Efnahagságrip 2020

Kórónukreppan litaði árið 2020 sterkum litum en dró einnig fram aukinn viðnámsþrótt hagkerfisins og styrkari stoðir þess en áður. Breytt neyslumynstur, viðbrögð hagstjórnarinnar og sterk staða í upphafi faraldursins mýktu höggið umtalsvert. Horfur eru á að hagvöxtur glæðist eftir því sem líður á árið 2021


Árið 2020 

Eitt lengsta og farsælasta vaxtarskeið í nútíma sögu Íslands rann sitt skeið á árinu 2020. Hagvöxturinn hafði grundvallast að miklu leyti á myndarlegum vexti ferðaþjónustu en öfugt við fyrri vaxtarskeið fylgdu góðærinu ekki verulegt efnahagslegt ójafnvægi eða skuldasöfnun hjá heimilum, fyrirtækjum eða hinu opinbera. 

COVID-19 faraldurinn umturnaði hins vegar á nokkrum vikum stærsta útflutningsatvinnuvegi landsins, ferðaþjónustunni. Faraldurinn og sóttvarnaraðgerðir vegna hans leiddu til ríflega 75% samdráttar í komum ferðamanna til landsins frá árinu á undan. Í kjölfarið fylgdi samdráttur í innlendri eftirspurn, sér í lagi fjárfestingu. Mótvægisaðgerðir hins opinbera hafa hins vegar mildað höggið verulega og þá hafa stjórnvöld borið gæfu til að feta hið vandrataða einstigi hæfilega strangra sóttvarnaraðgerða í ríkari mæli en víða erlendis. 

Útlit er fyrir að samdráttur landsframleiðslu á árinu 2020 hafi numið 8,7%. Þar átti nærri þriðjungs fall útflutningstekna stærstan þátt en eftirspurn einkaaðila  skrapp einnig nokkuð saman. Á móti vógu aukin umsvif hins opinbera og umtalsverður samdráttur innflutnings. 

Utanríkisviðskipti í jafnvægi þrátt fyrir áfall

Þrátt fyrir þungt högg á stærstu útflutningsgrein þjóðarbúsins, ferðaþjónustuna, voru utanríkisviðskipti í jafnvægi á síðasta ári. Þar vógu á móti snarpur samdráttur innflutnings og allmyndarlegur afgangur af þáttatekjum. Er svo þrautseigt ytra jafnvægi nýlunda í íslenska hagkerfinu.

Fjárfesting lét talsvert undan síga á árinu 2020 og nam samdráttur hennar í heild líklega um það bil 10%. Þar vó þyngst verulegur samdráttur í fjárfestingum atvinnuveganna en einnig dró úr fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og opinberum fjárfestingum. Íbúðamarkaður reyndist þróttmikill á árinu og eftirspurn stöðug. Að jafnaði hækkaði íbúðaverð á landinu um tæp 8%. Nokkuð dró úr einkaneyslu á árinu en sá samdráttur var alfarið einskorðaður við neyslu utan landsteinana og afmarkaða þætti innlendrar þjónustu sem mest varð fyrir barðinu á sóttvarnaraðgerðum. Tilfærsla neyslu inn fyrir landsteinana átti þátt í að draga úr áhrifum samdráttar í ferðaþjónustu á viðskiptajöfnuðinn.

Hrun í ferðamannastraumi setti mikinn svip á vinnumarkað á síðasta ári. Skráð atvinnuleysi jókst úr 4,8% í ársbyrjun í 10,7% í árslok. Mótvægisaðgerðir stjórnvalda komu í veg fyrir að hlutfallið hækkaði enn meira og voru 1,4% vinnuaflsins í hlutabótaleið stjórnvalda í árslok. Hækkun launa á árinu var hins vegar umtalsverð og jókst kaupmáttur launa um 3,5% þrátt fyrir stóraukinn slaka á vinnumarkaði.

Gengislækkun krónu helsta skýringin á vaxandi verðbólgu

Gengi krónu lækkaði um tæplega 10% á árinu gagnvart helstu viðskiptamyntum. Krappur samdráttur í útflutningstekjum var stærsta ástæða veikingar krónu en einnig ollu fjármagnsflutningar erlendra aðila úr landi tímabundnum veikingarhrinum. Seðlabankinn beitti gjaldeyrisforða sínum í ríkum mæli til þess draga úr skammtímasveiflum á gjaldeyrismarkaði, sér í lagi á seinni árshelmingi, og var u.þ.b. 1/8 hluti forðans seldur í því skyni. Forðinn er þó enn myndarlegur á alla mælikvarða.

Verðbólga óx umtalsvert á árinu, úr 1,7% í ársbyrjun í 3,6% í árslok. Verðhækkun á innflutningi eftir gengislækkun krónu var helsti verðbólguvaldurinn en hækkun innlends launakostnaðar og þróttmikill íbúðamarkaður vó þar einnig nokkuð. Seðlabankinn lækkaði vexti úr 3,0% í ársbyrjun í 0,75% á lokamánuðum ársins. Skammtíma raunvextir lækkuðu því mikið enda hafði viðbragð við efnahagslægð forgang í peningastefnu bankans. Stöðugar langtíma verðbólguvæntingar eru til marks um aukinn trúverðugleika peningastefnunnar og hefur aukið svigrúm Seðlabankans til sveiflujöfnunar mikið.

Líklegt að hagvöxtur glæðist á seinni árshelmingi 2021

Á yfirstandandi ári er útlit fyrir nokkuð myndarlegan hagvöxt, eða 3,2%. Vöxturinn verður mun hraðari á seinni helmingi ársins en hinum fyrri enda mun endatafl faraldursins og endurreisn ferðaþjónustunnar ráða að miklu leyti för í hagþróuninni í ár. Útflutningsvöxtur skýrir hagvöxtinn að mestu ásamt hóflegum vexti í neyslu og fjárfestingu. Mikil óvissa er þó um þróun ferðamannastraums til landsins og gæti hagvöxtur hæglega sveiflast á bilinu 1% – 5% eftir því hvernig honum vindur fram.

Fjárfestingarátak hins opinbera skýrir að stórum hluta mikinn hlut opinberrar fjárfestingar í fjárfestingarvexti í ár. Þá eru horfur á að atvinnuvegafjárfesting taki að vaxa jafnt og þétt á seinni helmingi ársins. Íbúðafjárfesting skreppur aftur á móti saman og á minna framboð nýrra eigna ásamt stöðugri eftirspurn drjúgan þátt í því að íbúðaverð mun væntanlega hækka allnokkuð á árinu.

Atvinnuleysi verður líklega verulegt fram undir mitt ár en með afturbata í ferðaþjónustu og auknum umsvifum í mannvirkjagerð, ásamt vaxandi spurn eftir innlendri þjónustu og vörum, mun atvinnuástandið væntanlega batna umtalsvert á síðari árshelmingi. Batnandi staða á vinnumarkaði ásamt vaxandi kaupmætti þorra almennings mun styðja við einkaneysluvöxt þegar frá líður.

Gengisþróun krónu mun að miklu leyti litast af þróun gjaldeyristekna ferðaþjónustunnar. Líklegt er að gengi krónu eigi nokkuð undir högg að sækja framan af ári en vaxandi líkur eru á styrkingu krónu eftir því sem lengra líður á árið. Krónan ræður svo einna mestu um verðbólguþróunina sem verður líklega spegilmynd af þróun síðasta árs. Verðbólga verður við 4,0% þolmörk Seðlabankans á fyrstu mánuðum ársins en hjaðnar hratt í kjölfarið og mun líklega ná verðbólgumarkmiði Seðlabankans fyrir árslok. Þá eru horfur á að stýrivextir Seðlabankans verði í lágmarki út árið og langtímavextir með því lægsta sem sést hefur hérlendis.

Gangi COVID-faraldurinn niður fyrir komandi vetur eru góðar líkur á að árið marki endalok Kórónukreppunnar og að vaxtarskeið verði hafið áður en það er úti. Traustur efnahagur heimila, fyrirtækja og hins opinbera, bæði í sögulegu tilliti sem í alþjóðlegum samanburði, þegar kreppan skall á hefur þar sitt að segja ásamt farsælum hagstjórnarviðbrögðum eftir að faraldurinn fór að geisa.

Þjóðhagsspá Íslandsbanka