Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Endalok LIBOR vaxta

Hvað tekur við af LIBOR millibankavöxtum um næstu áramót?


Næstu áramót munu marka tímamót á alþjóðlegum fjármálamörkuðum þegar hinir svokölluðu LIBOR (London Interbank Offered Rate) vextir hverfa á braut eftir margra ára undirbúningsvinnu fjölda aðila víða um heim. Slíkir vextir hafa boðist á lánum á millibankamarkaði í London en ástæða þess að þeir hverfa nú á braut á rætur að rekja til þess þegar Andrew Bailey, þáverandi forstjóri fjármálaeftirlits Bretlands og núverandi bankastjóri Englandsbanka, lýsti því yfir að frá og með árinu 2022 yrði ekki lengur gerð krafa um að bankar þar í landi tækju þátt í myndum vaxtanna. Kom sú yfirlýsing í kjölfar þess að LIBOR markaðurinn hafði orðið fyrir röð áfalla, auk þess sem veltan á markaðinum hafði dregist mjög saman árin á undan. LIBOR vextir (og millibankavextir almennt) gegna mjög mikilvægu hlutverki í fjármálakerfi heimsins og því er afar mikilvægt að algjört traust ríki gagnvart þessum viðmiðum.

Mikilvægi millibankavaxta

Það er algjör forsenda fyrir skilvirkum fjármálamarkaði að til staðar séu áreiðanlegir mælikvarðar á vaxtastig og markaðsaðilar treysti á þá. Því fór fljótlega af stað mikil vinna við að þróa og skilgreina nýja vexti sem gætu þjónað markaðnum með sama hætti og LIBOR gerir í dag. Settir voru á laggirnar verkefnahópar í öllum þeim myntum sem í dag mynda LIBOR vexti (Bandaríkjadollar, evra, breskt pund, svissneskur franki og japanskt jen) og hafa þær allar lagt fram tillögur að nýjum vaxtaviðmiðum, sem má sjá í töflunni hér að neðan.

Eins og taflan ber með sér hafa vinnuhóparnir fimm allir mælst til þess að arftakar LIBOR vaxta verði eins dags vextir (í daglegu tali nefnt overnight vextir), ýmist tryggðir vextir (svokölluð repo viðskipti) eða ótryggðir (heildsölu innlán). Er það fyrst og fremst vegna þess að langsamlega mest viðskipti eru með slíka vexti í dag og hleypur veltan sem dæmi á fleiri hundruð milljörðum dollara á dag í tilfelli SOFR vaxtanna í Bandaríkjunum.

Þegar talað er um þessar breytingar á vöxtum eru almennt notuð hugtökin ARR (Alternative Reference Rate) eða RFR (Risk-Free Rate) sem samheiti fyrir hina nýju vexti í öllum myntum.

Sambærileg vinna hefur átt sér stað víða um heim, enda er vandamálið ekki bundið við LIBOR vexti eina. Sér í lagi hafa starfshópar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi verið að skoða hvað, ef nokkuð, getur komið í stað IBOR (millibanka-) vaxta þessara landa. Í Danmörku er vinna í gangi við að koma upp eins dags vöxtum, DESTR, sem eru skilgreindir með sama hætti og ESTR vextir í evrum, enda er danska krónan að fylgja fastgengisstefnu gagnvart evrunni og þar með hagræði í því að skilgreina vexti með sama hætti. Í Svíþjóð munu STIBOR vextir að öllum líkindum lifa áfram, einungis aðferðafræðinni við vaxtaákvörðun er breytt í þeim tilgangi að uppfylla hina nýju reglugerð um viðmiðunarvexti. Noregur er sömuleiðis að vinna í átt að eins dags vöxtum, NOWA (Norwegian Overnight Weighted Average).

Hvaða leiðir eru færar?

Seðlabanki Íslands hefur verið að kalla eftir gögnum og skoða hvaða samninga mætti nota sem grunn fyrir ARR vexti fyrir íslenskar krónur. Eftir fyrstu vinnu þar á bæ er stefnt að því að búa til vaxtaviðmið fyrir eins dags vexti, en í skoðun er að birta einnig einnar viku, eins mánaðar og þriggja mánaða vexti. Telja má líklegt að einungis sé raunhæft að eins dags viðmið verði nothæft þar sem það eru einu vextirnir þar sem dagleg velta er með bundin innlán á heildsölumarkaði. Enn er óljóst hvenær þessari vinnu Seðlabankans lýkur eða hver framtíð REIBOR vaxtanna íslensku verður.

Á þessum tímapunkti er enn ekki fyllilega ljóst hversu langt út vaxtakúrfuna hin nýju vaxtaviðmið munu teygja sig, en eins og komið var inn á hér að framan virðast flest myntsvæði stefna í eitthvert form af eins dags vöxtum. Það veldur ákveðnum vandkvæðum fyrir lánasamninga sem yfirleitt gera ráð fyrir vaxtagreiðslum á 1 eða 3 mánaða fresti, enda ekki til staðar nein vaxtaviðmið í þeim tilfellum. Ef svo fer að ekki muni myndast markaður fyrir vexti lengra út kúrfuna en til eins dags (engir eins, þriggja eða tólf mánaða vextir) þarf að brúa það bil með einhverjum hætti, þar sem fyrirtæki og almenningur geta af augljósum ástæðum ekki staðið í því að greiða  vexti af lánum sínum á hverjum degi.

Sú leið sem virðist vera að ná yfirhöndinni erlendis miðað við stöðuna í dag er er að uppreikna vexti daglega miðað við ARR gildi þann daginn og greiða vexti í lok óskaðs vaxtatímabils (interest in arrears). Þessi leið hefur þó þann vankant á að vaxtagreiðslur eru ekki þekktar fyrr en í lok vaxtatímabils. Fyrir minni fyrirtæki og einstaklinga er slíkt ekki ákjósanlegt þar sem miklu getur munað fyrir þessa aðila að vita með nokkrum fyrirvara hvaða vexti þeim beri að greiða. Því er mikið kapp lagt á að koma upp öðrum vaxtaviðmiðum eða afleiðumörkuðum sem gætu leyst þennan vanda að einhverju leiti. Önnur leið sem horft hefur verið til er að reikna vexti fyrirfram (interest in advance), en þá er horft ákveðinn dagafjölda aftur í tímann og vextir fyrir næsta vaxtatímabil reiknaðir út frá þeim (eins mánaðar vextir myndu þá horfa einn mánuð aftur í tímann og uppreikna mánaðarvexti út frá sögulegum gildum). Af augljósum ástæðum er þetta ekki ákjósanleg leið, þar sem það byði uppá  högnunartækifæri af ýmsum toga.

Eins og var minnst á í upphafi verða nýju vaxtaviðmiðin því sem næst áhættulausir vextir  og til mjög skamms tíma. LIBOR vextir, aftur á móti, innihalda bæði áhættuálag (credit premium) og bindiálag (term premium) og því munu hinir nýju ARR vextir vera lægri sem nemur þessu álagi, að öðru óbreyttu. Sögulega hefur þetta álag verið í kringum 0,2%, en hefur verið mun hærra á álagstímum.

Til þess að tryggja að annar aðilinn í tvíhliða lánasamningi verði ekki fyrir hagrænu tapi vegna breytinga á vaxtaviðmiði hafa aðilar á markaði almennt sammælst um að eðlilegast sé að bæta við álagi sem nemur þessum mismun þannig að núvirðisáhrifin verði sem minnst, eins og myndin að neðan sýnir. Að sjálfsögðu er ekki til nein ein rétt leið við að útfæra slíkt, en sú leið sem ISDA (International Swaps and Derivatives Association) hefur ákveðið að fara er að styðjast við meðaltalsáhættuálag síðastliðin 5 ár.

Það er ljóst að þessi aðgerð er flókin og að mörgu þarf að huga áður en breytingarnar koma til framkvæmda um áramótin. Við hjá Íslandsbanka höldum áfram að fylgjast vel með þróun mála í þessum efnum, hérlendis og erlendis og höldum áfram að upplýsa viðskiptavini okkar um stöðuna.