Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Árshlutauppgjör Íslandssjóða 2021

Hagnaður verðbréfa- og fjárfestingasjóða Íslandssjóða á fyrstu sex mánuðum ársins var stöðugur á milli ára og nam 8,2 milljörðum króna sem renna til yfir 11.000 viðskiptavina félagsins í formi ávöxtunar.


Starfsemi Íslandssjóða gekk vel á fyrri hluta ársins og skiluðu sjóðir félagsins góðri ávöxtun en meðalávöxtun sjóða nam um 16% á ársgrunni. Innlendir hlutabréfasjóðir skiluðu hæstri ávöxtun eða 24-35% á tímabilinu.

Hagnaður af rekstri Íslandssjóða hf. var 466 milljónir króna á fyrri hluta ársins samanborið við 169 milljónir króna á sama tíma árið áður. Hjá félaginu starfar 21 sérfræðingur í eignastýringu, 10 konur og 11 karlar, sem nýta aðferðir ábyrgra fjárfestinga í allri eignastýringu. Alls voru eignir í stýringu hjá Íslandssjóðum 377 milljarðar króna í lok júní. Þá stýra Íslandssjóðir stærsta græna skuldabréfasjóði landsins sem hefur fjárfest fyrir um 3 milljarða króna í skuldabréfum sem skráð eru á sjálfbæran markað Nasdaq Iceland.

Afkoma Íslandssjóða hf. fyrstu sex mánuði ársins 2021

  • Hagnaður sjóða sem rennur til viðskiptavina í formi ávöxtunar nam 8.216 m.kr. samanborið við 8.233 m.kr. árið áður.
  • Hagnaður félagsins eftir skatta var 466 m.kr. samanborið við 169 m.kr. á sama tímabili 2020.
  • Þóknanatekjur námu 1.028 m.kr. samanborið við 798 m.kr. á sama tímabili í fyrra og hækkuðu um 29%.
  • Rekstrargjöld námu 657 m.kr. samanborið við 629 m.kr. á sama tímabili í fyrra og hækkuðu um 4,5%.
  • Eigið fé 30. júní 2021 var 1.963 m.kr. og eiginfjárhlutfall, reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 50,5% en má lægst vera 8%.
  • Í lok júní voru 22 verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir í rekstri hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 216 milljörðum króna samanborið við 200 milljarða króna í árslok 2020.

 Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða:

„Fyrri hluti ársins einkenndist af afar góðri ávöxtun á innlendum hlutabréfamarkaði auk þess sem verðtryggð skuldabréf skiluðu góðri ávöxtun. Lágir vextir á innlánsreikningum hafa hvatt sparifjáreigendur til fjárfestingar í öðrum eignaflokkum og þar hefur góð eignadreifing í gegnum blandaða sjóði skilað einna bestum árangri. Það er ánægjulegt að sjá sparnað landsmanna aukast jafnt og þétt, sem meðal annars kemur fram í mikilli þátttöku við skráningu nýrra félaga á markað síðustu misserin. Áhersla á ábyrgar fjárfestingar er sífellt að aukast og er aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga beitt við stýringu allra okkar sjóða og eignasafna.“

Íslandssjóðir hf. er elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins, stofnað árið 1994 og er dótturfélag Íslandsbanka.   

Árshlutareikning félagsins er að finna hér.