Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Botnfisksaflinn líklega aldrei verðmætari

Mikið hefur verið fjallað um ónýta loðnuvertíð á fyrsta fjórðungi þessa árs, og tíðræddur loðnubrestur hefur vissulega haft neikvæð áhrif innan íslensks sjávarútvegar, sér í lagi á þann hluta geirans sem snýr að uppsjávarvinnslu. Engu að síður fer sjávarútvegurinn vel af stað það sem af er þessa árs í þjóðhagslegu samhengi.


Mikið hefur verið fjallað um ónýta loðnuvertíð á fyrsta fjórðungi þessa árs, og tíðræddur loðnubrestur hefur vissulega haft neikvæð áhrif innan íslensks sjávarútvegar, sér í lagi á þann hluta geirans sem snýr að uppsjávarvinnslu. Þar hefur þurft að ráðast í hagræðingaraðgerðir og fækkun starfa vegna brestsins. Þau áhrif eru umtalsverð á tilteknum svæðum, t.d. á Austurlandi og í Vestmannaeyjum. Engu að síður fer sjávarútvegurinn vel af stað það sem af er þessa árs í þjóðhagslegu samhengi. Aflaverðmæti helstu botnfiskstegunda á fyrsta fjórðungi ársins nam til að mynda um 30,3 mö.kr. og eru það mestu verðmæti botnfisksafurða á  fyrsta ársfjórðungi frá árinu 2005 hið minnsta. Á sama tímabili hefur heildaraflinn aldrei verið minni í tonnum talið. Skýrist það fyrst og fremst af minni uppsjávarafla og spilar loðnubresturinn þar stærstu rulluna. Fyrir vikið reynist samsetning aflans þyngri í botnfiskstegundum sem skýrir m.a. mikið verðmæti aflans á hvert tonn.

Hagstæð þróun gengis og heimsmarkaðsverðs sjávarafurða

Þegar þetta er ritað hefur gengi krónunnar veikst um rúmlega 10% frá meðalgildum hennar á síðastliðnu ári. Þá hefur heimsmarkaðsverð sjávarafurða einnig farið hækkandi. Þessi þróun hefur leitt til hagfelldrar verðþróunar í krónum fyrir íslenskan sjávarútveg og stuðlað að auknum verðmætum fyrir íslenska sjávarútvegsaflann á alþjóðlegum mörkuðum. Þannig fást nú fleiri krónur fyrir aflann af gefinni óbreyttri samsetningu og magni.

Minna magn en meiri verðmæti

Uppsjávarafli fyrstu fimm mánaða ársins nam tæpum 227 þúsund tonnum sem er um 175 þúsund tonnum minna (-43%) en á sama tímabili á síðasta ári. Engu að síður námu útflutningsverðmæti fyrstu fjögurra mánaða ársins rúmum 84 mö.kr. sem er 12 ma.kr. aukning (+17%) frá sama tímabili á síðasta ári. Ástæðurnar eru áðurgreind samsetning aflans sem nú er þyngri í verðmætari botnfisksafurðum, veiking krónunnar og hagfelld þróun heimsmarkaðsverðs sjávarafurða.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða gætu farið yfir 250 milljarða í fyrsta sinn síðan 2015

Að því gefnu að hagfelld þróun gengis og heimsmarkaðsverðs sjávarafurða gangi ekki til baka á síðari hluta ársins má telja líklegt að heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða fari yfir 250 milljarða króna í fyrsta sinn síðan 2015. Til samanburðar námu útflutningsverðmæti sjávarafurða tæpum 240 milljörðum á síðastliðnu ári. Þá nema mestu útflutningsverðmæti í sögu greinarinnar rúmlega 270 milljörðum sem gerðist árið 2013. Þrátt fyrir loðnubrest virðist því sjávarútveginum áfram vaxa fiskur um hrygg og nálgast greinin sín allra bestu ár í útflutningsverðmætum.

Höfundur


Elvar Orri Hreinsson

Sérfræðingur í Greiningu


Hafa samband