Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Enn er seigt í einkaneyslu innan landsteinanna

Neysluútgjöld landsmanna skruppu saman í ársbyrjun en samdrátturinn var nær alfarið í neyslu utan landsteinanna. Innlend verslun nýtur góðs af mikilli fækkun ferðalaga landans en þjónusta á erfiðara uppdráttar. Einkaneysla er orðin sveiflujafnandi í íslensku hagkerfi í stað þess að ýkja hagsveifluna eins og oft áður.


Seigt er í neyslu íslenskra heimila innanlands í byrjun nýs árs, en heildarneyslan er þó talsvert minni en í fyrra ef marka má nýlegar kortaveltutölur Seðlabankans og Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV). Kortavelta innlendra greiðslukorta nam alls tæpum 73 mö.kr. í janúarmánuði sem samsvarar ríflega 4 ma.kr. aukningu í krónum talið milli ára. Leiðrétt fyrir þróun gengis og verðlags dróst kortaveltan hins vegar saman um nærri 7% frá sama mánuði í fyrra.

Eins og fyrri daginn var mikill munur á þróuninni innanlands og utan. Samdrátturinn milli ára skýrist þannig alfarið af ríflega 47% minni veltu utan landsteinanna. Velta í innlendum verslunum og þjónustufyrirtækjum jókst hins vegar um ríflega 3% að raunvirði á þennan mælikvarða. Á vef RSV kemur fram að veruleg aukning hafi orðið í kortaveltu í verslun hérlendis á milli ára. Nam aukningin 29% í krónum talið og var bæði í hefðbundinni verslun (25% vöxtur) en sér í lagi í vefverslun (138% vöxtur). Hlutur vefverslunar af heildarverslun hér á landi hefur vaxið úr 3% í 7% á tímabilinu samkvæmt tölum RSV. Verr áraði í þjónustustarfsemi innanlands en þar skrapp velta innlendra korta saman um 16% á milli ára. Þar eiga væntanlega sóttvarnarráðstafanir stóran hlut að máli.

Kortaveltuþróunin hefur haldist talsvert í hendur við framgang faraldursins innanlands. Eins og sjá má af myndinni hefur samdráttur veltunnar verið mestur um það leyti sem nýgengi smita innanlands hefur verið mikið. Ekki er því óvarlegt að ætla að veltan innanlands taki við sér jafnt og þétt á komandi vikum og mánuðum ef fram heldur sem horfir um fátíð smit innanlands.

Þótt velta innlendra korta hafi haldið ágætlega sjó í innlendri verslun og þjónustu verður ekki það sama sagt um veltu erlendra korta. Eins og nærri má geta hefur slík velta skroppið gífurlega saman samfara því að ferðamennastraumur til landsins þurrkaðist upp að mestu á síðasta ári. Í janúar var velta erlendra korta hér á landi til að mynda aðeins rúmlega 1/10 af því sem hún var í sama mánuði í fyrra. Þótt mikið hafi dregið úr veltu landsmanna erlendis vegur fyrrnefndur samdráttur þó þyngra og var halli á kortaviðskiptum við útlönd 7,2 ma.kr. í janúarmánuði.

Einkaneysla mun sækja í sig veðrið á þessu ári

Kortavelta gefur allskýra vísbendingu um þróun einkaneyslu enda er kortanotkun almenn hér á landi og mikill meirihluti neysluútgjalda er greiddur fyrir tilstilli greiðslukorta. Eins og sjá má af myndinni hafa einkaneyslutölur Hagstofunnar undanfarna fjórðunga tekið áþekka dýfu og kortaveltan hefur gert að raungildi. Ekki liggja enn fyrir einkaneyslutölur fyrir lokafjórðung síðasta árs en sé miðað við kortaveltuna má áætla að einkaneysla landsmanna hafi skroppið saman um u.þ.b. 3,5% á síðasta ári.

Mismunandi straumar leika um einkaneysluhneigð landsmanna um þessar mundir. Atvinnuleysi hefur aukist mikið undanfarið ár og nemur nú 11,6% miðað við nýjustu tölur Vinnumálastofnunar. Þá tóku væntingar landsmanna dýfu á síðasta ári ef miðað er við Væntingavísitölu Gallup þótt þær hafi raunar rétt nokkuð úr kútnum á nýjan leik. Sögulega hefur fylgni milli væntinganna og einkaneyslu verið talsverð þótt ekki sé það óbrigðult samband.

Á hinn bóginn hafa þau heimili þar sem ekki hefur orðið atvinnumissir eða verulegt tekjutap af sjálfstæðum rekstri flest hver haldið ágætlega sjó hvað fjárhag varðar. Raunlaun hafa hækkað undanfarið ár, og raunar hraðar hjá þeim sem lægst höfðu launin í upphafi síðasta árs en hjá öðrum. Þannig hækkuðu taxtalaun á almenna vinnumarkaðinum almennt um 24 þús.kr. þann fyrsta apríl síðastliðinn og aftur um sömu fjárhæð um síðustu áramót. Almenn hækkun launa var hins vegar samtals tæplega 34 þús.kr. á sama tímabili. Þá hefur Kórónukreppan lítil áhrif haft á eignastöðu þorra heimila enda fasteignaverð haldið áfram sínu hækkunarstriki undanfarið ár og verðbréf almennt hækkað í verði fremur en hitt.

Neysluhegðun heimila er því sveiflujafnandi um þessar mundir. Er það nokkur nýlunda miðað við undanfarnar hagsveiflur þar sem einkaneysla hefur oft sveiflast talsvert meira en hagvöxtur. Samdrátturinn er hóflegur og fyrst og fremst í neyslu utan landsteina og kaupum á þjónustu á borð við sviðslistir og skemmtanir sem orðið hefur fyrir barðinu á samkomutakmörkunum. Horfur eru á að einkaneyslan taki jafnt og þétt við sér eftir því sem á árið líður, möguleikar á neyslu á borð við utanlandsferðir og skemmtanir innanlands aukast að nýju, atvinnuleysi hjaðnar og væntingar glæðast frekar. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir því að einkaneysla vaxi um tæp 2% í ár og ríflega 3% á ári næstu tvö ár.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband