Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Enn eykst kaupmáttur launa í kreppunni

Kórónukreppan er fyrsta samdráttarskeið í nútíma hagsögu Íslands þar sem kaupmáttur launa gefur ekki eftir samfara auknu atvinnuleysi í niðursveiflu í hagkerfinu. Vissulega kemur það þeim vel sem halda vinnu en atvinnuleysi gæti reynst langvinnara fyrir vikið. Afmarkaður hluti vinnumarkaðarins ber því þungann af niðursveiflunni.


Hagstofan birti í gærmorgun vísitölur launa og kaupmáttar launa fyrir maímánuð. Launavísitalan hækkaði um 0,4% á milli mánaða og mælist árshækkun hennar nú 7,5%. Hægst hefur á hækkunartakti launavísitölunnar en hann var hvað hraðastur í febrúar og mars síðastliðnum þegar hann mældist 10,6%. Ástæða þess að hægst hefur á hækkunartaktinum er að launahækkanir sem áttu sér stað í apríl í fyrra mælast ekki lengur í árshækkuninni.

Þessi hækkun launavísitölunnar á milli mánaða er að mestu til komin vegna styttingar vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki á opinberum vinnumarkaði sem tók gildi nú í maímánuði. Vinnustytting hefur áhrif á launavísitöluna þar sem verð hverrar vinnustundar hækkar þegar færri vinnustundir standa að baki föstum mánaðarlaunum.

Kaupmáttur launa stóð í stað í maí á milli mánaða. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmátturinn aukist um 2,9% og hefur hægst nokkuð á kaupmáttarvextinum undanfarið af sömu ástæðu og nefnd er hér að ofan varðandi launavísitöluna, en einnig vegna þess að verðbólga hefur verið með mesta móti undanfarna mánuði og náði toppi í apríl síðastliðnum í 4,6%.

Þó hægst hafi á vexti kaupmáttar launa undanfarna tvo mánuði hefur vöxturinn reynst hraður að undanförnu og mældist mestur í febrúar síðastliðnum í 6,2%. Svo hraður hefur kaupmáttarvöxturinn ekki verið frá ársbyrjun 2017. Ástæða þessa kaupmáttarvaxtar er að stærstum hluta vegna Lífskjarasamninganna sem hafa, ásamt öðrum samningum sem fylgdu í kjölfarið, skilað stórum hluta vinnumarkaðar talsverðri hækkun launa frá vordögum 2019. Einnig hefur stytting vinnuvikunnar áhrif á mælinguna.

Raunlaun hækka þrátt fyrir niðursveiflu

Allsterk fylgni er á milli þróunar einkaneyslu og kaupmáttar launa til lengri tíma litið. Þó hefur sambandið þarna á milli stundum slitnað, til að mynda þegar hinn hraði einkaneysluvöxtur á góðærisárunum 2004-2007 átti sér stað. Hann var að stórum hluta fjármagnaður með aukinni skuldsetningu heimilanna frekar en vexti kaupmáttar. Að sama skapi skrapp einkaneysla mun meira saman en kaupmáttur launa eftir efnahagshrunið árið 2008 þegar mörg heimili voru að jafna sig á þeim harða skelli sem hrunið hafði í för með sér. Skuldsett einkaneysla líkt og við sáum hér fyrir efnahagshrunið hefur ekki verið vandamál hingað til heldur er þvert á móti eignastaða flestra heimila nokkuð traust. Það gæti reynst einhverjum heimilum sem orðið hafa fyrir atvinnumissi í Kórónukreppunni eða orðið fyrir tekjutapi í rekstri drjúgur styrkur um þessar mundir.

Frá því að COVID skall á hefur samband á milli þessara tveggja stærða einnig rofnað. Kaupmáttur launa hefur haldið áfram að aukast á sama tíma og einkaneysla hefur skroppið saman. Þrátt fyrir að einkaneysla hafi haldið velli í flestum geirum hér innanlands skrapp hún saman um 3,3% í fyrra sem var að mestu vegna mikils samdráttar í neyslu erlendis sem og í þeim geirum sem sóttvarnaraðgerðir höfðu mest áhrif á.

Kaupmáttur launa hefur því staðið af sér COVID-skellinn en það hefur ekki þekkst áður að þrátt fyrir hátt atvinnuleysi og niðursveiflu í hagkerfinu  vaxi kaupmáttur launa svo mikið. Í þjóðhagsspá okkar í maí gerum við ráð fyrir 4% kaupmáttarvexti á yfirstandandi ári, tæplega 2% á næsta ári og 1,5% árið 2023. Líkt og undanfarið skýrist kaupmáttarvöxtur helst af samningsbundnum launhækkunum.

Kreppa hinna fáu?

Það er afar óvenjulegt hér á landi að laun hækki umfram verðlag samfara auknu atvinnuleysi og samdrætti í hagkerfinu. Atvinnuleysi var í hæstu hæðum á fyrsta fjórðungi þessa árs þegar það mældist 11,3% sem er töluvert hærra en í hruninu. Nú hefur atvinnuleysi tekið að hjaðna og samkvæmt Vinnumálastofnun var það 9,1% í maí. Í mánuðinum fækkaði atvinnulausum í öllum atvinnugreinum á milli mánaða en mest í ferðatengdri starfsemi.

Við teljum að atvinnuleysi taki að hjaðna nokkuð hratt á næstu mánuðum þegar ferðaþjónustan fer að taka við sér að nýju. Aftur á móti teljum við að atvinnuleysi muni þó enn mælast nokkuð hátt á næstu misserum. Er það annars vegar vegna þess að það mun taka tíma fyrir ferðaþjónustuna sem og aðrar greinar að jafna sig að fullu á COVID-skellinum en hins vegar vegna ört vaxandi launakostnaðar. Við teljum að hár launakostnaður muni líklega verða til þess að ýta jafnvægisatvinnuleysi eitthvað hærra en verið hefur sögulega hér á landi.

Vissulega er aukinn kaupmáttur gleðiefni fyrir þá sem njóta hans fyrir það fólk sem ekki hefur misst vinnu eða tekjur í rekstri. Afmarkaður hluti vinnumarkaðarins ber þó þungann af niðursveiflunni og verðugt verkefni verður að greiða leið þeirra á vinnumarkaðinn að nýju.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband