Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Átt þú næsta tækifæri?

Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka er virkur þátttakandi í öflugu styrkjaumhverfi frumkvöðla. Frá árinu 2019 hefur sjóðurinn tekið á móti um 600 umsóknum og úthlutað 166 milljónum króna til 63 verkefna.


Öflug nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi er ein af lykilforsendum blómlegs atvinnulífs á Íslandi. Hér þurfum við að halda áfram að byggja upp og hlúa að þekkingarsamfélagi þar sem fólk getur komið frábærum hugmyndum á framfæri og fundið vettvang  til að keyra þær áfram. Um er að ræða málaflokk sem verðskuldar fulla athygli, enda gríðarlega mikilvægur. Nýsköpun er forsenda tækniþróunar og hagvaxtar. Nýsköpun varðar leiðina að bættara samfélagi í víðasta skilningi þess orðs.

Sjaldan hefur nýsköpunar- og frumkvöðlavirkni verið eins kröftug á Íslandi og nú. Samhliða hefur styrkjaumhverfið styrkst, sem og almenn ráðgjöf og fræðsla. Sumir segja að sjaldan hafi verið eins gott að vera frumkvöðull á Íslandi. Enda er það svo að það líður varla sú vika að ekki séu fréttir af frumkvöðlum og fyrirtækjum sem skara fram úr á þessu sviði. Greint er frá bæði litlum og stórum sigrum, og meira að segja nýverið Íslandsmeti í verðmætasköpun hjá Kerecis. Allir sem þekkja sögu Kerecis fyllast lotningu og stolti yfir ævintýralegum árangri fyrirtækisins, frá hugmynd sem hófst með einnar milljónar krónu styrk frá Tækniþróunarsjóði fyrir 16 árum síðan.

Í starfi mínu hjá Íslandsbanka hef ég fengið að fylgjast með mörgum þessara fyrirtækja og bankinn fengið að taka þátt í að vera hreyfiafl margra verkefna og fyrirtækja, út um allt land. 

Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka er virkur þátttakandi í öflugu styrkjaumhverfi frumkvöðla. Frá árinu 2019 hefur sjóðurinn tekið á móti um 600 umsóknum og úthlutað 166 milljónum króna til 63 verkefna. Við hverja úthlutun fáum við um 100 umsóknir sem er lýsandi fyrir þann kraft sem býr í nýsköpun á Íslandi. Hver úthlutun er á bilinu ein til fimm milljónir króna. Dæmin sýna að hver milljón getur gert kraftaverk og því getur þín hugmynd vel orðið næsta tækifæri Íslands.

Una Steinsdóttir
Framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs og
stjórnarformaður Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka

Una Steinsdóttir

Framkvæmdastjóri viðskiptabanka


Senda tölvupóst