Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ársuppgjör 2017

Hagnaður eftir skatta var 13,2 ma. kr. samanborið við 20,2 ma. kr. árið 2016. Munurinn skýrist aðallega af einskiptistekjum af sölu Borgunar á hlutum í Visa Europe 2016. Arðsemi eigin fjár var 7,5% á árinu, samanborið við 10,2% árið 2016.


Helstu atriði í uppgjöri ársins 2017

 • Hagnaður eftir skatta var 13,2 ma. kr. samanborið við 20,2 ma. kr. árið 2016. Munurinn skýrist aðallega af einskiptistekjum af sölu Borgunar á hlutum í Visa Europe 2016. Arðsemi eigin fjár var 7,5% á árinu, samanborið við 10,2% árið 2016.
 • Hagnaður af reglulegri starfsemi var 13,8 ma. kr. samanborið við 15,1 ma. kr.árið 2016.
 • Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 15% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 10,3% á árinu 2017, samanborið við 10,7% árið 2016.
 • Hreinar vaxtatekjur voru 30,0 ma. kr. (2016: ISK 31,8 ma. kr.), sem er 5,7% lækkun milli ára. Vaxtamunur var 2,9% (2016: 3,1%).
 • Hreinar þóknanatekjur voru 13,8 ma. kr. samanborið við 13,7 ma. kr. árið 2016, sem er 0,2% hækkun milli ára.
 • Stjórnunarkostnaður var 27 ma. kr., örlítið hærri en árið 2016. Þegar einskiptiskostnaður er undanskilinn hækkar kostnaður um 4,5% sem þýðir raunhækkun um 2,7% sé tillit tekið til verðbólgu. Þetta má aðallega rekja til fjárfestingar í tæknibúnaði þar á meðal Sopra kerfinu sem mun leysa af hólmi eldri grunnkerfi innlána og greiðslumiðlunar. Höfuðstöðvar bankans voru sameinaðar í nýjum höfuðstöðvum í Norðurturni í Kópavogi sem hafði tímabundinn viðbótarkostnað í för með sér.
 • Kostnaðarhlutfall var 62,5% (2016: 56,9%), en sértækur bankaskattur og einskiptiskostnaður eru undanskildir við útreikning kostnaðarhlutfalls.
 • Heildar eignir voru 1.036 ma. kr. (sept17: 1,078 ma. kr.). Útlán til viðskiptavina og lausafjársafn bankans voru samtals 92% af stærð efnahagsreiknings við lok tímabilsins.
 • Útlán til viðskiptavina jukust um 9,8% (67,3 ma. kr.) á árinu og voru 755 ma. kr. í lok árs. Ný útlán voru 199 ma. kr. á árinu og dreifðust vel á milli viðskiptaeininga bankans.
 • Gæði eignasafns bankans halda áfram að batna, en hlutfall lána í vanskilum umfram 90 daga var 1,0% (sept17: 1,1%).
 • Innlán frá viðskiptavinum lækkuðu á árinu sem er í samræmi við væntingar um 4,6% (27 ma. kr.) og voru 567 ma. kr. í árslok.
 • Eiginfjárhlutfall var 24,1% og eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 22,6% í árslok, samanborið við 22,6% og 22,5% við lok september 2017.
 • Lausafjárstaða bankans er sterk og umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið. Við árslok var lausafjárhlutfallið (LCR) 142% (sept17: 183%) og fjármögnunarhlutfallið (NSFR) var 117% (sept17: 115%).
 •  Vogunarhlutfall var 16,2% við árslok samanborið við 15,3% við lok sept 2017, sem telst hóflegt bæði í innlendum og erlendum samanburði.
 • Íslandsbanki er eini bankinn á Íslandi með lánshæfismat frá tveimur alþjóðlegum lánshæfismatsfyrirtækjum. Í janúar 2017 hækkaði Fitch Ratings mat sitt í BBB/F3 með stöðugum horfum og í október 2017 hækkaði S&P Global Ratings mat sitt í BBB+/A-2 með stöðugum horfum. Fitch staðfesti matið í desember 2017.

Helstu atriði á 4. ársfjórðungi 

 • Hagnaður eftir skatta var 3,1 ma. kr. (4F16: 4,6 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 6,9% á fjórðungnum, samanborið við 9,0% á 4F16.  Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 15% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 8,1% á fjórðungnum (4Q16: 11,7%).
 • Hreinar vaxtatekjur voru 7,3 ma. kr. (4F16: 8,1 ma. kr.) og vaxtamunurinn var 2,8% (4F16: 3,2%).
 • Hreinar þóknanatekjur voru 3,6 ma. kr. (4F16: 3,8 ma. kr.).

Birna Einarsdóttir, bankastjóri

Árið 2017 var tímabil breytinga og uppbyggingar fyrir okkur hjá Íslandsbanka. Við innleiddum nýtt skipulag, fullkláruðum flutning í nýjar höfuðstöðvar og endurnýjuðum grunnkerfi bankans. Við héldum áfram að undirbúa bankann fyrir breytt alþjóðlegt regluverk, tæknilegar áskoranir og að takast á við nýja keppinauta á markaði.

Þrátt fyrir þessar miklu breytingar gekk rekstur bankans mjög vel á árinu. Lánasafn bankans óx um 9,8% og námu ný lán 199 milljörðum króna og skilaði bankinn 13,2 milljarði króna hagnaði eftir skatta með arðsemi af reglulegri starfsemi upp á 10,3% sem er í samræmi við okkar markmið.

Lánshæfismat bankans hækkaði og stigum við frekari skref í átt að hagstæðari fjármagnsskipan með fyrstu víkjandi skuldabréfaútgáfu íslensks fjármálafyrirtækis á erlendum markaði frá árinu 2008.

Bankinn hélt stöðu sinni á árinu sem leiðandi bankastofnun á Íslandi í þjónustu við viðskiptavini en fimmta árið í röð mældist bankinn hæstur í Íslensku ánægjuvoginni og í flestum þáttum þjónustukannana á meðal einstaklinga og fyrirtækja og var jafnframt valinn besti bankinn á Íslandi að mati The Banker.

Við erum spennt að kynna ýmsar nýjungar á komandi misserum sem munu gagnast viðskiptavinum okkar og treysta stöðu Íslandsbanka sem leiðandi fjármálafyrirtækis á Íslandi.

Fjárfestatengsl

Símafundur með fjárfestum á ensku

Markaðsaðilum er boðið upp á símafund í dag, 14. febrúar, kl. 9.30 á ensku. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.

Afkomufundur á íslensku

Í dag, 14. febrúar, kl. 11.30, munu Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri, kynna afkomu bankans á opnum fjárfestafundi og svara fyrirspurnum. Fundurinn fer fram á íslensku og er haldinn á 9. hæð höfuðstöðva bankans að Hagasmára 3. Boðið verður upp á veitingar.

Fjárhagsdagatal og þögul tímabil

Upplýsingar um fjárhagsdagatal bankans og þögul tímabil má finna hér.

Nánari upplýsingar

Hér má finna allt kynningarefni fyrir fjárfesta, s.s. kynningar, tilkynningar, einblöðung, excel og myndband.