Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Bráðum kemur ekki betri tíð segja landsmenn

Skammdegið virðist ætla koma snemma í ár ef marka má nýjustu mælingar Væntingavísitölu Gallup (VVG) en hún lækkaði í ágúst annan mánuðinn í röð. Önnur bylgja smita hér á landi og áhyggjur af vaxandi verðbólgu samhliða ört vaxandi atvinnuleysi spilar að öllum líkindum stóran þátt í nýjustu tölum VVG. Fróðlegt er hins vegar að rýna í ólík gildi VVG á milli kynjanna og aldurshópa en þar má sjá áhugaverða þróun.


Væntingavísitala Gallup (VVG) lækkaði um 8,5 stig í ágústmánuði og stendur nú í 43,8 stigum en hún hefur ekki mælst svo lág síðan í október 2010 (32 stig). Líklegt þykir að COVID-19 faraldurinn hafi mest að segja um hve lág vísitalan mælist en gildi hennar í upphafi árs var 94,9 stig. Það sem af er ári er meðaltal vísitölunnar 64 stig og eins og sjá má af myndinni voru gildi hennar að jafnaði talsvert hærri síðustu ár. Brún landsmanna hefur því þyngst nokkuð eftir því sem liðið hefur á árið en örlítið bjartsýnisskot átti sér stað á milli í maí og júní. Þá var útlit fyrir að Íslendingar væru að sigrast á faraldrinum en seinni bylgja farsóttarinnar hefur sett sitt mark VVG í júlí og ágúst.

Skráðu þig á póstlistann okkar

Væntingavísitala Gallup er byggð á 5 þáttum: mati á núverandi efnahagsaðstæðum, væntingum til efnahagsþátta eftir 6 mánuði, mati á núverandi aðstæðum í atvinnumálum, væntingum til ástands atvinnumála eftir 6 mánuði og væntingum um heildartekjur heimilisins eftir 6 mánuði.

Landsmenn meta aðstæðurnar betri nú en í júlí

Það sem einna helst vekur athygli í nýjustu tölum Gallup er að mat á núverandi aðstæðum hefur batnað örlítið á milli mánaða. Í júlí mældist sú undirvísitala 23,1 stig en í mælingu ágústmánaðar nam hún 28,4 stigum. Þetta kemur sérstaklega á óvart þar sem atvinnuleysi hefur færst í aukana, verðbólgan þokast upp og hertar sóttvarnaraðgerðir á landamærunum er það helsta í fréttum þessa dagana. Það er ýmislegt sem gæti þó útskýrt þessa örlitlu hækkun en til að mynda eru nú engir einstaklingar á spítala vegna COVID, auk þess sem aldrei verið eins hagstæð lánakjör í boði og nú fyrir almenning, svo að ráðstöfunartekjur þeirra sem halda vinnu og njóta góðs af núverandi vaxtastigi ættu að hafa aukist.

Verri horfur fram á veginn

Væntingar til framtíðar versna nokkuð annan mánuðinn í röð. Í júní mældist vísitala væntinga til næstu 6 mánaða 111,8 stig en er í ágúst einungis 54,1 stig. Horfur ferðaþjónustunnar fyrir komandi vetur eru ekki góðar og hljóða allar spár á þann veg að atvinnuleysi muni aukast umtalsvert á næstu mánuðum. Þá hafa væntingar um að mestu áhrif COVID-19 á daglegt líf væru að baki væntanlega breyst töluvert undanfarnar vikur.

Konur einungis mælst bjartsýnni í 6 af 234 mælingum

Mjög áhugavert er að rýna í mismun milli kynjanna í VVG en gögnin gefa til kynna að konur séu að jafnaði töluvert svartsýnni en karlar. Frá 2001 er meðaltal vísitölunnar fyrir karla 103,5 stig en 82,6 stig fyrir konur. Vísitalan er reiknuð mánaðarlega og hafa konur á þeim 234 mánuðum sem mælingar ná til einungis 6 sinnum mælst bjartsýnni en karlarnir. Munurinn á milli kynja er mestur í uppsveiflum en ætla má að konur séu viðbúnari fyrir skyndilegum niðursveiflum þegar vel árar en karlar. Karlarnir eru á hinn bóginn sveiflukenndari í sýn sinni á stöðu mála en staðalfrávik væntinga þeirra er um 4,3 stigum hærra. Erfitt er að átta sig á skýringum þessa og ef til vill er það fremur á færi félagsfræðinga en hagfræðinga að kryfja þennan mun til mergjar.

Þetta reddast-viðhorf hjá yngri kynslóðinni

Fróðlegt er að rýna í gildi VVG á milli aldurshópa en sá yngsti (18-24 ára) hefur að jafnaði mælst jákvæðastur og sá elsti aldursflokkurinn (65 ára og eldri) neikvæðastur. Sömu sögu má segja af aldurflokkunum þar á milli en af gögnunum að dæma virðist landinn verða svartsýnni eftir því sem lengra hefur liðið á lífsleiðina. Þó svo að bersýnilegur munur sé á VVG milli aldurhópanna fylgja þeir sömu þróun frá einum tímas til annars. Áhugavert er að í nýjustu lægð VVG er talsvert minni munur á milli þeirra yngri og eldri en oft áður. Útlit er fyrir að samdráttarskeiðið sem gengur nú yfir hafi meiri áhrif á yngri kynslóðina en þau fyrri. Skólastarf hefur verið með skertu fyrirkomulagi síðan í mars á þessu ári og gera má ráð fyrir að slíkt hafi neikvæðar afleiðingar fyrir þann aldursflokk bæði félagslega og námslega. Einnig eru atvinnumöguleikar yngri kynslóðarinnar af skornum skammti en algengustu störf nemenda eru þjónustustörf og hafa þau starfstækifæri minnkað umtalsvert. Því mætti ætla að ráðstöfunartekjur þeirra hafa orðið fyrir einhverju höggi í ríkari mæli. Á hinn bóginn eru eldri kynslóðir útsettari fyrir að verða illa fyrir barðinu á COVID-19, smitist þau á annað borð.

Mikill samdráttur í einkaneyslu

Á undanförnum árum hefur einkaneysla talið um helming af vergri landsframleiðslu og því verður umtalsvert högg á hagvöxt í landinu ef einkaneyslan dregst saman. Eins og áður var snert á hafa lánskjör hérlendis batnað til muna og þ.a.l. hafa ráðstöfunartekjur margra þeirra sem bera lán aukist. Hins vegar er með bættum lánakjörum mögulegt að auka skuldsetningu sína og eyða þar með auknum ráðstöfunartekjum strax. Þróun af því tagi myndi gera það að verkum að höggið á einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi sé minna en ella hefði verið. Við gætum því séð fram á áhrif af skertri einkaneyslu yfir lengri tíma.

Auknar ráðstöfunartekjur og kaupmáttur á þó einungis við um þá aðila sem haldið hafa vinnu og ekki tekið launaskerðingu. Atvinnuleysið er um þessar mundir tæplega 8% og gert er ráð fyrir það muni aukast frekar eftir því sem líður á árið.

Einkaneysla á öðrum fjórðungi þessa árs dróst saman um 8,3% frá síðasta ári en helstu ástæðu þess má rekja beint til COVID faraldursins því að í kjölfar hans var komið á fót víðtækum samkomutakmörkunum. Þá neyddust ýmsir þjónustuaðilar til þess að loka starfsemi sinni tímabundið og fólki var almennt ráðlagt að halda sig heima.

Væntingavísitala Gallup er sérstaklega áhugaverð þar sem fylgnin á milli hennar og einkaneyslu er mjög mikil. Því getur verið mjög gagnlegt að skoða þróun VVG til þess að áætla um þróun einkaneyslu í náinni framtíð. Ef við gerum ráð fyrir að VVG hafi öflugt forspárgildi þegar kemur að einkaneyslu næstu mánaða má gera ráð fyrir áframhaldandi samdrætti á næstu ársfjórðungum.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband