„Ég fór að láta jafnréttismál til mín taka þegar ég kom heim úr háskólanámi. Maður var búinn að fara í gegnum menntaskóla og háskóla haldandi það að þetta væri nokkurn veginn komið og að við strákarnir og vinkonur okkar ættum sömu tækifærin, t.d. á vinnumarkaði. Svo kom í ljós að það var ekki þannig.“
Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og stjórnarmaður í UN Women á Íslandi, í kynningarmyndbandi UN Women á Íslandi um jafnréttismál. Myndbandið er hluti af samstarfsverkefni Íslandsbanka og UN Women á Íslandi. Íslandsbanki vinnur sem kunnugt er að fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og er jafnrétti eitt af þeim markmiðum.
Í myndbandinu greinir Ólafur frá því að hann varð þess var að þegar vinkonur hans fóru í atvinnuviðtöl fengu þær spurningar sem strákar á hans aldri fengu ekki. Spurningar á borð við; „Átt þú börn?“ og „Ætlar þú að eignast börn?“ Þá segir hann að sumir atvinnurekendur hafi sagt hreint úr að mæður væru lélegri starfskraftar en feður því þær væru bundnar yfir börnum.
„Allt í einu small þetta saman í hausnum á mér þessi vítahringur, konur eru frekar bundnar heima yfir börnum og heimili, þess vegna fá þær minni tækifæri á vinnumarkaði og lægri laun,“ segir Ólafur.
„Þegar það kemur síðan að því að ákveða hver á að vera heima með litlum börnum þá er það frekar konan því hún er með lægri laun og þannig heldur vítahringurinn áfram. Ég hugsaði með mér hvað ég gæti gert til að rjúfa þennan vítahring. Ég segi stundum að ég hafi barist fyrir því að gera karla að jafn lélegum starfskröfum og konur, ég sem sagt fór að berjast fyrir fæðingarorlofi feðra og náði að taka mér eitt slíkt sjálfur með velvilja minna vinnuveitenda, áður en það komst í lög.“
Ólafur segir að hann myndi gefa yngri útgáfunni af sjálfum sér þau ráð biðjast alls ekki afsökunar á því að ætla að sinna börnunum sínum til jafns við móður þeirra eða hafa nokkrar áhyggjur af því hvernig hann færi að því.
„Ég held að alltof margir ungir pabbar í dag séu að reyna að gera hlutina eins og þeir sjá mömmurnar gera þá. Menn eiga bara að vera pabbar, gera það með stolti og óháðir einhverjum staðalmyndum,“ segir Ólafur.