Efnahagságrip

Eftir gjöfult hagvaxtarskeið er hafinn aðlögunartími í íslensku hagkerfi


Góðu heilli eru fjölmargar stoðir íslenska hagkerfisins býsna sterkar um þessar mundir og er útlit fyrir að aðlögunin verði fremur léttbær og lífskjör þorra landsmanna haldi áfram að vera eins og best gerist meðal landa heims.

2019

Óhætt er að segja að undanfarinn áratugur hafi verið gjöfull tími í íslenskum efnahag. Eftir alvarleg áföll í lok fyrsta áratugar aldarinnar eru lífskjör á flesta mælikvarða orðin jafngóð eða betri en þau voru fyrir áföllin. Helsta skýring þessa er að þriðja auðlindin, þ.e. sérstaða Íslands og íslenskrar náttúru, bættist við fiskimiðin og endurnýjanlega orku sem meginundirstaða útflutningstekna. Auk þess tókst farsællega til við úrlausn mála tengdum bankahruninu og árangursrík hagstjórn hefur einnig lagt lóð á vogarskálarnar. Bakslag í ferðaþjónustu á fyrri helmingi síðasta árs varð hins vegar til þess að þáttaskil urðu í hagkerfinu og tími aðlögunar hófst eftir mikið vaxtarskeið. Útlit er fyrir að hagvöxtur hafi verið 0,3% á árinu 2019 í heild. Snarpur samdráttur í fjármunamyndun atvinnuvega og þjónustuútflutningi hefur þar vegist á við vöxt neyslu og mikinn samdrátt innflutnings.

Utanríkisviðskipti áfram hagfelld

Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var umtalsverður í fyrra þrátt fyrir fækkun ferðamanna og loðnubrest. Vöruskiptahalli á nýliðnu ári var raunar sá minnsti frá árinu 2015, bæði vegna verulegs samdráttar í innflutningi og jákvæðari þróunar útflutnings en vænst var. Að sama skapi var þróun þjónustuviðskipta hagfelldari en búist var við. Þrátt fyrir þung högg á útflutningsgreinar árið 2019 lítur út fyrir að viðskiptaafgangur hafi verið með myndarlegra móti það ár og numið ríflega 4% af VLF. Fjárfesting lét nokkuð undan síga á árinu 2019 eftir samfelldan vöxt fimm árin á undan. Vöxtur íbúðafjárfestingar var þó kraftmikill en samdráttur í fjárfestingu atvinnuvega og hins opinbera vó þyngra. Myndarlegur vöxtur íbúðafjárfestingar hefur orðið til þess að auka framboð nýrra íbúða jafnt og þétt og færa fasteignamarkaðinn í betra jafnvægi. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði á árinu 2019 um 2,3% og er það hægasta hækkun frá árinu 2011. Á síðasta ári varð talsverður viðsnúningur á vinnumarkaði. Atvinnuleysi jókst um u.þ.b. prósentu af vinnuafli og hækkun launa var sú hóflegasta frá árinu 2010. Gjaldþrot WOW Air og samdráttur í ferðaþjónustu skýra þessa þróun að stórum hluta ásamt hagræðingu í bankakerfinu og víðar. Hægari hækkun raunlauna og vaxandi atvinnuleysi eru meðal helstu skýringa á fremur hægum vexti einkaneyslu á síðasta ári.

Krónan var stöðug og verðbólga hjaðnaði

Eftir 9% gengislækkun krónu á seinni helmingi ársins 2019 var gengi krónu á síðasta ári stöðugra á ýmsa mælikvarða en nokkurt annað ár frá því gengi krónu var látið fljóta í byrjun aldarinnar. Sviptingar í efnahagslífinu höfðu þannig mjög takmörkuð áhrif á gengisþróunina í fyrra. Þá hjaðnaði verðbólga umtalsvert á árinu. Í árslok mældist verðbólga 2,0% og hafði þá ekki verið minni í tvö ár. Á árinu 2019 voru stýrivextir Seðlabankans lækkaðir um 1,5 prósentur eftir því sem verðbólguhorfur bötnuðu og dró úr spennu í efnahagslífinu. Hafa stýrivextir ekki verið lægri frá því verðbólgumarkmið var tekið upp á vordögum árið 2001.

Frekari aðlögun framundan á árinu 2020

Á yfirstandandi ári er útlit fyrir fremur hægan hagvöxt, eða 1,4%. Verður vöxturinn drifinn af hóflegri aukningu innlendrar eftirspurnar en útlit er fyrir mjög hægan útflutningsvöxt. Þrátt fyrir þessa þróun eru góðar líkur á að áfram verði talsverður afgangur af utanríkisviðskiptum. Horfur eru á að fjárfesting taki við sér að nýju á þessu ári og munar þar mestu um vöxt atvinnuvegafjárfestingar eftir tvö samdráttarár. Þá er útlit fyrir að fjárfesting hins opinbera taki einnig við sér í ár en að á móti hægi verulega á vexti íbúðafjárfestingar. Þá lítur út fyrir að íbúðaverð hækki í stórum dráttum í takti við almenna hækkun verðlags.

Þrátt fyrir að undirritun lífskjarasamningsins hafi verið í heild sinni jákvæð er enn nokkur óvissa á vinnumarkaði. Ásamt vaxandi atvinnuleysi verður þetta til þess að heimilin munu halda að sér höndum í ár og vöxtur einkaneyslu verður áfram hægur. Svo virðist sem núverandi gengi krónu sé innan þess raungengisbils sem samræmist innra og ytra jafnvægi í hagkerfinu. Góðar líkur eru á því að gengi krónu verði áfram á svipuðum slóðum og verið hefur undanfarið ár, að því gefnu að ekki verði óvæntar og umtalsverðar breytingar á helstu áhrifaþáttum.

Horfur eru á að verðbólga muni haldast undir markmiði Seðlabankans á þessu ári, og mælast að meðaltali um 2,2%. Hófleg verðbólga og minnkandi spenna í efnahagslífinu mun væntanlega leiða til lágs grunnvaxtastigs á árinu 2020 og lítur út fyrir langtímavextir muni verða lægri að meðaltali á þessu ári en þeir hafa verið síðan vextir voru gefnir frjálsir fyrir rúmum 30 árum. Þótt árið 2020 verði að mörgu leyti krefjandi ár í efnahagslegu tilliti eru fjölmargar stoðir íslenska hagkerfisins býsna sterkar um þessar mundir. Batnandi skuldastaða heimila, fyrirtækja og hins opinbera hefur þar skipt miklu. Útlit er því fyrir að aðlögunin verði flestum tiltölulega léttbær eftir mikið vaxtarskeið undanfarinn áratug.