Stýrivextir Seðlabankans hafa ekki verið lægri frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp sem meginmarkmið peningastefnu. Vaxtalækkunin er í samræmi við spár greiningadeilda og hafa vextir nú lækkað um 1% frá áramótum.
Ásgeir Jónsson, nýskipaður seðlabankastjóri, byrjar því setu sína í peningastefnunefnd á því að lækka vexti. Hann hefur gefið það út í viðtölum að það kunni að vera aukið svigrúm til frekari vaxtalækkana.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir: „Verðbólga var 3,4% á öðrum fjórðungi ársins en minnkaði í 3,1% í júlí. Undirliggjandi verðbólga hefur þróast með áþekkum hætti. Horfur eru á að verðbólga hjaðni hraðar en spáð var í maí og að hún verði komin í markmið á fyrri hluta næsta árs. Gengi krónunnar hefur hækkað um liðlega 2% milli funda og gjaldeyrismarkaður verið í ágætu jafnvægi. Verðbólguvæntingar hafa lækkað í markmið frá síðasta fundi og taumhald peningastefnunnar því aukist lítillega.“