Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Atvinnuástand á árinu 2022 framar vonum

Vinnumálastofnun birti í gær atvinnuleysistölur fyrir desember síðastliðinn. Að meðaltali mældist skráð atvinnuleysi á nýliðnu ári 3,9% og svipar til ársins 2019. Atvinnuástandið á árinu 2022 er framar vonum miðað við horfur í upphafi faraldursins. Líkur eru á að atvinnuleysi minnki enn frekar á næstu misserum.


Samkvæmt nýlegum tölum Vinnumálastofnunar mældist skráð atvinnuleysi 3,4% í desember sem er svipað og í nóvembermánuði þegar það mældist 3,3%. Vinnumálastofnun leiðrétti tölur frá júní til október 2022 þar sem atvinnuleysi reyndist hærra í þeim mánuðum en stofnunin hafði áður gefið út.

Atvinnuleysi jókst allstaðar á landinu í desember nema á Norðurlandi vestra þar sem það minnkaði um 0,2%. Eins og fyrri daginn mælist atvinnuleysi mest á Suðurnesjum eða 6% og næst mest á höfuðborgarsvæðinu eða um 3,5%. Minnst er atvinnuleysi á Norðurlandi vestra í 1,1%.

Vinnumarkaði svipar til ársins 2019

Atvinnuástandið á árinu 2022 er framar vonum miðað við horfur í upphafi faraldursins. Að meðaltali mældist atvinnuleysi 3,9% á árinu og hefur ekki verið minna frá árinu 2019 þegar það var 3,6%. Vinnumarkaður hefur jafnað sig hratt en skráð atvinnuleysi var í kringum 8% bæði árin 2020 og 2021, ef ekki er tekið tillit til þeirra sem voru á hlutabótaleiðinni svokölluðu.

Merki eru um að atvinnuleysi muni minnka enn frekar á þessu ári. Útlit er fyrir talsverðan vöxt í greinum eins og byggingarstarfsemi, en þar virðist skortur á starfsfólki vera einna mestur. Samkvæmt nýlegri könnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins telja 53% fyrirtækja skort vera á starfsfólki. Hlutfallið er aðeins lægra en það var í september en mælist þó hátt sögulega séð. Fyrir utan annan og þriðja fjórðung nýliðins árs hefur hlutfallið aðeins einu sinni mælst hærra og það var árið 2007.

Mestur er skorturinn í byggingargeiranum en um 78% stjórnenda slíkra fyrirtækja töldu skort vera á starfsfólki. Næst mestur mælist skortur á starfsfólki hjá fyrirtækjum í verslunargeiranum (63%). Athyglisvert er að skortur á starfsfólki í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu mælist aðeins 29% og hefur minnkað talsvert frá síðustu könnun. Helsta skýringin á því er að ferðaþjónustan er langstærst á sumrin og líklegt að þetta hlutfall hækki talsvert þegar líða tekur nær sumri.

Framhaldið á vinnumarkaði

Í þjóðhagspá Greiningar frá því í september spáðum við því að atvinnuleysi yrði að meðaltali 3,8% á nýliðnu ári . Sú spá reyndist nokkuð nærri lagi. Það gætir nokkurrar spennu á vinnumarkaði um þessar mundir og munu laus störf líklegast í auknum mæli vera mönnuð af erlendu starfsfólki. Í þjóðhagsspánni spáðum við að atvinnuleysi myndi vera að jafnaði 3,2% árið 2023 og 3,6% árið 2024. Við erum enn þeirrar skoðunar að það sé líkleg niðurstaða.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband