Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Enn batnar erlenda staðan þrátt fyrir mikinn viðskiptahalla

Viðskiptahalli á fyrri helmingi þessa árs var sá mesti frá hruninu 2008. Mikill vöxtur innflutnings skýrir þá þróun að miklu leyti á sama tíma og útflutningsvöxtur hefur reynst mun hægari. Erlend staða þjóðarbúsins hefur hins vegar haldið áfram að batna og mun sú þróun líklega halda áfram með viðskiptaafgangi komandi ára.


Viðskiptahalli á 2. fjórðungi ársins var 31,1 ma.kr. Er það mesti viðskiptahalli á einum fjórðungi í 11 ár ef horft er fram hjá áhrifum slitabúa gömlu bankanna á greiðslujafnaðartölur á fyrri helmingi síðasta áratugar. Mikill halli á fjórðungnum skýrist fyrst og fremst af miklum vöruskiptahalla (55,7 ma.kr.) sem 25,2 ma.kr. afgangur af þjónustujöfnuði og 7,1 ma.kr. afgangur af frumþáttatekjum ná ekki að vega upp nema að takmörkuðum hluta. Þá voru hrein rekstrarframlög milli landa neikvæð um 7,6 ma.kr. en slík framlög endurspegla m.a. framlög til alþjóða- og hjálparstofnana sem og peningasendingar milli landa.

Það er raunar ekki nýlunda í viðskiptajöfnuðinum að vöruskiptahalli sé verulegur eins og sést á myndinni. Það sem á vantar miðað við fyrri ár er hins vegar að afgangur af þjónustujöfnuði vegi vöruskiptahallann upp. Til einföldunar má segja að vöruskiptahallinn síðustu ár hafi endurspeglað bæði ört vaxandi aðfanganotkun ferðaþjónustunnar og innflutning til neyslu og fjárfestingar innlendra aðila umfram vöruútflutning. Tekjur ferðaþjónustunnar hafi hins vegar verið nægilega myndarlegar til að vega þennan halla upp og gott betur þar til Kórónuveirufaraldurinn tók að geisa.

Afgangur af frumþáttatekjum var með rýrasta móti á fjórðungnum og hefur hann ekki verið minni í nærri þrjú ár. Sú þróun er þó ekki af alslæmum rótum runnin þar sem stóran hluta hennar má líklega skýra með minna tapi af rekstri álvera hér á landi. Það tap hefur undanfarið komið fram sem mínustala í fjárfestingarútgjöldum af beinni fjárfestingu sem vitaskuld hlaut alltaf að verða skammgóður vermir. Að öðru leyti endurspeglar afgangur af frumþáttatekjunum jákvæða eignastöðu þjóðarbúsins sem skilar fjárfestingartekjum umfram gjöld á hverjum tíma.

Versti fyrri árshelmingur frá hruni

Óhætt er að segja að viðskiptajöfnuður á fyrri helmingi ársins hafi reynst lakari en væntingar stóðu til. Hallinn var samtals 54 ma.kr. og hefur ekki verið svo mikill frá fjármálahruninu 2008. Líkt og nefnt er hér að framan skýrist þessi mikli halli af umtalsverðum vöruskiptahalla, sem aftur tengist miklum vexti innflutnings. Athygli vekur að öfugt við síðasta ár vegur afgangur af þjónustujöfnuði og jöfnuði þáttatekna ekki upp óhagstæð vöruskipti. Þessi mikli halli skýrir einnig að okkar mati að stórum hluta þróun krónunnar frá miðju ári, þegar fór að draga úr innflæði vegna fjárfestinga og krónan veiktist á nýjan leik eftir talsverða styrkingu fyrr á árinu.

Í maí spáðum við því að viðskiptaafgangur myndi verða tæplega 30 ma.kr. á yfirstandandi ári í heild. Sú spá virðist heldur bjartsýn í ljósi talna fyrir fyrri árshelming. Við eigum þó von á því að seinni helmingur ársins reynist talsvert hagfelldari hvað viðskiptajöfnuðinn varðar. Útflutningstekjur frá ferðaþjónustunni fóru fyrst að taka við sér að nýju undir lok 2. fjórðungs um munu þær væntanlega reynast talsverðar á seinni helmingi ársins þótt óvissa um skemmri tíma þróun í þeim geira hafi raunar aukist á ný. Þá gætu tekjur af notkun hugverka í lyfjaiðnaði reynst drjúg búbót á lokafjórðungi ársins líkt og síðustu ár. Það er þó að okkar mati tvísýnt hvort hagstæður seinni árshelmingur nær að vega upp mikinn halla á fyrri helmingi ársins. Gæti eins farið svo að árið 2021 verði það fyrsta frá árinu 2011 þar sem halli verður á utanríkisviðskiptum. Við erum þó sem fyrr bjartsýn á að viðskiptajöfnuður muni fljótt batna þegar ferðaþjónustan hjarnar við á komandi fjórðungum.

Enn batnar erlend staða þjóðarbúsins

Góðu heilli hefur viðskiptahalli síðustu fjórðunga ekki haft sjáanleg áhrif á þá jákvæðu þróun erlendrar eignarstöðu þjóðarbúsins sem einkennt hefur undanfarinn áratug. Alls námu erlendar eignir þjóðarbúsins umfram skuldir 1.120 mö.kr., eða sem samsvarar 36,6% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) í júnílok. Batnaði staðan um nærri 80 ma.kr. frá aprílbyrjun, sem að stærstum hluta má þakka hækkun á virði erlendra verðbréfa í innlendri eigu á tímabilinu. Erlendar eignir námu samtals 4.566 mö.kr. í júnílok en erlendar skuldir 3.445 mö.kr.

Eins og fyrri daginn er forvitnilegt að skoða samsetningu erlendu stöðunnar enda er samsetning eigna og skulda nokkuð ólík. Erlendar skuldbindingar í formi skuldabréfa og beinna lána eru talsvert þyngri á metunum en eignir innlendra aðila af þeim toga. Það skýrist af því að ríkissjóður, bankakerfið og stærstu fyrirtæki landsins fjármagna sig að hluta á alþjóðamörkuðum en erlend lánaumsvif bankakerfisins eru á sama tíma lítil og fjárfestingar lífeyrissjóða í erlendum eignum eru að mjög takmörkuðum hluta í skuldabréfum eða tengdum eignum. Þótt hreinar erlendar skuldir af framangreindu tagi séu jafnvirði ríflega 1.335 ma.kr. ber að hafa í huga að þær eru að stærstum hluta í erlendum gjaldmiðlum. Vextir af þeim eru því lágir um þessar mundir enda vaxtastig í helstu gjaldmiðlum afar lágt.

Þá er bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi heldur meiri en fjárfesting innlendra aðila erlendis. Þar munar væntanlega mestu um orkufrekan iðnað í erlendri eigu, sem og gagnaver og einhvern hluta hátæknigeirans.

Á hinn bóginn er eign innlendra aðila í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum ríflega 1.840 ma.kr. umfram erlendar skuldir af þessu tagi. Þarna munar mestu um lífeyrissjóðina sem áttu í lok júní jafnvirði 2.048 ma.kr. í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum samkvæmt tölum Seðlabankans.

Þá heldur Seðlabankinn sjálfur á drjúgum hluta af erlendum eignum þjóðarbúsins. Gjaldeyrisforði bankans var í lok júní jafnvirði 859 ma.kr. Gjaldeyrisforðinn aflar hins vegar sáralítilla fjármagnstekna þar sem Seðlabankanum ber að ávaxta hann á áhættulitlum skammtímavöxtum sem um þessar mundir eru nær engir í flestum helstu gjaldmiðlum.

Sterk erlend staða þjóðarbúsins hefur að mati okkar reynst afar mikilvæg til þess að efla viðnámsþrótt hagkerfisins við þeim harða skelli sem Kórónuveirufaraldurinn greiddi því. Traust innlendra sem erlendra aðila á krónunni er fyrir vikið mun meira en áður fyrr þegar útflutningsgreinarnar urðu fyrir höggi og áhyggjur af gjaldeyris- eða skuldakreppu víðs fjarri. Líklega á erlenda staðan eftir að styrkjast enn frekar þegar viðskiptaafgangur glæðist á nýjan leik á komandi misserum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband