Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Brún landsmanna aðeins að léttast

Brún landsmanna léttist á milli mánaða en landsmenn mælast þó enn nokkuð svartsýnir til stöðu og framtíðarhorfa í efnahags- og atvinnulífinu. Atvinnuleysi, væntingar og kortaveltutölur benda til þess að einkaneysla verður fyrir miklum skelli á árinu. Hins vegar eru fjölmargar ástæður til að ætla að bjartari tímar séu framundan og að einkaneysla taki við sér strax á næsta ári.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Nýlega birt Væntingavísitala Gallup (VVG) hækkaði um 17 stig frá síðasta mánuði og mælist nú 61,5 stig. Í aprílmánuði hafði vísitalan ekki mælst lægri í meira en 9 ár og hafði lækkað um 31 stig frá febrúarmánuði þegar COVID fór að breiðast út hér á landi. Nú horfir til betri vegar bæði hvað varðar faraldurinn, sem nú er í rénun hér á landi, og væntingar landsmanna til atvinnu- og efnahagslífsins ef marka má þessar tölur. Þrátt fyrir hækkun á milli mánaða er hljóðið í landsmönnum enn nokkuð þungt og vísitalan bæði töluvert undir 100 stiga jafnvægisgildinu sem og talsvert undir 12 mánaða meðaltali sem mælist nú um 81 stig.

Mat á núverandi ástandi lækkar

Allar undirvísitölur hækka á milli mánaða fyrir utan undirvísitöluna mat á núverandi ástandi. Undirvísitalan hefur tekið skarpa dýfu á síðustu mánuðum og heldur enn áfram að lækka. Í febrúar mældist undirvísitalan í 82,5 stigum en mældist í maímánuði 16 stig. Síðastliðna þrjá mánuði hefur vísitalan því lækkað um 81%.

Þrátt fyrir að hinar undirvísitölurnar hafi hækkað á milli mánaða eru þær enn allar undir 100 stiga jafnvægisgildinu. Væntingar til næstu 6 mánaða hækka mest á milli mánaða og mælist sú vísitala hæst allra undirvísitalnanna í tæpum 92 stigum. Það má því segja að landsmenn telji að faraldurinn sé á undanhaldi og að flest horfi til betri vegar á næstu misserum. Þetta rímar ágætlega við þjóðhagsspá okkar. Þar gerum við ráð fyrir 9,2% samdrætti á landsframleiðslu í ár en myndarlegum hagvexti strax á næsta ári.

Einkaneysla verður fyrir miklum skelli..

Það skal ekki undra að landsmenn eru svartsýnir gagnvart núverandi ástandi. Til að mynda stefnir allt í að atvinnuleysi verði meira hér á landi en við höfum vanist undanfarna áratugi. Á síðastliðnum fjórum árum hefur atvinnuleysi mælst að meðaltali 3% hér á landi en í aprílmánuði mældist atvinnuleysi 7,5% í almenna bótakerfinu og 10,3% vegna hlutabótaleiðarinnar. Í þjóðhagsspá okkar spáum við að atvinnuleysi verði að meðaltali um 9,6% á þessu ári án hlutabótaleiðar, en til samanburðar fór atvinnuleysi hæst í 7,6% árið 2010.

Auk atvinnuleysis og væntinga landsmanna sýna kortaveltutölur fyrir aprílmánuð töluverðan samdrátt milli mánaða. Heildarvelta innlendra greiðslukorta hefur dregist saman um tæp 27% frá sama tíma árið áður og um 19% frá því í febrúar. Þróun þessara hagvísa er gagnleg fyrir mat á þróun einkaneyslu. Ferðatakmarkanir og samkomubann mun hafa gífurleg áhrif á neyslu næstu mánuðina og má sjá þess merki í hagvísunum. Neysla er almennt mjög viðkvæm fyrir óvissu og er ljóst að íslensk heimili halda að sér höndum á óvissutímum sem þessum. Við í Greiningu gerum ráð fyrir 5,5% samdrætti í einkaneyslu á þessu ári eftir myndarlegan vöxt undanfarin ár.

 ..en bjartari tímar framundan

Þróun á einkaneyslu skiptir miklu máli fyrir hagvöxt hérlendis. Síðustu ár hefur einkaneysla vegið þungt til hagvaxtar og skýrt um helming af landsframleiðslunni. Þrátt fyrir að efnahagshorfur til skemmri tíma séu vissulega dökkar eru fjölmargar ástæður til að ætla að bjartari tímar séu framundan, líkt og væntingar landsmanna til næstu 6 mánuði gefa til kynna. Verði faraldurinn í rénun eftir mitt ár eru góðar horfur á að kreppan verði skammvinn og einkaneysla taki við sér strax á næsta ári.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband