Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Atvinnuleysi aftur í góðærisgildum

Vinnumarkaður hefur jafnað sig merkilega hratt og er atvinnuleysi komið aftur á sömu slóðir og fyrir faraldur eftir að hafa aukist talsvert í faraldrinum. Spennu gætir á vinnumarkaði en yfir helmingur stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins telja skort vera á starfsfólki hjá sínu fyrirtæki. Erlent starfsfólk mun líklega manna þessi störf í auknum mæli á næstunni.


Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru 210.400 manns starfandi á vinnumarkaði á þriðja fjórðungi þessa árs og mældist atvinnuþátttaka 79,8%. Frá sama ársfjórðungi árinu áður hefur starfsfólki fjölgað um um 7.300 manns og samhliða hefur mannfjöldi hér á landi aukist um hálft prósentustig.

Samkvæmt könnuninni voru að meðaltali 7.300 einstaklingar atvinnulausir á tímabilinu og mælist atvinnuleysi nú 3,4%. Atvinnuleysi hefur ekki mælst lægra á þennan mælikvarða síðan á lokafjórðungi ársins 2018. Þetta rímar nokkuð vel við tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi. Á þriðja ársfjórðungi mældist skráð atvinnuleysi 3% og í september var atvinnuleysi komið niður í 2,8%. Skráð atvinnuleysi hefur heldur ekki mælst svo lágt síðan í lok árs 2018.

Á undanförnum árum hefur vinnutími styst talvert sem er stærstum hluta vegna þess að samið var um styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningum. Frá því að lífskjarasamningar voru undirritaðir á vordögum 2019 hefur vinnustundum á viku fækkað um ríflega 2 klukkustundir og eru vinnustundirnar nú orðnar 37,5 í viku hverri að meðaltali. Vinnustundir geta þó sveiflast talvert milli ársfjórðunga og ef litið er til ársmeðaltala hefur vinnustundum fækkað um 3 klukkutíma frá árinu 2019.

Spennu gætir á vinnumarkaði

Vinnumarkaðurinn hefur jafnað sig merkilega hratt sé litið til þess hverjar horfur voru í upphafi faraldurs. Hraður efnahagsbati hefur orðið til þess að störfum hefur fjölgað mikið og atvinnuleysi hjaðnað jafn hratt og raun ber vitni. Ef eitthvað er virðist skortur á starfsfólki frekar vera vandamál en hitt. Samkvæmt nýlegri könnun Gallup fyrir Seðlabankann og SA meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins telja 56,5% fyrirtækja skort vera á starfsfólki. Þetta hlutfall hefur ekki verið hærra frá því að mælingar hófust árið 2006.

Mestur er skorturinn í byggingargeiranum en um 80% stjórnenda slíkra fyrirtækja töldu skort vera á starfsfólki. Næst mælist skortur á starfsfólki mestur hjá fyrirtækjum í verslunargeiranum (75%) og svo í ferðaþjónustu (72%).

Metfjöldi erlends starfsfólks á vinnumarkaði

Íslenska hagkerfið er að rétta úr kútnum eftir faraldurinn og útlit er fyrir talsverðan vöxt í greinum á borð við ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi, þar sem skortur á starfsfólki virðist vera sem mestur. Þessi lausu störf virðast í auknum mæli vera mönnuð af erlendu starfsfólki. Á þriðja ársfjórðungi voru tæplega 46 þúsund innflytjendur á vinnumarkaði sem gerir um 21% af öllu vinnuafli hérlendis og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Miðað við þörfina fyrir starfsfólk í þessum atvinnugreinum má ætla að þetta hlutfall muni halda áfram að aukast á næstu misserum.

Atvinnuleysi hefur nú jafnað sig að fullu eftir faraldurinn og gætir talsverðrar spennu á vinnumarkaði. Ljóst er að þörf er á erlendu starfsfólki hingað til lands til að leysa störf í okkar helstu atvinnugreinum. Í mikilli verðbólgu og með talsverða spennu á vinnumarkaði er ljóst að kjaraviðræður komandi vikna og mánaða verða veruleg áskorun.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband