Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Bjartsýnir neytendur hyggja á aukna neyslu

Íslenskir neytendur eru bjartsýnir á efnahags- og atvinnuhorfur og rétt rúmur helmingur þeirra metur núverandi ástand hagfellt samkvæmt mælingu Gallup. Æ fleiri hyggja á utanlandsferðir, bifreiðakaup og íbúðaviðskipti. Útlit er fyrir allnokkurn vöxt einkaneyslu í ár og gæti hann orðið meiri en við spáðum í maí.


Brún landsmanna er áfram létt þegar kemur að efnahags- og atvinnuhorfum ef marka má nýlega birta Væntingavísitölu Gallup (VVG) fyrir júnímánuð. Vísitölugildið sjálft lækkar raunar lítið eitt milli mánaða (úr 134 í tæp 132 stig) en maímæling VVG var sú hæsta frá ársbyrjun 2018. Engu að síður endurspeglar núverandi mæling útbreidda bjartsýni um komandi tíð auk þess sem mat á núverandi ástandi fór yfir jafnvægisgildið 100 í fyrsta sinn frá upphafsfjórðungi síðasta árs. Með öðrum orðum telja heldur fleiri svarendur að núverandi aðstæður í hagkerfinu séu góðar en að þær séu slæmar.

Talsverð fylgni er á milli VVG og þróunar einkaneyslu enda mótast væntingar neytenda að stórum hluta af þáttum á borð við gengisþróun krónu, verðbólguhorfur, atvinnuástand og auðvitað stórtíðindi eins og heimsfaraldur. Það má því búast við að einkaneysla sæki áfram í sig veðrið á komandi mánuðum líkt og verið hefur undanfarið. Lítilsháttar vöxtur mældist í einkaneyslu á fyrsta ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra og var það fyrsti fjórðungurinn frá því faraldurinn skall á þar sem vöxtur mældist.

Í ljósi þess hversu krappur samdrátturinn var á öðrum ársfjórðungi síðasta árs og með hliðsjón af kortaveltutölum teljum við að vöxtur einkaneyslu á öðrum fjórðungi þessa árs mælist mikill. Nýjustu mælingar VVG ásamt nýrri mælingu á stórkaupavísitölu, sem fjallað er um hér að neðan, benda hins vegar til þess að vöxturinn verði áfram umtalsverður. Gæti einkaneysluvöxtur á árinu í heild því reynst nokkru meiri en sá 2,9% vöxtur sem við spáðum í Þjóðhagsspá okkar í maí.

Uppsveifla í utanlandsferðum?

Síðasta birting VVG í hverjum ársfjórðungi er ávallt áhugaverð þar sem þá fylgir í kaupbæti ný mæling á stórkaupavísitölu. Stórkaupavísitalan vegur saman svör neytenda um fyrirhuguð kaup á bifreiðum, utanlandsferðum og íbúðarhúsnæði. Eins og sjá má af myndinni hækkar stórkaupavísitalan talsvert nú í júnímánuði frá marsmælingu hennar og hefur gildi hennar ekki verið hærra frá því faraldurinn skall á.

Allar undirvísitölur stórkaupavísitölunnar hækka á milli mælinga en mest munar um hækkun á fyrirhuguðum utanlandsferðum. Eins og gefur að skilja hrundi sú undirvísitala þegar faraldurinn fór að færa sig upp á skaftið og hafa gildi hennar verið óvenju lág þar til nú enda bæði áhættusamt og óhægt um vik að ferðast milli landa.

Rúmlega helmingur landamanna hefur nú hug á því að fara út fyrir landsteinana á komandi mánuðum. Lægst fór þetta hlutfall í 32% í fyrrahaust. Eftir yfirstandandi viku lætur nærri að 9 af hverjum 10 einstaklingum 16 ára og eldri verði fullbólusettir og er því utanlandsför flestra orðin bæði einfaldari og áhættuminni en var fyrir aðeins nokkrum mánuðum. Eins fjölgar grænlituðum löndum og svæðum jafnt og þétt á sóttvarnarkorti Evrópsku sóttvarnarstofnunarinnar. Hins vegar er faraldurinn að sækja í sig veðrið á ný í Bretlandi auk þess sem Bandaríkin eru enn að mestu leyti lokuð íslenskum ferðamönnum. Það er því enn nokkuð í að ferðalög um heiminn verði jafn frjáls og áhættulítil og var í upphafi síðasta árs þótt þróunin sé vissulega jákvæð og landsmenn hyggist nýta sér hana í ríkum mæli ef marka má mælingu Gallup.

Bílasala á uppleið

Áhugi landsmanna á bifreiðakaupum hefur einnig aukist upp á síðkastið og mælist sú undirvísitala nú svipuð og fyrir faraldur. Í nýbirtri frétt Bílgreinasambandsins kom fram á á fyrri helmingi ársins hefði sala á fólksbílum til einstaklinga aukist um tæp 11% frá sama tímabili í fyrra. Í júníímánuði var aukningin hins vegar tæp 42% á milli ára. Merkilegt nokk jókst sala á nýjum bílum til einstaklinga um 7% á síðasta ári þrátt fyrir faraldurinn. Ef marka má mælingu Gallup verður því áfram líflegt hjá bílaumboðum og á bílasölum hérlendis næstu mánuðina.

Þá hækkaði vísitala fyrirhugaðra húsnæðiskaupa talsvert milli mælinga og er hún nú á svipuðum slóðum og um mitt síðasta ár. Tæplega 7% landsmanna er í slíkum hugleiðingum þessa dagana ef marka má könnun Gallup. Spurn á íbúðamarkaði virðist því síst fara dvínandi þrátt fyrir hækkun vaxta Seðlabankans í maímánuði. Verður forvitnilegt að sjá hvort nýkynntar breytingar Seðlabankans á hámarks lánsfjárhlutfalli við íbúðakaup úr 85% í 80% fyrir flesta kaupendur slá eitthvað á kaupáhuga landsmanna. Þá má búast við frekari aðgerðum að hálfu bankans á seinni helmingi ársins ef ekki hægir umtalsvert á hækkunartakti íbúðaverðs á næstunni miðað við orð seðlabankastjóra í morgun.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband