Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Atvinnuleysi heldur áfram að minnka

Atvinnuleysi hefur ekki verið lægra síðan að Kórónuveiran skall á. Í byrjun árs hafði atvinnuleysi aldrei mælst meira og ef ekki hefði verið fyrir hlutabótaleiðina hefði atvinnuleysi að jafnaði verið um 2% hærra. Ef ferðamannastraumurinn heldur áfram hingað til lands mun atvinnuleysi halda áfram að minnka líkt og síðustu mánuði.


Samkvæmt nýbirtum tölum Vinnumálastofnunar mældist skráð atvinnuleysi 6,1% í júlí og dróst því talsvert saman frá júnímánuði þegar það mældist 7,4%. Atvinnuleysi hefur farið minnkandi frá því að það mældist hæst 11,6% í janúar á þessu ári.

Almennt atvinnuleysi minnkaði allstaðar á landinu. En líkt og fyrri daginn mælist atvinnuleysi mest á Suðurnesjum eða um 11% en hefur þó farið hjaðnandi jafnt og þétt frá því það var 26% í janúar. Stór hluti starfa á Suðurnesjum eru tengd ferðaþjónustu sem skýrir þetta mikla atvinnuleysi á svæðinu. Næst mest var atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu eða um 6,7% og lækkar um rúm 1% milli mánaða.

Hlutabótaleiðin var úrræði stjórnvalda til að stemma stigu við efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins og lauk í maí síðastliðnum. Atvinnuleysistölur síðustu mánuði er því heildaratvinnuleysi. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að enn dragi úr atvinnuleysi á næstunni vegna aukinna umsvifa í ferðaþjónustu sem og sérstaks atvinnuátaks stjórnvalda.

Hversu vel heppnaðist hlutabótaleiðin?

Það er engum blöðum um það að fletta að Kórónukreppan hefur haft mikil áhrif á vinnumarkaðinn. Á fyrsta fjórðungi þessa árs mældist atvinnuleysi án hlutabótaleiðarinnar 11,3% og hefur aldrei mælst hærra. Fyrir faraldurinn voru í kringum 15% starfa á vinnumarkaði beintengd ferðaþjónustu, þess utan höfðu samkomutakmarkanir áhrif á ýmis önnur störf. Eitt af úrræðum stjórnvalda, hlutabótaleiðin, var í gildi frá 15. mars 2020 til 31. maí 2021 og hefur því runnið sitt skeið.

Í heild kostaði úrræðið um 28 milljarða og alls fengu 36.500 starfsmenn frá 6.700 atvinnurekendum bætur. Langumfangsmesti mánuðurinn var apríl 2020 þegar um 33 þúsund starfsmenn voru skráðir í minnkað starfshlutfall. Kostnaður hins opinbera í þeim mánuði nam um 30% af heildarkostnaði hlutabótaleiðarinnar eða um 9 milljörðum.

Stjórnvöld ákváðu að herða skilyrði úrræðisins eftir að upp komst um fyrirtæki sem voru að nýta sér úrræðið að óþörfu. Við það minnkaði fjöldi þeirra sem voru á hlutabótaleiðinni talsvert. Að apríl undanskildum voru að meðaltali um 5.600 einstaklingar á hlutabótaleiðinni yfir 12 mánaða tímabil. Ef slíkur fjöldi hefði orðið atvinnulaus hefði atvinnuleysi verið að jafnaði rúmlega 2% hærra.

Flestir á hlutabótum í ferðatengdum greinum

Samkvæmt Vinnumálastofnun fækkaði atvinnulausum í júlímánuði í öllum starfsgreinum frá mánuðinum á undan og sérstaklega í ferðatengdum atvinnugreinum eða á bilinu 22%-25%. Munar þar mestu um aukningu í fjölda ferðamanna sem og afnám samkomutakmarkana.

Faraldurinn bitnaði einna helst á þeim greinum sem tengjast ferðaþjónustu eða þurftu að skerða framboð sitt vegna samkomutakmarkana. Það kemur því ekki á óvart að atvinnugreinar við veitinga-, ferða- og gistiþjónustu nýttu sér hlutabótaleiðina hlutfallslega mest líkt og sést hér á myndinni.

Framhaldið á vinnumarkaði

Þrátt fyrir umtalsverðan kostnað hins opinbera af hlutabótaleiðinni má segja að hún hafi skilað tilsettu markmiði. Atvinnuleysi náði hæstu hæðum í sögulegu samhengi í Kórónukreppunni en ljóst er að það hefði orðið talsvert hærra ef ekki hefði verið fyrir úrræði stjórnvalda. Auk hlutabótaleiðarinnar voru einnig önnur úrræði á borð við tekjutengdar atvinnuleysisbætur og „Hefjum störf“ en allt eru þetta úrræði sem hafa hjálpað heimilum og fyrirtækjum að halda dampi í faraldrinum.

Samkvæmt Vinnumálastofnun voru um 60% auglýstra starfa í júlí þjónustustörf eða verkafólk í þjónustu. Stór hluti þessara starfa tengist ferðaþjónustu með einhverjum hætti og með auknum fjölda ferðamanna hingað til lands mun eftirspurn eftir vinnuafli halda áfram að aukast. Ferðamenn sem hingað koma þurfa að sýna bólusetningarvottorð sem og framvísa neikvæðu COVID prófi áður en haldið er til landsins, en þrátt fyrir það hefur fjöldi ferðamanna stóraukist. Samkvæmt Ferðamálastofu hafa komið um 184 þúsund ferðamenn hingað til lands frá áramótum og langflestir eða um 110 þúsund komu í júlí. Þrátt fyrir að Ísland hafi nýlega orðið rautt á korti Sóttvarnarstofnunar Evrópu teljum við að ferðamannastraumurinn muni halda áfram. Verði það raunin mun atvinnuleysi fara ört lækkandi líkt og það hefur gert síðustu mánuði. Við í Greiningu Íslandsbanka erum enn bjartsýn á framhaldið og teljum að atvinnuleysi muni halda áfram að lækka jafnt og þétt á næstu mánuðum og mælast 8,8% að meðaltali í ár og 5,2% á næsta ári.

 

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband

Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur


Hafa samband