Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ársverðbólga mælist 6,7%

Verðbólga heldur áfram að aukast. Verðbólga mælist nú 6,7% og hefur ekki mælst meiri í nærri tólf ár. Útlit er fyrir að ekki dragi að ráði úr verðbólgu fyrr en á næsta ári.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,94% í mars skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga mælist nú 6,7% en var 6,2% í febrúar síðastliðnum. Verðbólga hefur ekki mælst meiri frá því í maí 2010. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,82% og miðað við þá vísitölu mælist 4,6% verðbólga undanfarna 12 mánuði.

Mæling marsmánaðar er undir okkar spá. Við spáðum 1,1% hækkun VNV á milli mánaða en birtar spár voru á bilinu 0,9%-1,2% hækkun milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er reiknaða húsaleigan sem hækkaði meira en við væntum. Á móti stóð verð á flugfargjöldum í stað en við spáðum hækkun í þeim lið.

Íbúðaverð heldur áfram að hækka

Eins og fyrri daginn vó hækkun húsnæðisliðar þungt í heildarhækkun VNV í mars. Reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar húsnæðisverðið að mestu, skýrir þessa hækkun að stærstum hluta og hækkaði reiknaða húsaleigan um 2,0% (0,35% áhrif á VNV).

Reiknaða húsaleigan samanstendur af markaðsverði íbúðarhúsnæðis annars vegar og vaxtaþróun verðtryggðra íbúðalána hins vegar. Vaxtaþáttur reiknuðu húsaleigunnar hefur nú síðustu tvo mánuði vegið á móti hækkun á íbúðaverði. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði alls um 2,3% á milli mánaða samkvæmt gögnum Hagstofu. Mánaðarhækkunin var mest á landsbyggðinni (2,5%) en minnst á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (2,1%). Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu um 2,1% milli mánaða.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 19,1%. Hækkunin á þennan mælikvarða hefur ekki verið hraðari frá því á haustmánuðum 2017. Mest (21,1%) hefur verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað á þennan mælikvarða. Verð á íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 19% á sama tíma og íbúðaverð á landsbyggðinni um 17,8%. Um þessar mundir virðist því ekkert lát vera á íbúðaverðshækkunum víðast hvar á landinu öllu.

Innflutt verðbólga og útsölulok

Að húsnæðisliðnum undanskildum var það hækkun á eldsneytisverði sem vó þyngst í marsmánuði. Eldsneytisverð hækkaði um 8,2% (0,27% áhrif á VNV) samhliða því að ýmis ríki beittu Rússland viðskiptaþvingunum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Fatnaður og skór hækkaði í verði um 5,3% (0,2% áhrif á VNV) vegna áhrifa útsöluloka en liðurinn hækkaði lítið í síðasta mánuði. Verð á matar- og drykkjarvörum hækkaði um 0,6% (0,1% áhrif á VNV) vegna verðhækkana erlendis. Það er þó hægasta hækkun á liðnum frá því í nóvember. Einnig hækkaði verð á öðrum vörum og þjónustu um 0,7% (0,05% áhrif á VNV) á milli mánaða.

Mikil verðbólga áfram í kortunum

Verðbólga mælist nú í toppi og hefur ekki mælst meiri frá því í maí 2010. Húsnæðisliður og innfluttar vörur eru þessa dagana helstu hækkunarvaldar í vísitölu neysluverðs og verða það væntanlega áfram næsta kastið. Innflutt verðbólga er tvíþætt um þessar mundir: Bæði eiga verðhækkanir sér stað vegna áhrifa Úkraínustríðsins en einnig gætir enn áhrifa faraldursins á framleiðslukeðjur og flutninga á heimsvísu.

Horfur eru á að verðbólga verði áfram mikil næsta kastið og að ekki fari að draga úr henni að ráði fyrr en á næsta ári. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir um 0,7% hækkun vísitölunnar í apríl, 0,6% hækkun í maí og 0,5% hækkun í júní. Gangi spá okkar eftir mælist verðbólga 7,3% í júní.

Enn er gríðarleg óvissa um hversu langvinn hækkunin erlendis verður og í hvaða mæli styrking krónu muni vega á móti en við gerum ráð fyrir styrkingu krónu síðar á árinu þegar fleiri ferðamenn taka að streyma til landsins.

Mikilvægt er fyrir þróun VNV, og raunar ein helsta forsenda í langtímaspá okkar, að hægja taki á íbúðaverðshækkunum á næstunni þar sem hægari taktur íbúðaverðs mun vega á móti aukinni innfluttri verðbólgu. Einnig gerum við ráð fyrir því að kjarasamningar sem losna undir lok ársins verði fremur hóflegir. Spá okkar hljóðar upp á 6,9% verðbólgu að meðaltali árið 2022, 4,2% árið 2023 og 2,8% að jafnaði árið 2024.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband