Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ekki síðasta orð Seðlabankans

Á fundi Seðlabankans í dag voru kynntar tvær sviðsmyndagreiningar af efnahagslegum áhrifum Covid-19 farsóttarinnar. Samkvæmt sviðsmyndunum gæti stefnt í neikvæðan hagvöxt sem næmi 2,4% -4,8% á þessu ári. Óvíst er hvaða ráðstafana Seðlabankinn grípi til næst, en á fundinum sagði Seðlabankastjóri að þetta væri ekki þeirra síðasta orð og þau væru rétt að byrja.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Seðlabankinn boðaði til fundar í dag þar sem rætt var um nýlegar aðgerðir í peningamálum er varða kaup á ríkisskuldabréfum auk þess að kynntar voru tvær sviðsmyndagreiningar af efnahagslegum áhrifum Covid-19 farsóttarinnar. Þetta er þriðji aukafundurinn sem bankinn boðar á tveimur vikum.

Kærkomið efni frá Seðlabankanum

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, kynnti tvær mismunandi sviðsmyndir um hversu alvarlegur Covid-19 faraldurinn mun vera fyrir hagkerfið. Samkvæmt þeim gæti stefnt í neikvæðan hagvöxt sem næmi 2,4% - 4,8% á þessu ári, þegar ekki hefur verið tekið tillit til þeirra umfangsmiklu mótvægisaðgerða sem stjórnvöld kynntu á dögunum.

Þrátt fyrir þennan mikla skell gerir Seðlabankinn ekki ráð fyrir að miklar breytingar verði á verðbólguhorfum í sviðsmyndunum tveimur. Þórarinn segir ástæðuna fyrir því vera að mismunandi kraftar vega á móti hvor öðrum, gengi krónunnar er lægra í sviðsmyndunum en áætlað var í febrúar en á móti vegur mikil lækkun á alþjóðlegu verðlagi. Þá mun innlendur verðbólguþrýstingur minnka verulega vegna mikillar aukningar atvinnuleysis og vannýtingar framleiðsluþátta.

Gífurlegt högg fyrir ferðaþjónustu

Stóri þátturinn í sviðsmyndunum er ferðaþjónustan. Í mildari sviðsmyndinni er gert ráð fyrir að ferðamönnum til Íslands fækki um 37% milli ára sem samsvarar 14% samdrætti í vöru- og þjónustuútflutningi. Í þeirri sviðsmynd mun veiran vara stutt og ferðamannasumarið bjargast að einhverju leyti. Í dekkri sviðsmyndinni er fækkun ferðamanna 55% sem samsvarar 21% samdrætti í vöru og þjónustuútflutningi. Í þeirri sviðsmynd varir ástandið lengur og batinn verður töluvert hægari.

Erlendir ferðamenn voru tæplega 2 milljónir talsins á síðasta ári og er nokkuð ljóst að þeir verði talsvert færri á þessu ári. Ferðaþjónustan er langstærsta útflutningsgrein landsins og skiptir gríðarlega miklu máli fyrir hagvöxt í landinu. Augljóst er að ferðaþjónustan mun verða fyrir höggi en óljóst er hversu þungt höggið mun vera.

Í sviðsmyndunum er gert ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu verði neikvæður um 1,1% - 3,8%. Við í Greiningu teljum þessa spá vera fremur bjartsýna og teljum að samdráttur í einkaneyslu muni verða ívið meiri á árinu. Högg vegna samkomubanns og gríðarleg fækkun ferðamanna á næstu mánuðum mun hafa mikil áhrif.

Í sviðsmyndagreiningunni gæti atvinnuleysi á árinu numið 5,7% - 7%. Í hruninu fór atvinnuleysi hæst í 7,7% árið 2010 en Seðlabankinn bindur miklar vonir við hlutastarfaleiðina svokölluðu, þar sem ríkið greiðir hluta launa fólks sem lækkar í starfshlutfalli.

Vissulega þarf að setja þann fyrirvara við sviðsmyndir af þessu tagi að óvissa hvað varðar framvindu efnahagsmála er óvenju mikil þessi dægrin og aðstæður breytast fljótt. Sviðsmyndirnar eru þó kærkomnar og má nálgast kynningu Þórarins á þeim hér. Enn stendur til að næsta hagspá bankans verði birt samhliða útgáfu Peningamála í maí.

150 milljarða króna heimild til kaupa ríkisbréfa

Á fundinum ræddi Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, auk þess um þá magnbundnu íhlutun sem bankinn hyggst ráðast í með kaupum á ríkisbréfum í íslenskum krónum. Heimild bankans til slíkra kaupa nemur 150 milljörðum króna eða um 5% landsframleiðslu. Áréttaði Ásgeir að nánari útfærsla kaupanna lægi ekki fyrir en unnið yrði með fjármálaráðuneyti og ríkisstjórn að slíku.

Markmið slíkrar íhlutunar er að koma í veg fyrir að langtíma ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækki verulega samhliða þeirri útgáfu ríkissjóðs sem nauðsynleg er til að fjármagna viðbrögð við núverandi ástandi. Seðlabankinn hefur ekki nýtt þetta tæki hingað til en getur með beitingu þess haft áhrif á langtímakröfu, rétt eins og stýrivöxtum er ætlað að hafa áhrif á skammtímakröfu. Nefndi Ásgeir að með þessu hefði bankinn fengið nýtt stýritæki til langs tíma.

Ekki síðasta orð bankans

Óvíst er til hvaða ráðstafana Seðlabankinn mun grípa næst en það verður þó að teljast jákvætt hversu trúir fulltrúar bankans eru orðum sínum um að gripið verði til aðgerða eftir því sem þurfa þykir. „Við erum rétt að byrja“ sagði Seðlabankastjóri á dögunum og í dag að þetta væri ekki þeirra síðasta orð hvað varðar aðgerðir bankans vegna Covid-19. Hann álítur þær aðgerðir sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafi gripið til hafi búið í haginn með þeim hætti að hagkerfið geti tekið við því áfalli sem nú gengur yfir og telur litlar þörf á frekari veikingu krónunnar.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Hafa samband