Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Bakslag í ferðaþjónustu fækkar störfum

Meiri óvissa og minni umsvif í ferðaþjónustu hefur orðið til þess að hjöðnun innan greinarinnar er hafin og útlit fyrir frekari hjöðnun á næstunni.


Á síðastliðnum árum hefur störfum innan ferðaþjónustu fjölgað ört og greinin aukið umsvif sín í íslensku atvinnulífi til muna. Störfum á Íslandi fjölgaði um 46 þúsund á tímabilinu 2011-2018, og var þriðjungur þeirra fjölgunar, u.þ.b. 17 þúsund störf, í ferðaþjónustu. Þannig hefur greinin átt stóran þátt í að draga úr atvinnuleysi frá upphafi áratugarins.

Á árinu 2018 störfuðu tæplega 29 þúsund manns í ferðaþjónustu og hefur hlutfall launþega í greininni af heildarfjölda starfandi vaxið úr 7,5% í 14,8% á síðastliðnum 10 árum. Ljóst er að ferðaþjónustan er orðin ein umfangsmesta atvinnugrein hagkerfisins. Í alþjóðlegu samhengi var hlutfallsleg fjölgun starfa á Íslandi sem tengjast ferðaþjónustu beint sú sjötta hraðasta í heiminum árið 2017.

Fjöldi ferðamanna á hvern starfsmann hefur tvöfaldast á áratug

Framleiðni vinnuafls mælir þau verðmæti sem verða til við framleiðslu á hverja vinnustund. Þessi framleiðni hefur aukist um 41% frá 2008-2018 í ferðaþjónustu eða næstmest allra atvinnugreina, enda hefur fjöldi ferðamanna á hvern starfsmann rúmlega tvöfaldast á tímabilinu.

Hjöðnun á vinnumarkaði í ferðaþjónustu þegar hafin

Viðsnúningur hefur orðið í komum ferðamanna hingað til lands og hafa færri ferðamenn lagt leið sína til Íslands það sem af er þessu ári í samanburði við síðasta ár. Þessu samhliða er hjöðnun á vinnumarkaði í ferðaþjónustu óhjákvæmileg og er hún þegar hafin.

Talsverð fækkun starfa í kjölfar gjaldþrots WOW

Í kjölfar gjaldþrots WOW Air bárust Vinnumálastofnun 1.450 umsóknir um atvinnuleysisbætur af voru 740 umsóknir frá starfsmönnum flugfélagsins og má ætla að meginþorri annarra starfa séu vegna starfa innan ferðaþjónustunnar sem megi rekja óbeint til gjaldþrots WOW Air. Frá gjaldþroti flugfélagsins hefur störfum innan ferðaþjónustunnar því væntanlega þegar fækkað um 5%.

Frekari uppsagnir í vændum?

Þess má vænta að störfum muni fækka enn meira á næstu misserum. Samkvæmt könnun Gallup um viðhorf 400 stærstu fyrirtækja landsins eru hlutfallslega fleiri fyrirtæki sem vilja fækka starfsfólki en fjölga. Um fjórðungur fyrirtækja vilja fækka starfsfólki á næstu sex mánuðum en aðeins 14% fyrirtækja vilja fjölga starfsfólki. Í flokknum samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta vilja einungis 3,3% fyrirtækja fjölga starfsfólki en aftur á móti hyggjast tæplega þriðjungur fyrirtækja fækka starfsfólki og er hlutfallið hvergi hærra en í þessum flokki.

Meiri óvissa og minni umsvif í ferðaþjónustu hefur orðið til þess að hjöðnun innan greinarinnar er hafin og útlit fyrir frekari hjöðnun á næstunni. Það verður áhugavert að fylgjast með ferðaþjónustunni á næstu misserum og hvernig henni tekst að aðlagast breyttum aðstæðum eftir hraðan uppgang síðustu ára.

Íslensk ferðaþjónusta - Upptaka frá fundi


Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri Verslunar og þjónustu, opnaði fund Íslandsbanka í tilefni útgáfu skýrslunnar. Í kjölfarið kynntu þeir Bjarnólfur Lárusson, viðskiptastjóri í Verslun og þjónustu og Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur í Greiningu, helstu niðurstöður.

Að lokum ræddi Sigrún Hjartardóttir í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka við þau Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála um stöðu greinarinnar.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Sérfræðingur


Hafa samband