Ávarp bankastjóra

Viðskiptavinurinn áfram í fyrsta sæti


Umhverfi banka er sífellt að þróast í nýjar áttir sem felur í sér spennandi tækifæri en jafnframt ógnir sem vert er að huga að. Við töldum því nauðsynlegt á árinu 2019 að endurmeta stefnu bankans til að sjá hvar við gætum gert betur og leggja línurnar fyrir framtíðina.

Lagt var í mikla vinnu á fyrri hluta ársins við að endurskoða stefnuna útfrá rekstri bankans. Við fengum til liðs við okkur alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group, skipuðum vinnuhópa innan bankans, héldum fjölmargar vinnustofur og leituðum álits ytri aðila. Útkoman er ný stefna fyrir bankann sem kynnt var á stefnufundi með öllu starfsfólki á vormánuðum 2019.

Við skilgreindum nýtt hlutverk fyrir bankann sem „hreyfiafl til góðra verka“. Með þessu viljum við stuðla að ábyrgum, arðsömum og sjálfbærum rekstri og jafnframt hvetja viðskiptavini okkar til góðra verka. Við völdum okkur þrjú ný gildi „eldmóður, fagmennska og samvinna“ og ákváðum að viðhalda sömu framtíðarsýn um að vera „númer #1 í þjónustu.“ Þetta er að mínu mati það mikilvægasta sem við gerum, þ.e. að veita viðskiptavinum bestu þjónustuna hverju sinni. Við erum hins vegar meðvituð um að væntingar neytenda og skilgreining á góðri þjónustu hefur breyst hratt á undanförnum árum og því er náið samtal við viðskiptavini okkar mikilvægara en nokkru sinni.

Áfram verður unnið að því að einfalda og auka skilvirkni í rekstri bankans en jafnframt að hugsa stórt og skapa þannig samkeppnisforskot til framtíðar. Skilgreind hafa verið verkefni til fimm ára sem munu styðja við þau markmið sem bankinn ætlar að ná fram með nýrri stefnu. Mikill árangur hefur nú þegar nást við innleiðingu stefnunnar og framundan er frekari þróun á stafræna sviðinu sem við erum spennt að vinna í samstarfi við okkar viðskiptavini og samstarfsaðila.

Stafrænn stórmeistari í þjónustu við


Við héldum áfram að fjárfesta í upplýsingatækni á árinu 2019 til að gera bankann eins öruggan og samkeppnishæfan og mögulegt er. Við breyttum skipulagi á upplýsingatækni hjá bankanum úr því að vera verkefnadrifið í vörumiðað skipulag. Sett hafa verið í gang vöruteymi sem eru leidd af vörustjórum sem koma úr viðskiptaeiningum bankans. Með þessu móti tengjast viðskiptasviðin betur við stafrænu vöruþróunina okkar sem er að verða sífellt mikilvægari fyrir reksturinn. Markmið okkar er að bjóða upp á einstaklingsmiðaða þjónustu í gegnum stafrænar lausnir með áherslu á meiri sjálfvirkni sem mun styðja við enn betri þjónustu og ná niður kostnaði.

Viðskiptavinirnir eru ánægðir með þessa þróun og nýttu sér stafrænar lausnir bankans í meira mæli en nokkru sinni áður á árinu. Nýja appið okkar hefur fengið frábærar viðtökur og hlökkum við til að kynna á næstunni nýjar stafrænar lausnir tengdar við sjálfvirkt endurfjármögnunarferli á húsnæðislánum og stafræn verðbréfaviðskipti svo eitthvað sé nefnt.

Sjálfbær þróun er fjárfesting til framtíðar


Óhætt er að segja að sjálfbærni hafi verið í sviðsljósinu á heimsvísu á árinu 2019. Við finnum fyrir áhuga hjá viðskiptavinum og fjárfestum á sjálfbærni og verandi eitt af stærri fyrirtækjum landsins þá gegnir bankinn mikilvægu samfélagslegu hlutverki. Fjölmargar rannsóknir og greinar benda til þess að þau fyrirtæki sem tengja sjálfbærni við kjarnastarfsemi sína njóti margvíslegs ávinnings. Þetta kemur meðal annars fram í betri stýringu á áhættu, lækkun á kostnaði, fjölbreyttu aðgengi að fjármagni, aukinni nýsköpun og styrkingu viðskiptasambanda. Einnig er líklegt að fyrirtækjum sem leggja áherslu á sjálfbærni gangi betur að laða að hæft starfsfólk og halda í það.

Þetta er ástæðan fyrir því að við höfum samþykkt framsýna sjálfbærnistefnu. Markmið okkar er að samþætta sjálfbærnisjónarmið í starfsemi bankans við arðsemismarkmið hans. Við munum styðjast við alþjóðleg viðmið um umhverfis- og félagslega þætti og stjórnarhætti í rekstri okkar og í ár birtum við í fyrsta skipti sameiginlega árs- og sjálfbærniskýrslu sem tekur mið af þessum þáttum. Við ætlum að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og samheldinn hópur starfsmanna valdi að leggja áherslu á fjögur þeirra: menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og uppbyggingu, og aðgerðir í loftslagsmálum.

Innleiðing á sjálfbærni er langtímaverkefni hjá okkur í Íslandsbanka sem og annars staðar í viðskiptalífinu og samfélaginu. Við áskiljum okkur rétt til að hafa skoðanir á því hvernig hlutirnir eiga að vera en við gerum okkur jafnframt grein fyrir að við erum ekki fullkomin frekar en aðrir. En einhvers staðar þurfum við að byrja og við viljum eiga gott samtal og samstarf við viðskiptavini og samstarfsaðila okkar um þessi mál og vera þannig hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu.

Afkoma í samræmi við væntingar, lánasafn


Breytingar á efnahagsmálum á fyrri hluta ársins sköpuðu krefjandi aðstæður og rekstrarumhverfi fyrir marga viðskiptavini bankans. Við erum þó glöð að sjá viðnámsþrótt efnahagskerfisins og jákvæðari hagtölur fyrir árið 2019 en margir bjuggust við. Tekjur bankans jukust um 7,8% á árinu og annar rekstrarkostnaður fór lækkandi en líkt og á árinu 2018 hafði rekstur dótturfélaga neikvæð áhrif á afkomu samstæðunnar. Afkoma bankans á árinu 2019 var góð og skilaði samstæðan hagnaði upp á 8,5 milljarða króna. Það samsvarar 4,8% arðsemi eiginfjár sem er undir langtímaarðsemismarkmiði. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 6,6%. Vöxtur inn- og útlána á árinu var kröftugur eða um 6,8% og 6,3% og var hlutfall lána með laskað lánshæfi 2,4% í lok árs 2019, í takt við spár bankans. Aðstæður á fjármagnsmörkuðum, hér heima sem erlendis, voru bankanum hagfelldar á árinu og var fjármögnun bankans áfram farsæl og fjölbreytt. Íslandsbanki gaf m.a. út á árinu sitt þriðja víkjandi skuldabréf er telur til eiginfjárþáttar 2 og almennt skuldabréf í íslenskum krónum sem er fyrsta sinnar tegundar í útgáfu viðskiptabankanna þriggja. Lausa- og eiginfjárhlutföll bankans héldust því áfram sterk og voru vel yfir innri viðmiðum og kröfum eftirlitsaðila.

Kröftugur rekstur og góður efnahagur, þar sem áhættu er vel stýrt, eru grunnþættir í afkomu bankans og mun Íslandsbanki, eftir sem áður, vera vel í stakk búinn til að styðja við vöxt og viðgang efnahagslífsins. Arðsemi og eiginfjárstaða bankans munu þó hafa áhrif á lánavöxt til framtíðar.

Mikil umsvif í fjárfestingabanka,


Á árinu 2019 hægði á hagvexti en við hjá Íslandsbanka erum þó ánægð með árangurinn á árinu. Við vorum stærst á markaðnum í miðlun verðbréfa, fyrirtækjaráðgjöfin átti mjög sterkt ár og kláraði mörg góð verkefni og gjaldeyrismiðlun átti sitt besta ár frá árinu 2008. Eignir í stýringu jukust um fjórðung á árinu sem og eignir í vörslu. Auk þess áttu Íslandssjóðir mjög gott ár og voru sjóðir félagsins í fyrsta sæti í ávöxtun á landsvísu í þremur flokkum af fjórum.

Við studdum dyggilega við lítil og meðalstór fyrirtæki á sviði frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar á árinu og gáfum út áhugaverða skýrslu með Reykjavik Economics þessu tengt. Við veittum styrki að fjárhæð 30,5 milljónir króna til níu spennandi frumkvöðlaverkefna sem öll styðja við heimsmarkmið SÞ með einum eða öðrum hætti og við hlökkum til að sjá þessi fyrirtæki vaxa og gera góða hluti í framtíðinni.

Þakklæti til starfsfólks og viðskiptavina


Ég er þakklát starfsfólki bankans sem af fagmennsku sinni leggur sig í hvívetna fram af miklum eldmóð um að veita afburða þjónustu fyrir viðskiptavini Íslandsbanka. Framundan eru spennandi en krefjandi tímar og við hlökkum til að vinna áfram að nýju stefnunni í samvinnu við viðskiptavini og samstarfsaðila okkar.