Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Atvinnuviðtöl

Erfiðar en algengar spurningar í atvinnuviðtölum


Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Margir kvíða atvinnuviðtölum. Það er ekki óeðlilegt. Mikilvægi þess að ganga vel í atvinnuviðtali er óumdeilanlegt og það í sjálfu sér skapar streitu. Það eru spurningarnar sem spurðar eru í viðtali sem margir kvíða fyrst og fremst, hvort þær verði óvæntar og snúnar. Það er þó hægt að slá á kvíðann með góðum undirbúningi. Grein þessi tekur fyrir algengar spurningar í atvinnuviðtölum og hvernig megi svara þeim.

Það ber að hafa í huga að stundum er það af ásetningi að spyrjendur í atvinnuviðtali framkalla spennu í viðtali. Af ásettu ráði spyrja þeir krefjandi og óvæntra spurninga til þess að geta fylgst með viðbröðum umsækjanda. Starfið sem verið er að ráða í kann að einkennast af álagi og spennu og því vill atvinnurekandinn ganga úr skugga um að umsækjandinn bregðist vel við undir álagi. Hin leiðin sem oft er þó farin er að spyrjandi biður umsækjanda um nefna aðstæður þar sem var mikið álag en umsækjandi leysti engu að síður vel úr starfinu.

Skipulag atvinnuviðtala er langt frá því að vera staðlað. Það eykur enn á óvissuna. Sumir spyrjendur munu strax vilja kafa ofaní spurningar eins og „Segðu mér frá þér sjálfri/sjálfum". Þetta eru opnar spurningar sem gefa tilefni til lengri svara. Aðrir munu fyrst vilja fara yfir atriðalista en nota svo seinni hluta viðtals til þess að fara dýpra og kynnast betur umsækjanda. Almennt á að gæta þess að svara skýrt og stutt. Ekkert pirrar spyrjendur meira en löng svör og óskýr.

Atvinnurekendur vilja komast að því hver sé hæfastur til að ná árangri. Þeir eru að leita sannana þess að umsækjandi hafi sýnt árangur í starfi og leik. Spurningar eins og „Getur þú sagt frá hvar og hvernig þú náðir miklum árangri?" eru því algengar. Þetta sendir því þau skilaboð til umsækjanda að taka ekki of mikinn tíma í að ræða líklega getu, heldur þarf að setja fram dæmi um árangur. Kjarni flestra spurninga í atvinnuviðtali flokkast undir eftirfarandi sex þætti:

  1. Af hverju sóttir þú um þetta starf? Hvers vegna ertu komin til okkar / okkar fyrirtækis? Hvaða markmið hefur þú hvað starfsferil þinn varðar?
  2. Hvað getur þú boðið okkur? Hvaða þekkingu, reynslu og hæfni kemur þú með? Hvernig mun þér að takast að leysa viðfangsefnin sem starfið ber með sér?
  3. Hversu vel skilur þú okkur / reksturinn / starfsemina? Skilur þú út á hvað reksturinn / starfsemin gengur? Skilur þú út á hvað starfið gengur? Hvað skiptir máli að leysa vel af hendi?
  4. Hver ertu? Hvers kyns persónuleika hefur þú? Munt þú falla vel að fyrirtækjabrag okkar?
  5. Af hverju þú? Af hverju eigum við að ráða þig frekar en einhvern annan sem hefur sömu menntun og reynslu? Hvað einkennir þig? Hvað gerir þig ólíkan öðrum?
  6. Hvað ferð þú fram á ef þér verður boðið starfið? Hvaða launakröfur setur þú? Hvernig þarf að hvetja þig og styðja við svo þú sjáir okkur sem þinn framtíðarstarfsvettvang?

Umsækjendur ættu að fylgjast með því hvenær „tíðin" breytist í atvinnuviðtali. Hefðbundið þá byrja atvinnuviðtöl í „þátíð", það er að segja spurt er út í fortíðina. Ferilskráin er skrifuð í þátíð, hún gerir grein fyrir því sem liðið er. Rannsóknir sýna hins vegar að atvinnurekendur vilja þó fremur dvelja við nútíðina og framtíðina. Þannig að atvinnuviðtöl snúast því skjótt úr því að fjalla um það liðna yfir í að fjalla um daginn í dag og svo framtíðina. Skynsamlegt er að reyna að koma með hugmyndir að því sem hægt er að gera í viðkomandi starfi, stutt rökum af árangri á fyrri vettvangi.

Ef samræðurnar komast í lið sex hér að ofan, er ljóst að atvinnurekandinn er áhugasamur um umsækjandann. Enginn fer að ræða kaup og kjör nema umsækjandi sé líklegur kandidat. Á þessu stigi er þó ekki rétti tíminn til þess að nefna lægstu upphæð sem umsækjandi er reiðubúinn að sætta sig við. Umræðan á að snúast um þau verðmæti sem umsækjandi getur framreitt. Ef atvinnurekandinn sækir enn á umsækjandann um launatölu, þá á að biðja atvinnurekandann um að nefna hvað hann hafði í huga þegar starfið var auglýst. Það er sjálfsagt og nauðsynlegt að hafa unnið heimavinnuna og þekkja hvað greitt er fyrir sambærileg störf. Slíkar upplýsingar er oft að finna hjá fagfélögum og stéttarfélögum. Ef atvinnurekandi nefnir launaupphæð, ætti umsækjanda að nefna strax hærri upphæð á móti. Atvinnurekendur eru kaupendur að þjónustu (vinnu) starfsfólks og þeim líður betur ef þeim tekst að draga launahugmyndir umsækjanda eitthvað niður. Hins vegar er skynsamlegast að komast frá fyrsta viðtali án þess að ræða launamálin. Biðja heldur um tíma til að hugsa og fá að taka málin fyrir á næsta fundi. Ef atvinnurekandinn hefur raunverulega áhuga á umsækjanda þá bíður hann.

Það sem einum finnst vera erfið spurning kann öðrum að finnast vera létt spurning. Hins vegar sýna rannsóknir að ákveðnar tegundir af spurningum reynast mörgum snúnar. Hér á eftir fara nokkrar.

  1. „Segðu okkur frá þér sjálfri/sjálfum". Spurning sem þessi er algeng í upphafi atvinnuviðtals en mörgum bregður engu að síður í brún. Þeir hafa ekki hugsað þessa þetta í gegn. Hér er ekkert annað að gera en að hafa skrifað niður hálfrar síðu svar og muna það.
  2. „Hvar sérðu sjálfa(n) þig eftir fimm ár?". Hér verður umsækjandi að hafa átt sjálfsskoðun. Hugmyndin er að ræða hvað umsækjandinn vill læra, fást við, hvernig þroskast og hvaða árangri hafa náð.
  3. „Af hverju viltu þetta starf?". Ávallt er verið að leita eftir aðila sem veit af hverju hann/hún vill viðkomandi starf. Jafnvel hefur atvinnurekandinn jafnframt í huga hvers vegna umsækjandi hefur áhuga á fyrirtækinu sem slíku og jafnvel atvinnugreininni.
  4. „Hvers konar persónuleika hefur þú að geyma?". En leið til að svara þessari spurningu er að nefna þætti þar sem umsækjandinn hefur breytt hlutum til betri vegar (eða náð árangri) og nefna hvað af persónueiginleikunum komu að gagni. Almennt þarf umsækjandi að koma vel vopnum búinn hvað dæmi varðar.
  5. „Af hverju fórstu úr síðasta starfi?". Atvinnurekendur vilja vita ástæður þess að umsækjandi er að skipta um starf. Hér þarf umsækjandi að æfa stutt, skýrt og jákvætt svar. Ekki ljúga. Það hendir flesta að skipta um starf og marga að missa starf. Það skiptir máli að koma hreint fram en muna að setja hlutina í jákvætt samhengi.
  6. „Hvernig vegnar þér undir álagi?". Umsækjandi þarf að eiga dæmi til að nefna. Þau geta bæði komið úr starfsreynslu en líka félagslífi og skóla.
  7. „Hvernig muntu ....?". Hér er framtíðin rædd. Umsækjandi er settur í aðstæður og beðinn um að svara því hvernig viðfangsefni skal vera leyst. Leiðin til undirbúnings er að hafa séð fyrir hvers starfið krefst.
  8. „Hvað þarftu að fá í laun?". Í raun er þetta gölluð spurning. Hún reynir að fá umsækjandann til að nefna lágmarksupphæð, en ekki upphæð sem fundin er út frá getu og hæfni viðkomandi eða því sem sambærilegt starf borgar. Umsækjandi þarf að hafa hugmynd um hvað greitt er fyrir sambærilegt starf.
  9. „Hverjir eru veikleikar þínir?". Það þarf að hafa það í huga að almennt er verra að tala um það neikvæða heldur en það jákvæða. Það skiptir máli að dvelja ekki um of við neikvæða þætti heldur að reyna að koma og halda umræðunni á jákvæðum nótum.

Rannsóknir sýna að það eru fyrstu og seinustu mínútur viðtals sem atvinnurekendur mun best eftir. Því ber að undirbúa með hvaða hætti loka skuli atvinnuviðtali. Það má gera með því að spyrja fáeinna spurninga um starfið, fyrirtækið og umhverfi þess. Það gefur umsækjandanum tækifæri til að fjalla um hluti sem hann vill koma áleiðis og það sýnir að umsækjandi er vel að sér um starfið og umhverfi þess.