Efna­hags­ágrip 2021

Eftir krappan efnahagssamdrátt árið 2020 skaut efnahagsbati rótum á ný á árinu 2021. Innlend eftirspurn sótti verulega í sig veðrið, studd af hagstjórnarviðbrögðum stjórnvalda, batnandi atvinnuástandi og traustum efnahag flestra heimila og fyrirtækja. Þrátt fyrir nokkurn viðskiptahalla sótti útflutningur einnig í sig veðrið. Horfur eru á að hagvöxtur glæðist enn frekar á árinu 2022.


Árið 2021

Hagvöxtur glæddist á nýjan leik á árinu 2021 eftir 6,5% samdrátt landsframleiðslu á árinu 2020. Vaxtarskeiðið hófst á 2. ársfjórðungi og á heildina litið er talið að hagvöxtur á árinu hafi numið 4,1%.  

Stærstan hluta vaxtarins má þakka umtalsverðri aukningu innlendrar eftirspurnar. Skýrist hún bæði af myndarlegum vexti einkaneyslu sem og af talsverðum vexti fjárfestingar fyrirtækja og hins opinbera. Nutu heimili og fyrirtæki þar meðal annars aðgerða Seðlabankans og stjórnvalda til þess að vega gegn afleiðingum faraldursins, batnandi atvinnuástands í mannaflsfrekum atvinnugreinum og trausts efnahags flestra aðila í einkageiranum í upphafi faraldurs. 

Útlit er fyrir að einkaneysla hafi aukist um ríflega 5% á árinu 2021. Neyslan hefur í vaxandi mæli beinst út fyrir landsteinana og á það bæði við um utanlandsferðir og stærri neysluvörur á borð við bifreiðar. Heimilin hafa notið vaxandi kaupmáttar þrátt fyrir talsverða verðbólgu, minnkandi atvinnuleysis, hagstæðra vaxtakjara, hækkandi eignaverðs og uppsafnaðs sparnaðar svo nokkuð sé nefnt. 

Þá eru horfur á að fjármunamyndun í hagkerfinu hafi á heildina vaxið um tæplega 12% á árinu. Þar munar mestu um aukna fjárfestingu atvinnuveganna en einnig hefur fjárfesting hins opinbera tekið jafnt og þétt við sér eftir því sem fjárfestingarátak stjórnvalda hefur komist á skrið. Íbúðafjárfesting skrapp hins vegar saman á árinu 2021. 

Utanríkisviðskipti í jafnvægi þrátt fyrir áfall  

Þrátt fyrir að faraldurinn hafi litað seinni helming ársins meira en vonast var til hefur ferðaþjónustan náð vopnum sínum að hluta. Erlendir ferðamenn voru um það bil 700 þúsund hér á landi á árinu 2021. Samsvarar það 46% fjölgun frá árinu á undan en er þó einungis þriðjungur þess fjölda sem heimsótti landið árið 2019. Annar útflutningur jókst einnig töluvert á síðasta ári. Á það bæði við um ýmsar aðrar tegundir þjónustuútflutnings og einnig útflutning á sjávarafurðum og iðnaðarvörum. Alls óx útflutningur um rúm 13% á síðasta ári. 

Nokkur halli var þó á utanríkisviðskiptum á árinu. Innflutningur vöru og þjónustu óx um rúm 18% þar sem vöxtur á innfluttum neyslu- og fjárfestingarvörum vó þungt auk vaxandi þjónustuinnflutnings. Þótt afgangur af þáttatekjum hafi vegið nokkuð á móti halla af vöru- og þjónustuviðskiptum var viðskiptahalli ársins í grennd við 2%. Þrátt fyrir hallann styrktist erlend staða þjóðarbúsins á árinu og námu erlendar eignir að frádregnum skuldum 41% af landsframleiðslu í lok árs. 

Öflugur bati á vinnumarkaði 

Þróunin á vinnumarkaði árið 2021 var framar vonum. Atvinnuleysishlutfallið minnkaði um meira en helming frá ársbyrjun til ársloka og fór úr rúmlega 11% í ársbyrjun niður í 5% um síðustu áramót. Þó voru 2,5% vinnuaflsins enn í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum á borð við ráðningarstyrk í lok árs.  

Laun hækkuðu einnig talsvert hratt á árinu. Hröðust var hækkunin hlutfallslega í opinbera geiranum en hækkun á almennum vinnumarkaði var einnig umtalsverð. Þótt verðbólga væri talsverð í lok árs hafði kaupmáttur launa þá að jafnaði aukist um rúmlega 2% frá ársbyrjun. Þar sem krónutöluhækkun var reglan í kjarasamningsbundnum hækkunum ársins var kaupmáttaraukningin hlutfallslega mest hjá þeim sem lægri tekjur höfðu á meðan kaupmáttur launþega með hærri tekjur stóð í stað eða minnkaði lítillega. 

Vaxandi verðbólga og hækkandi stýrivextir  

Gengi krónu var að jafnaði 2,5% sterkara á árinu 2021 gagnvart helstu viðskiptamyntum en á árinu á undan. Seðlabankinn studdi talsvert við krónuna framan af ári með gjaldeyrissölu úr gjaldeyrisforða sínum. Á seinni helmingi ársins greip bankinn hins vegar lítið inn í gjaldeyrismarkaðinn enda ríkti almennt allgott jafnvægi á markaðinum. Alls nam hrein gjaldeyrissala Seðlabankans úr forðanum ríflega 140 m. evra á árinu 2021 samanborið við ríflega 830 m. evra árið 2020.  

Þrátt fyrir sterkari krónu óx verðbólga nokkuð á árinu, úr 4,3% í ársbyrjun í 5,1% í árslok. Rímaði það við alþjóðlega þróun þar sem verðbólga magnaðist umtalsvert meðal flestra landa heims. Samsetning verðbólguþrýstingsins breyttist verulega á árinu. Í stað hækkunar á innflutningsverðlagi, sem var helsti verðbólguvaldurinn á árinu 2020, varð húsnæðisliðurinn veigamestur í hækkun vísitölu neysluverðs þegar leið á árið 2021. Vaxandi innlendur kostnaðarþrýstingur birtist einnig í hækkandi verði á innlendri þjónustu og einnig ýttu verðhækkanir erlendis, til að mynda á eldsneyti, undir verðbólguna á seinni hluta ársins.  

Vaxandi verðbólga ásamt batamerkjum í hagkerfinu, sér í lagi hvað varðar innlenda eftirspurn, leiddu til þess að Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli í maí á síðasta ári. Alls hækkaði bankinn stýrivexti um 1,25 prósentur á árinu 2021 og voru meginvextir bankans 2,0% í árslok. Skammtíma raunvextir voru þó enn töluvert neikvæðir um áramótin og slaki peningastefnunnar því talsverður þrátt fyrir hækkun vaxta.   

Útlit fyrir myndarlegan hagvöxt á árinu 2022 

Á yfirstandandi ári er útlit fyrir nokkuð myndarlegan hagvöxt, eða 4,7%. Vöxturinn verður að stærstum hluta drifinn af auknum útflutningi en talsverður vöxtur einkaneyslu og hóflegur fjárfestingarvöxtur styður einnig við hagvöxtinn. Framgangur faraldursins gæti þó haft veruleg áhrif á hversu hraður bati ferðaþjónustunnar verður á árinu en ágætar líkur eru á því að greininni vaxi verulegur fiskur um hrygg á árinu. Þá eru horfur á umtalsverðri aukningu á útflutningi sjávarafurða, m.a. vegna stórrar loðnuvertíðar og aukinnar framleiðslugetu í fiskeldi. Á móti er einnig útlit fyrir umtalsverða aukningu innflutnings, bæði á aðföngum fyrir útflutningsgreinar og eins vegna vaxandi innlendrar eftirspurnar.  

Áframhaldandi kaupmáttarvöxtur, betra atvinnuástand og fólksfjölgun skýra væntanlega að stórum hluta talsverðan einkaneysluvöxt á árinu 2022. Þá eru horfur á að íbúðafjárfesting taki við sér þegar lengra líður á árið, en að á móti dragi úr opinberri fjárfestingu þegar frá líður. Atvinnuvegafjárfesting skreppur hins vegar líklega lítillega saman á árinu miðað við síðasta ár. Aukið framboð nýrra íbúða og hækkandi vextir á íbúðalánum mun líklega draga úr hækkunartakti íbúðaverðs þegar lengra líður á árið. 

Atvinnuleysi mun líklega hjaðna áfram jafnt og þétt eftir því sem mannaflsfrekum greinum á borð við ferðaþjónustu og mannvirkjagerð vex ásmegin. Þá eru horfur á talsverðri hækkun launa á fyrri helmingi ársins þar sem samningsbundinn hagvaxtarauki vegna ársins 2020 bætist líklega í maí við krónutöluhækkun í ársbyrjun hjá þorra launþega. Mikil óvissa er hins vegar um framhaldið þar sem kjarasamningar á stærstum hluta vinnumarkaðar renna út á lokamánuðum ársins. 

Vaxandi útflutningi og batnandi viðskiptajöfnuði mun líkast til fylgja nokkur styrking krónu eftir því sem líður á árið. Sterkari króna og stöðugra verðlag á erlendum vörum ásamt hægari hækkun íbúðaverðs og aðhaldssamari hagstjórn verður líklega til þess að draga úr verðbólgu á árinu og gæti hún verið komin nærri 2,5 verðbólgumarkmiði Seðlabankans fyrir árslok. Seðlabankinn þarf þó líklega að halda hækkunarferli vaxta áfram út árið svo það gangi eftir. 

Þótt faraldurinn hafi reynst þrálátari en vænst var og enn sé ekki útséð um hvenær honum sloti hefur styrk staða heimila, fyrirtækja og hins opinbera ásamt farsælum hagstjórnarviðbrögðum og árangursríkum sóttvarnaraðgerðum orðið til þess að milda höggið af honum og ýta undir vaxtarmöguleika hagkerfisins á komandi misserum.