Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ásgeir lækkar vexti í fyrstu atrennu

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu lækkaðir um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga innlánum, eru nú 3,50%.


Stýrivextir Seðlabankans hafa ekki verið lægri frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp sem meginmarkmið peningastefnu. Vaxtalækkunin er í samræmi við spár greiningadeilda og hafa vextir nú lækkað um 1% frá áramótum.

Ásgeir Jónsson, nýskipaður seðlabankastjóri, byrjar því setu sína í peningastefnunefnd á því að lækka vexti. Hann hefur gefið það út í viðtölum að það kunni að vera aukið svigrúm til frekari vaxtalækkana.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir: „Verðbólga var 3,4% á öðrum fjórðungi ársins en minnkaði í 3,1% í júlí. Undirliggjandi verðbólga hefur þróast með áþekkum hætti. Horfur eru á að verðbólga hjaðni hraðar en spáð var í maí og að hún verði komin í markmið á fyrri hluta næsta árs. Gengi krónunnar hefur hækkað um liðlega 2% milli funda og gjaldeyrismarkaður verið í ágætu jafnvægi. Verðbólguvæntingar hafa lækkað í markmið frá síðasta fundi og taumhald peningastefnunnar því aukist lítillega.

Spá minni samdrætti í ár

Uppfærð hagspá Seðlabankans gerir ráð fyrir 0,2% samdrætti í ár en fyrri spá bankans, sem birt var í maí síðastliðnum, gerði ráð fyrir 0,4% samdrætti. Munurinn felst að mestu leyti af þróttmeiri vexti einkaneyslu ásamt hagstæðari utanríkisviðskiptum sem vegur upp á móti samdrætti í ferðaþjónustu. Bankinn spáir því að vöru- og þjónustujöfnuður verði 3,2% í ár (var 1,9% í maí) og 1,6% á næsta ári (var 0,5% í maí).

Ferðaþjónustan lengur í lægð

Í spá bankans kemur einnig fram að hagvaxtarhorfur fyrir næsta ár hafi versnað þar sem það taki ferðaþjónustuna lengri tíma að ná sér í strik eftir áföll ársins. Bankinn spáir 1,9% hagvexti árið 2020 (var 2,4% í maí) og 2,7% hagvexti árið 2021 (var 2,6% í maí). Það er í takti við þjóðhagsspá okkar frá því í júní, en við gerum ráð fyrir að það taki hagkerfið lengri tíma að rétta úr kútnum og að hagvöxtur verði 1,5% árið 2020 og 2,7% árið 2021.

Annað vaxtalækkunarskref líklegt á árinu?

Í ljósi batnandi verðbólguhorfa og samdráttar sem gæti varað lengur spáum við að peningastefnunefnd muni lækka stýrivexti um aðra 25 punkta á næstunni.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar segir: „Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.“

Sé tekið mið af verðbólguspá okkar og vaxandi þörf fyrir peningalegan slaka meðan hagkerfið réttir úr kútnum eru að mati okkar líkur á að peningastefnunefndin muni lækka vexti um aðra 25 punkta á þessu ári eða í byrjun næsta árs. Við gerum ráð fyrir að vextirnir muni svo haldast á þessum slóðum út næsta ár.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Sérfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Fyrirvari

Efni þetta er unnið af starfsmönnum Íslandsbanka. Upplýsingar í samantekt þessari eru upprunar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum sem og uppgjörum viðkomandi félaga og upplýsingum frá Kauphöll Íslands sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu og mati á hverjum tíma. Íslandsbanki ábyrgist þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.  Efni þetta er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á það sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn hans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í efni þessu. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta af ýmsu tagi, m.a. vegna gengisflökts gjaldmiðla. Samanburður getur skekkst að einhverju leiti vegna breytinga í gengiskrossum. Hafa þarf í huga að viðskiptakostnaður hefur áhrif þegar heildararðsemi er mæld sé um slíkan samanburð að ræða. Efni þetta er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í því sé að finna allar tiltækar upplýsingar um viðfangsefnið.  Bent skal á að árangur í fortíð er ekki áreiðanleg vísbending um né trygging fyrir árangri í framtíð.