Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Aukinn innflutningur meginskýring vaxandi vöruskiptahalla

Mikill vöxtur í innflutningi skýrir að mestu aukinn vöruskiptahalla það sem af er ári. Mikil aukning hefur orðið á innflutningi farartækja sem og annarra neyslu- og fjárfestingarvara það sem af er ári. Horfur eru á að vöxtur útflutnings á vörum og þjónustu vegi þyngra en innflutningsvöxtur á komandi fjórðungum.


Vöruskiptahalli mældist 28,6 ma.kr. í nóvember samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Er það þriðji mesti halli sem mælst hefur í einum mánuði þetta árið, en mestur varð hallinn 47,6 ma.kr. í júnímánuði sl. Mikill halli skýrist að mestu af innflutningshliðinni. Alls nam vöruinnflutningur 100,8 mö.kr. í mánuðinum og hefur aðeins einu sinni verið meiri í krónum talið. Vöruútflutningur nam alls 72,3 mö.kr. í nóvember. Til samanburðar var útflutningur á fyrstu 10 mánuðum ársins að jafnaði 61 ma.kr. í mánuði hverjum.

Innlend eftirspurn sækir í sig veðrið á ný

Vaxandi innlend eftirspurn hefur sett mark sitt á vöruinnflutning í ár. Alls voru fluttar inn vörur á fyrstu 11 mánuðum ársins fyrir 901 ma.kr. sem samsvarar tæplega 28% aukningu í krónum talið frá sama tímabili í fyrra. Krónan var að jafnaði 2,5% sterkari á þessu tímabili í ár en í fyrra svo ekki skýrir gengi krónu þennan mun.

Hagstofan sendi nýlega frá sér sundurliðun á vöruinnflutningi og -útflutningi niður á vöruflokka þar sem greint er milli magn- og verðþróunar. Tölurnar ná yfir fyrstu 10 mánuði ársins. Í þeim endurspeglast glöggt hversu mikið af vaxandi innflutningi skýrist af auknu magni. Á heildina litið var fimmtungi meira magn af vörum flutt inn til landsins á þessu tímabili en á sama tíma í fyrra. Vöxturinn var umtalsverður í öllum helstu vöruflokkum en sér í lagi var hann myndarlegur í fjárfestingarvörum.

Til að mynda var flutt inn sexfalt meira af flugvélum og nærri þrefalt meira af skipum en á sama tíma í fyrra. Alls jókst innflutningur fjárfestingarvara um 47% í magni mælt á þessu tímabili. Þá jókst innflutningur á bifreiðum til einkanota um 32% á milli ára en á öðrum neysluvörum nam magnaukningin 13,5%. Verð á framangreindum vörum hefur hins vegar í flestum tilvikum lítið breyst í krónum talið milli ára þar sem styrking krónu hefur vegið gegn verðhækkun í erlendri mynt.

Öðru máli gegnir um rekstrar- og hrávörur. Verð á þeim hefur hækkað um 7,2% í krónum mælt og gætir þar áhrifa verðhækkunar á erlendum hrávöru- og eldsneytismörkuðum á árinu.

Ólík þróun milli helstu útflutningsvara

Á útflutningshliðinni er myndin töluvert öðruvísi. Á fyrstu 11 mánuðum ársins voru fluttar út vörur fyrir 683 ma.kr. sem samsvarar tæplega 22% aukningu í krónum talið milli ára. Samkvæmt ofangreindri sundurliðun Hagstofunnar fyrir fyrstu 10 mánuði ársins jókst útflutt magn um 8,8% á því tímabili milli ára. Verð útfluttra vara hækkaði hins vegar um 10% í krónum talið á tímabilinu.

Í tveimur helstu stoðum vöruútflutnings hefur þróunin verið býsna ólík. Þannig jókst útflutt magn stóriðjuafurða aðeins um tæplega 2% á tímabilinu. Verð þessara afurða var hins vegar að jafnaði ríflega 30% hærra á þessu ári en á sama tíma árið 2020. Þarna vegur þungt sú mikla hækkun sem orðið hefur á verði áls og ýmissa annarra iðnaðarmálma undanfarna fjórðunga. Má til dæmis nefna að álverð á heimsmarkaði var að jafnaði 46% hærra á fyrstu 10 mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra.

Þessu er svo öfugt farið í útflutningi sjávarafurða og afurða fiskeldis. Þar hefur magnaukning verið myndarleg, sér í lagi í síðarnefnda afurðaflokknum. Samkvæmt tölum Hagstofu jókst útflutt magn afurða fiskeldis um tæp 40% á framangreindu tímabili en magn sjávarafurða um 10%. Færri krónur fengust hins vegar fyrir hvert tonn þessara útflutningsafurða og útflutningsverðmæti þeirra óx því heldur minna en sem nemur magnaukningunni. Skrifast sú þróun á sterkari krónu, verðþróun erlendis og breytta samsetningu útflutningsafurða.

Halli í ár en afgangur í kortunum

Halli á vöru- og þjónustujöfnuði við útlönd var samtals ríflega 50 ma.kr. á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Aukinn vöruskiptahalli í ár miðað við síðasta ár endurspeglar að stærstum hluta bata í innlendri eftirspurn eins og fjallað er um hér að ofan en einnig að einhverju leyti aukin aðföng fyrir ferðaþjónustu. Á móti kemur að tekjur af ferðaþjónustu hafa sótt umtalsvert í sig veðrið frá sumarbyrjun og eiga þær stóran þátt í því að þjónustuafgangur vó þyngra en vöruskiptahalli á þriðja fjórðungi ársins.

Talsverð óvissa er að mati okkar um niðurstöðu vöru- og þjónustujafnaðar á lokafjórðungi ársins. Vöruskiptahalli mun reynast umtalsverður enda nemur hann þegar ríflega 41 ma.kr. í október og nóvember samanlagt. Þá eru horfur á að ferðamannatekjur verði talsvert minni á síðasta fjórðungi ársins en þær voru á þriðja fjórðungi. Hins vegar gætu útflutningstekjur af hugverkum reynst drjúgur búhnykkur inn í lokafjórðung ársins ef marka má undanfarin ár. Slíkar tekjur voru ríflega 37 ma.kr. á 4F 2020 og tæpir 29 ma.kr. á sama tíma 2019 og voru þær bæði árin mun meiri á lokafjórðungi ársins en fyrstu þrjá fjórðungana samanlagt. Þar er þó væntanlega um að ræða e.k. uppgjörstölur sem ekki þurfa að endurspegla flæði innan ársins.

Í öllu falli er útlitið bjart fyrir utanríkisviðskiptin þegar fram í sækir. Ört vaxandi tekjur af erlendum ferðamönnum, vöxtur í öðrum þjónustuútflutningi, myndarleg loðnuvertíð og frekari vöxtur í útfluttum afurðum fiskeldis mun væntanlega vega talsvert þyngra á metunum en aukinn innflutningur og því eru horfur á að afgangur mælist á ný af utanríkisviðskiptum á næsta ári.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband