Efnahagságrip

Hagvöxtur var myndarlegur á síðasta ári, studdur af örum vexti útflutnings, þróttmikilli einkaneyslu og talsverðum fjárfestingarvexti. Vaxandi þenslumerki grófu þó um sig í hagkerfinu og birtust einkenni þenslunnar meðal annars í spenntum íbúðamarkaði, allnokkrum viðskiptahalla og vaxandi verðbólgu. Horfur eru á hægari vexti íslenska hagkerfisins í ár og aðlögun að jafnvægi í hagkerfinu mun væntanlega endurspeglast í bata í utanríkisviðskiptum, jafnvægi á vinnumarkaði og hjaðnandi verðbólgu.


Árið 2022  

Eftir allmyndarlegan vöxt árið 2021 bætti verulega í hagvaxtartaktinn á árinu 2022. Hagvöxtur mældist 7,4% á fyrstu níu mánuðum ársins og útlit er fyrir að vöxturinn reynist 7,0% á árinu í heild.  

Hraðan hagvöxt 2022 má að verulegu leyti þakka kraftmiklum vexti einkaneyslu, sem óx um 10,9% að raunvirði á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Einkaneysluvöxturinn var studdur batnandi atvinnuástandi, sterkri fjárhagsstöðu þorra heimila, fólksfjölgun og miklum ferðavilja eftir ferðatakmarkanir faraldursins.  

Vöxtur fjármunamyndunar var einnig nokkur á síðasta ári og lætur nærri að hann hafi numið rúmlega 4% á heildina litið. Vöxturinn var borinn uppi af allmyndarlegri aukningu í fjárfestingu fyrirtækja og hins opinbera en líklega skrapp íbúðafjárfesting hins vegar nokkuð saman á árinu 2022. 

Einnig tók útflutningur myndarlega við sér á síðasta ári og er útlit fyrir að útflutningsvöxtur hafi numið tæplega 23% á árinu í heild. Á móti kallaði hraður vöxtur innlendrar eftirspurnar og útflutnings á stóraukinn innflutning og eru horfur á að hann hafi aukist um tæpan fimmtung á árinu 2022. 

Viðskiptahalli meiri en vænst var

Ferðaþjónusta lék lykilhlutverk í vexti útflutnings og vænkaðist hagur hennar hratt eftir að slakað var á sóttvarnartakmörkunum hérlendis sem erlendis undir vetrarlok í fyrra. Alls komu u.þ.b. 1,7 milljón ferðamanna til Íslands á síðasta ári, sem er svipaður fjöldi og árið 2016. Aðrir vaxtarsprotar meðal útflutningsgreina voru meðal annars fiskeldi, hugverka- og upplýsingatæknigeirinn og loðnuafurðir svo eitthvað sé nefnt. Þá sveiflaðist verð á útflutningsafurðum talsvert á liðnu ári, ekki síst álverð sem hækkaði skarpt á fyrri helmingi árs en lækkaði jafnharðan á seinni árshelmingi  

Á innflutningshliðinni var verulegur vöxtur hvort tveggja í vöruinnflutningi og innflutningi á þjónustu. Innflutningur neysluvara og eldsneytis jókst verulega og talsverður vöxtur var einnig í innflutningi á almennum fjárfestingarvörum. Þá fóru landsmenn erlendis í talsvert miklum mæli og voru tíðar utanlandsferðir meðal helstu áhrifaþátta á vöxt innfluttrar þjónustu milli ára. 

Viðskiptahalli var talsverður á síðasta ári, annað árið í röð eftir tæplega áratugar samfelldan viðskiptaafgang. Mikill halli á vöruskiptum og talsverður halli á þáttatekjujöfnuði  réði þar mestu en á móti vó afgangur af þjónustuviðskiptum. Erlend staða þjóðarbúsins rýrnaði nokkuð í fyrra en er þó enn býsna sterk. Námu erlendar eignir að frádregnum erlendum skuldbindingum í árslok tæpum fjórðungi af landsframleiðslu ársins. 

Vinnumarkaður að fullu jafnað sig eftir faraldur

Bati á vinnumarkaði var kraftmikill á liðnu ári. Atvinnuleysishlutfallið lækkaði úr 5,2% í upphafi ársins niður í 3,4% í árslok og er þar með komið á svipaðar slóðir og var fyrir faraldur. Að auki fækkaði þátttakendum í tímabundnum vinnumarkaðsúrræðum mikið á árinu. Þá fjölgaði starfandi á vinnumarkaði um ríflega 7% á árinu 2022 frá árinu áður. 

Laun hækkuðu almennt umtalsvert á síðasta ári. Að jafnaði hækkuðu laun um 8,3%. Var hækkunin hlutfallslega mest hjá lægri tekjuhópum þar sem gildandi kjarasamningar hljóðuðu almennt upp á krónutöluhækkun. Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði runnu flestir út í októberlok og stór hluti launafólks á almennum markaði gerði í kjölfarið samninga við vinnuveitendur sem gilda munu fram í janúar 2024. Kaupmáttur launa lægri tekjuhópa jókst á árinu þrátt fyrir umtalsverða verðbólgu en kaupmáttur þeirra sem hærri tekjur höfðu skrapp hins vegar nokkuð saman. 

Ör vöxtur verðbólgu kallaði á umtalsverða hækkun stýrivaxta 

Gengi krónu var að jafnaði ríflega 3% hærra á síðasta ári en á árinu á undan gagnvart körfu helstu viðskiptamynta. Þróunin innan ársins var þó tvískipt: Frá áramótum fram í sumarbyrjun hækkaði gengi krónu talsvert en lækkaði að sama skapi umtalsvert eftir það. Í árslok 2022 var gengi krónu því nærri 3 prósentum lægra en í upphafi árs. Meiri viðskiptahalli en vænst var, umtalsverð fjárfesting innlendra aðila í erlendum verðbréfum, óhagstæð fjármögnunarskilyrði erlendis á seinni hluta árs og breyttar væntingar voru meðal helstu áhrifaþátta í veikingunni frá júníbyrjun. 

Verðbólga óx umtalsvert á liðnu ári, úr 5,7% í byrjun árs upp í 9,6% í árslok. Mikil verðhækkun á innfluttum vörum í kjölfar Úkraínustríðsins, veiking krónu á seinni hluta ársins, hröð hækkun íbúðaverðs og vaxandi þensla innanlands lögðust á eitt um að þrýsta upp verðlagi innanlands á árinu. Verðbólga náði hámarki í tæplega 10% í júlí og hjaðnaði heldur eftir það þrátt fyrir bakslag í þeirri leitni í desembermánuði. 

Seðlabankinn brást við versnandi verðbólguhorfum og vaxandi þenslumerkjum í hagkerfinu með verulegri hækkun stýrivaxta, sem fóru úr 2,0% í ársbyrjun í 6,0% í lok árs. Hækkun stýrivaxta endurspeglaðist í hækkun á raunvöxtum eftir því sem leið á árið 2022. Þannig hækkaði ávöxtunarkrafa á lengri flokkum verðtryggðra ríkisbréfa úr u.þ.b. 0,5% í  tæp  2,0% á tímabilinu. Á lokamánuðum ársins tóku loks að koma fram vísbendingar um að aukið peningalegt aðhald væri tekið að hafa áhrif, t.d. á þróun íbúðaverðs og einkaneyslu. 

Útlit fyrir að 2023 verði ár aðlögunar í efnahag Íslands 

Útlit er fyrir að hagvöxtur verði mun hægari á yfirstandandi ári en verið hefur, eða ríflega 3%. Útflutningsvöxtur verður væntanlega helsti drifkraftur hagvaxtar en framlag neyslu og fjárfestingar til vaxtar minnkar talsvert milli ára. Að sama skapi eru horfur á að vöxtur innflutnings verði umtalsvert hægari á árinu 2023 en undanfarin ár. 

Aukin umsvif í ferðaþjónustu munu væntanlega leika lykilhlutverk í vexti útflutnings á árinu enda eru horfur á að fjöldi ferðamanna kunni að fara yfir tvær milljónir í fyrsta skipti frá árinu 2019. Talsverð óvissa er þó um hvort, og þá hversu mikið, erfiðar efnahagsaðstæður muni draga úr ferðavilja fólks í Evrópu og Bandaríkjunum hingað til lands þótt enn sjáist þess lítil sem engin merki. Auk þess eru horfur á vaxandi útflutningi eldisfisks, áls og annarra iðnaðarvara ásamt auknum útflutningstekjum af hugverkanotkun svo nokkuð sé nefnt. 

Hægari vöxtur kaupmáttar, áhrif hærra vaxtastigs og stöðugra atvinnuástand eru meðal áhrifaþátta á hægari vöxt einkaneyslu á yfirstandandi ári en verið hefur síðustu misseri. Þá er útlit fyrir að umtalsverður vöxtur íbúðafjárfestingar og hóflegur vöxtur fjárfestingar atvinnuvega vegi þyngra en samdráttur í opinberri  fjárfestingu  og fjármunamyndun vaxi nokkuð frá fyrra ári . Hærra vaxtastig og dvínandi væntingar um rekstrarumhverfi margra fyrirtækja er meðal þeirra þátta sem draga munu úr fjárfestingarvilja og -getu í atvinnulífinu.  

Kjarasamningar sem gerðir voru á stórum hluta almenns vinnumarkaðar í lok árs 2022 gefa tóninn um launaþróun á árinu. Horfur eru á að laun hækki almennt um u.þ.b. 8% á yfirstandandi ári. Lægri tekjuhóparnir hækka hlutfallslega meira í launum en þeir tekjuhærri þó svo munurinn verði talsvert minni en síðustu ár þar sem um blöndu af krónutölu- og prósentuhækkun er að ræða að þessu sinni. Útlit er fyrir nokkuð spenntan vinnumarkað framan af ári og líklega mun atvinnuleysi áfram verða svipað að jafnaði á árinu og það var í lok síðasta árs, þ.e. ríflega 3% af vinnuafli. 

Útlit er fyrir að gengi krónu verði áfram lægra næsta kastið en það var að jafnaði á síðasta ári. Þegar lengra líður á árið aukast þó líkur á einhverri styrkingu krónu með hagfelldari viðskiptajöfnuði. Horfur fyrir viðskiptajöfnuð eru þó nokkuð tvísýnni fyrir árið í heild en áður var vænst. 

Stöðugri króna, hægari verðhækkun á innfluttum vörum ásamt betra jafnvægi á íbúðamarkaði og minnkandi þenslu innanlands verða líklega lykilþættir í hjaðnandi verðbólgu á árinu 2023. Þar hefur aukið peningalegt aðhald Seðlabankans ekki síst áhrif. Útlit er fyrir að verðbólga verði að jafnaði ríflega 7% á árinu en hjaðni í ríflega 6% fyrir árslok. Talsverður innlendur kostnaðarþrýstingur er þó enn í pípunum og mun hann verða einn helsti verðbólguvaldurinn þegar fram í sækir. Líkur eru á að stýrivextir Seðlabankans verði heldur hærri framan af ári en var í lok síðasta árs. Á lokafjórðungi ársins gæti þó hægfara lækkunarferli vaxta hafist að því gefnu að verðbólga sé þá tekin að hjaðna töluvert. 

Það er því aðlögunarferli framundan í íslensku hagkerfi þótt horfur um efnahag og atvinnuástand séu með betra móti í samanburði við ýmis nágrannalönd Íslands.