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 1,6% undanfarna 12 mánuði.

Mæling janúarmánaðar er undir birtum spám. Við spáðum 0,5% lækkun VNV milli mánaða. Það sem helst kemur okkur á óvart er að húsnæðisliðurinn í heild lækkar talsvert á milli mánaða, útsölur í sumum tegundum sérverslana voru heldur dýpri en við væntum og kostnaður við heilsutengda vöru og þjónustu lækkaði nokkuð.

Óvænt lækkun húsnæðisliðar

Húsnæðisliður VNV lækkaði um 0,1% í janúar (-0,03% áhrif í VNV). Að vanda hækkaði veitukostnaður nokkuð um áramótin (0,07% í VNV) en þyngra vó þó 0,6% lækkun á reiknaðri húsaleigu (0,10% í VNV) og 1,0% lækkun greiddrar húsaleigu (-0,05% í VNV) samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Rétt er að halda því til haga að hækkun veitukostnaðarins var einnig með hóflegra móti enda virðist meginlínan hafa verið sú hjá veitufyrirtækjum að hækka í samræmi við verðbólgu eða verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Ýmislegt lagðist á eitt um lækkun reiknuðu húsaleigunnar í janúarmánuði. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis lækkaði um 0,3% á milli mánaða og er þetta annar mánuðurinn í röð sem markaðsverðið lækkar. Því til viðbótar hefur lækkandi vaxtastig verðtryggðra íbúðalána áhrif auk þess sem lóðaleiga sveitarfélaga lækkaði lítið eitt samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu ólíkt því sem oftast gerist um áramót.

12 mánaða taktur íbúðaverðs í mælingum Hagstofu mælist nú 4,0% á landinu í heild og þar með áfram á svipuðu róli og hann hefur verið frá miðju síðasta ári. Á höfuðborgarsvæðinu hefur íbúðaverð hækkað um 3,0% undanfarið ár en á landsbyggðinni mælist hækkunin 7,9% á sama tíma. Áfram virðist því vera þokkalegasta jafnvægi á íbúðamarkaði þrátt fyrir lækkun í síðustu tölum, enda mælist raunhækkun íbúðaverðs á landinu öllu 2,3% undanfarið ár miðað við þessar sömu tölur.

Útsölur djúpar og verðlækkun allvíða

Útsölur settu að vanda svip sinn á janúarmælingu VNV. Föt og skór lækkuðu í verði um 10,9% (-0,48% í VNV), húsgögn og heimilisbúnaður um 6,7% (-0,13% í VNV) og sjónvörp, tölvur og álíka búnaður um 4,7% (-0,07% í VNV). Á heildina litið virðast útsölur hafa verið í rausnarlegri kantinum í ár miðað við síðustu ár og verður fróðlegt að sjá hvort útsölulokin skila framantöldum vöruflokkum á svipaðar slóðir í verði eða hvort einhver hluti þessarar janúarlækkunar reynist varanlegri.

Ýmsir aðrir liðir lögðu lóð á vogaskálar lækkunar VNV í mánuðinum. Má þar nefna heilsulið vísitölunnar sem samanstendur af heilbrigðisþjónustu, lyfjum og lækningatækjum. Liðurinn lækkaði um 0,5% (-0,02% í VNV) en oftast hefur hann hækkað allnokkuð um áramót. Þá má nefna að flugfargjöld lækkuðu um 5,4% (-0,09% í VNV), bifreiðaverð lækkaði lítillega (-0,01% í VNV) og verð á síma- og netþjónustu lækkaði um 1,1% (-0,01% í VNV).

Horfur á lítilli verðbólgu næsta kastið

Horfur eru á að verðbólga verði áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans næsta kastið. Við spáum 0,5% hækkun VNV í febrúar, 0,5% hækkun í mars og 0,2% hækkun í apríl.  Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,8% í aprílmánuði. Í kjölfarið teljum við að verðbólga verði að jafnaði 2,2% árið 2020 og 2,6% árið 2021. Stærstu óvissuþættir í spá okkar er hugsanleg veiking krónu og launakröfur í kjarasamningum sem enn á eftir að ljúka. Er þar nokkurt áhyggjuefni ef ekki verður tekið í ríkari mæli mið af þeim kjarasamningum sem landað var á vordögum í fyrra. Á móti gæti þróun íbúðaverðs leitt til minni verðbólgu en hér er spáð.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband